- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Dagskrá RIFF - Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík fer að hluta fram í menningarhúsum Kópavogsbæjar í haust. Samkomulag um samstarf Listhúss Kópavogsbæjar, lista- og menningarráðs og RIFF var undirritað í Kópavogi í dag. Framlag lista- og menningarsjóðs til hátíðarinnar nemur 3,5 milljónum króna.
Kvikmyndir fyrir börn verða sýndar í Bókasafni Kópavogs, auk þess sem viðburðir tengdir kvikmyndum verða á fleiri stöðum á torfunni, meðal annars í Salnum og Tónlistarhúsi Kópavogs. Þá verða í boði námskeið í kvikmyndagerð fyrir ungt fólk. Dagskráin í Kópavogi er unnin í góðu samstarfi forsvarsmanna RIFF, lista- og menningarráðs og forstöðumanna menningarhúsa bæjarins. Dagskráin verður auglýst nánar er nær dregur.
„ Við erum afar þakklát og ánægð með samvinnu við Kópavogsbæ. Kópavogsbær hefur löngum verið þekktur fyrir öflugt menningar- og listalíf, og það er einlæg von mín og trú að kvikmyndalistin og Kópavogur muni auðga hvort annað á komandi árum. Kópavogsbúar geta nú fengið margt af því besta sem er að gerast í kvikmyndaheiminum í næsta nágrenni við sig, og hver veit nema erlendir leikstjórar finni nýjan innblástur þar,“ sagði Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi RIFF, við tækifærið.
Karen E. Halldórsdóttir, formaður lista- og menningarráðs, tók í sama streng: „Líflegt menningarstarf fer fram í menningarhúsum Kópavogsbæjar allan ársins hring en með samstarfi okkar við RIFF bætum við enn við þá flóru. Með því gefum við Kópavogsbúum og öðrum gestum ekki einungis færi á að njóta alþjóðlegrar kvikmyndagerðar heldur drögum við jafnframt fram þá frábæru aðstöðu til menningar og lista, sem finna má á menningartorfu bæjarins.“
RIFF er einn af stærstu og fjölbreyttastu menningarviðburðum á Íslandi. Hátíðin setur unga kvikmyndagerðarmenn og framsækna kvikmyndagerð á oddinn. Hátíðin í ár er sú ellefta í röðinni og mun hún standa frá 25.september - 5. október 2014.