- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Málefnasamningur nýs meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks var lagður fram í bæjarráði Kópavogs fimmtudaginn 14. júní.
Meðal þess sem fram kemur í málefnasamningnum er að unnið verður að stefnumótun í mennta- og ferðamálum, framboð á félagslegu húsnæði verður aukið og rekstrarfyrirkomulag þess endurskoðað, starfsumhverfi kennara og starfsfólks í leik- og grunnskólum bætt, þá verður áhersla á flokkun sorps og vistvæna orkugjafa í umhverfismálum. Þá er í málefnasamningnum lögð áhersla á að nýjungar í tæknilausnum verði notaðar til að bæta stjórnsýsluna og aðra þjónustu við Kópavogsbúa
Lögð verður áhersla á heilsueflingu eldri borgara. Í efri byggðum verður opnuð lestrar- og menningarmiðstöð en þá verður umhverfi Hamraborgarsvæðisins bætt. Skattar og gjöld verða lækkuð, skilvirkni stjórnsýslu aukin og skuldir bæjarsjóðs lækkaðar.
„Málefnasamningurinn er ítarlegur og kannski fyrst og fremst verkefnalisti fyrir komandi kjörtímabil þar sem leitast er við að bæta þjónustu við íbúana. Sérstök áhersla er lögð á leik- og grunnskólana um leið og mikið er lagt upp úr snjallvæðingu stjórnsýslunnar og annarrar þjónustu,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs og oddviti Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Kópavogs.
„Í málefnasamningnum er lögð sérstök áhersla á málefni eldri borgara og metnað í þeim málaflokki. Ég er mjög ánægður með áherslur í skólamálunum og einnig þær áherslur sem snúa að íþróttum og tómstundum barna í Kópavogi,“ segir Birkir Jón Jónsson formaður bæjarráðs Kópavogs og oddviti Framsóknarflokks í bæjarstjórn Kópavogs.
Málefnasamningurinn skiptist í níu hluta: Skóla- og menntamál, eldri borgara, velferðarmál, íþrótta- og æskulýðsmál, umhverfismál, samgöngur, skipulagsmál, rekstur- og stjórnsýslu og skemmtilegri bær.
Ármann Kr. Ólafsson verður bæjarstjóri Kópavogs, Birkir Jón Jónsson formaður bæjarráðs. Forseti bæjarstjórnar verður Margrét Friðriksdóttir.