Leikskólabörn úr Kópavogi hittust á Hálsatorgi við Hamraborg í morgun klukkan tíu og sungu Kópavogsbraginn Hér á ég heima og afmælissönginn í tilefni sextugsafmælis Kópavogs .
Gestir á leið á tónleika í tilefni stórafmælis Kópavogs sunnudaginn 10. maí eru hvattir til að skilja bíla eftir heima eða á bílastæðinu í Smáralind og taka strætó sem ekur um Kópavog í tilefni dagsins. Ókeypis er í strætóinn sem gengur á tíu mínútna fresti frá Hamraborg í Kórinn með viðkomu í Smáralind.
Stórtónleikar í Kórnum, sundlaugafjör, afmæliskaka, handverkssýning, sýning leikskólabarna, málþing og sögusýning er meðal þess sem boðið er upp á í tilefni sextugsafmælis Kópavogs. Tónleikarnir eru viðamesti viðburðurinn sem haldinn er í tengslum við afmæli bæjarins en þeir verða haldnir sunnudaginn 10. maí. Kópavogsbúum og öllum velunnurum bæjarins er boðið á tónleikana, aðgangur er ókeypis.
Jafnréttis- og mannréttindaráð Kópavogs efnir til afmælismálþings miðvikudaginn 6. maí klukkan 13 til 16.30. Málþingið er haldið í Salnum í Kópavogi. Karlar og femínismi, forréttindi og hversdagsleiki er meðal þess sem rætt verður á málþinginu þar sem rýnt er í jafnréttismál í samtímanum frá breiðu sjónarhorni. Þá verður ný jafnréttis- og mannréttindastefna bæjarins kynnt en hún var samþykkt í bæjarstjórn í liðinni viku. Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, setur málþingið opnar sýningu um frumkvöðla á meðal kvenna í Kópavogi í anddyri Salarins. Sýningin er sett upp að tilstuðlan afmælisnefndar Kópavogsbæjar í tilefni 100 ára afmælis kosningarréttar kvenna.