Hátíðarhöld um allan bæ 17.júní

Engin skrúðganga verður 17.júní í ár í Kópavogi, en bryddað upp á ýmsu í staðinn.
Engin skrúðganga verður 17.júní í ár í Kópavogi, en bryddað upp á ýmsu í staðinn.

Kópavogsbær vill gleðja sína íbúa eftir mikla inniveru síðustu mánuði og halda 17.júní hátíðlegan þó að hátíðarhöld séu með öðru sniði en vanalega, vegna fjöldatakmarkana.

Að þessu sinni verður áherslan á smærri hverfishátíðir auk þess sem bílalest fer um bæinn með Línu langsokk og Ronju ræningjadóttur í broddi fylkingar.

Dagskrá

10.00: 17.júní hlaup í umsjá Frjálsíþróttadeildar Breiðabliks.  Ætlað börnum í 1.-6.bekk.

12.00-14.00: Þá fara bílalestir um bæinn sem stoppa á vel völdum stöðum. Í bílalestunum verða Lína langsokkur, Ronja ræningjadóttir, Skólahljómsveit Kópavogs, Leikhópurinn Lotta, nýstúdentar og fjallkonur á ferðinni.

Bílalest 1:Leikskólinn Dalur kl. 12:15, Leikskólinn Lækur kl. 12:40, Kársnesskóli kl. 13:25

Bílalest 2:  Álfhólsskóli við Digranes kl. 12:25, Lindaskóli kl. 12:45, Vatnsendaskóli kl. 13:25

Aðalhátíðarhöldin verða svo á fimm stöðum í bænum. Alls staðar er rúmt um gesti þannig að hægt er að tryggja tveggja metra fjarlægð fyrir þá sem það kjósa. 

14.00-16.00: Hverfishátíðir á fjórum stöðum, við Fífuna, Fagralund, Salalaug og Kórinn.

 

Þar verður sviðum komið upp og stíga frábærir tónlistarmenn á svið á öllum stöðum. Þar verða kynnar og skemmtikraftar: Saga Garðarsdóttir, Ísgerður Elfa, Villi Neto og Villi naglbítur, GDRN, Jón Jónsson, Friðrik Dór, Herra Hnetusmjör, Söngvaborg, Lína langsokkur, Ronja ræningjadóttir og ræningjarnir úr Kardimommubæ. Listamennirnir koma allir fram á tveimur stöðum þannig að dagskráin er ólík á milli svæða en alls staðar mjög flott og skemmtileg. Hoppukastalar og tívolítæki, allt ókeypis.

Hoppukastalar og tívolítæki opna kl. 13.00.

Menningarhúsin í Kópavogi

13.00-16.00: Fjölbreytt fjölskyldudagskrá á útivistarsvæði Menningarhúsanna þar sem lögð verður áhersla á nýjan sumarleik Menningarhúsanna, Söfnum sumri. Þar verður einnig boðið upp á skemmtilega dagskrá frá Skapandi sumarstörfum, sirkus, Húlladúllu og fjölda útileikja. Allt ókeypis.

14.00 og 15.00: Valgerður Guðnadóttir og Sigurður Helgi flytja sígræna sumarsmelli fyrir alla fjölskylduna í salnum.

10.00 - 17:00: Gerðarsafn opið. Ókeypis aðgangur.

11.00 - 16:00: Bókasafn Kópavogs og Náttúrufræðistofa opið.

10.00-18.00: Opið í Sundlaug Kópavogs

„Vegna aðstæðna í þjóðfélaginu var ljóst að ekki væri unnt að hafa hátíðarhöld með hefðbundnum hætti, og skrúðganga og hefðbundin hátíðarhöld á Rútstúni kæmu ekki til greina. Hins vegar var ríkur vilji til þess að gefa íbúum Kópavogs tækifæri til þess að gleðjast á þjóðhátíðardeginum. Niðurstaðan varð að dreifa hátíðarhöldum um bæinn en ég lofa mjög skemmtilegri og fjölbreyttri dagskrá þar sem áherslan er á að gleðja börn og ungmenni,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs.

„Við  hvetjum íbúa til þess að fylgjast vel með vefsíðu og Facebook-síðu Kópavogsbæjar. Við vonum að íbúar taki þessu vel og sjái sér fært að mæta á óhefðbundna 17. júní hátíð. Þá leggjum við sérstaka áherslu á það í ár að fólk komi gangandi eða hjólandi á viðburðina. Einnig er um að gera að draga fánann að húni í heimahúsum og gleðjast í garðinum heima,“ segir Soffía Karlsdóttir forstöðumaður menningarmála í Kópavogi.

„Lista- og menningarráð bæjarins hefur lýst ánægju sinni með framtakið og þess má geta að við höfum unnið þetta í góðu samstarfi og samtali við Almannavarnir og lögregluna á höfuðborgarsvæðinu.“ bætir hún við.