Reykjanesbraut þveruð

Á mynd eru frá vinstri: Hrafnkell Proppé, Þorsteinn Helgason, arkitekt FAÍ, Jakob Jakobsson, arkite…
Á mynd eru frá vinstri: Hrafnkell Proppé, Þorsteinn Helgason, arkitekt FAÍ, Jakob Jakobsson, arkitekt FAÍ, aðstoð veittu: Anna Margrét Sigmundsdóttir, arkitekt FAÍ, Páll Gunnlaugsson, arkitekt FAÍ, Ármann Kr. Ólafsson.

Tillagan Borg í mótun/Grænn miðbær var hlutskörpust í hugmyndasamkeppni um þverun Reykjanesbrautar ásamt byggð yfir og/eða við Reykjanesbraut auk tengingar fyrir vistvæna ferðamáta í svæðiskjarna í Smára.

Niðurstaða keppninnar var kynnt í dag og verðlaunahöfum veittar viðurkenningar.  

Bæjarstjórn Kópavogs átti frumkvæðið að hugmyndasamkeppninni sem samþykkt var einum rómi í bæjarstjórn 11.maí, 2021.

Hugmyndasamkeppnin var unnin í samvinnu Kópavogsbæjar og Arkitektafélags Íslands. Markmið Kópavogsbæjar með samkeppninni var meðal annars að styrkja svæðiskjarnann í Smára og efla tengsl á milli svæða innan kjarnans fyrir alla ferðamáta. Verðlaunatillögur verða til sýnis í Bókasafni Kópavogs fram yfir helgi og og aðgengilegar á vef Kópavogsbæjar.

Höfundar verðlaunatillögunnar eru ASK arkitektar ehf., Þorsteinn Helgason, arkitekt FAÍ, Jakob Jakobsson, arkitekt FAÍ, aðstoð veittu: Anna Margrét Sigmundsdóttir, arkitekt FAÍ og Páll Gunnlaugsson, arkitekt FAÍ.

Úr umsögn dómnefndar um verðlaunatillögu:

„Í tillögunni er Reykjanesbraut lögð í stokk á nær öllu samkeppnissvæðinu og þannig myndast fjöldi nýrra tenginga fyrir alla samgöngumáta og bætt hljóðvist. Fífuhvammsvegur og Skógarlind færast upp á yfirborðið og verða hluti nýs gatna[1]nets sem fléttar svæðin saman á áreynslulausan og sannfærandi hátt. Gert er ráð fyrir mikilli uppbyggingu meðfram stokki Reykjanesbrautar. … Hér er lögð fram hugrökk leið að því marki að skapa nýtt, mannvænt og spennandi miðbæjarumhverfi fyrir Kópavog. Inngrip í Reykjanesbraut eru mikil og munu gerbreyta öllu yfirbragði svæðisins.“

Dómnefnd var skipuð eftirfarandi aðilum: Hrafnkell Ásólfur Proppé, skipulagsfræðingur, formaður dómnefndar, fulltrúi Kópavogsbæjar Bergljót Kristinsdóttir, bæjarfulltrúi, fulltrúi Kópavogsbæjar Hjördís Ýr Johnson, bæjarfulltrúi, fulltrúi Kópavogsbæjar Birkir Einarsson, landslagsarkitekt FÍLA Hans-Olav Andersen, arkitekt FAÍ, MNA.

Í öðru sæti var tillagan Smárahvammur. Höfundar hennar eru: Arna Kristjánsdóttir, samgönguverkfræðingur, Berglind Hallgrímsdóttir, samgönguverkfræðingur, Hlynur Hugi Jónsson, landslagsarkitekt, Ómar Ingþórsson, landslagsarkitekt, Pétur Jónsson, landslagsarkitekt, Svana Rún Hermannsdóttir, landslagsarkitekt, Silja Traustadóttir, arkitekt, Þröstur Þór Bragason, miðlunarfræðingur, Guðmundur Sigfinnsson, hagfræðingur.

Þriðju verðlaun hlaut tillagan: Kjarninn – ávöxtur til framtíðar. Höfundar hennar eru: VSÓ ráðgjöf. Starfsfólk sem kom að tillögu: Andrea Kristinsdóttir, Orri Gunnarsson, Samúel Torfi Pétursson, Smári Ólafsson.

Þess má geta að nafnleyndar var gætt í samkeppninni og átti hún við um innsendar tillögur, fyrirspurnir og svör við fyrirspurnum.

Í viðhengi er skjal þar sem fjallað er nánar um tillögurnar, markmið Kópavogsbæjar og áherslur dómnefndar.

Skoða niðurstöður hugmyndasamkeppninnar

Smáravöllur - Almenningsgarður í borg

Yfirlitsmynd