- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Kópavogsbær hlaut hæsta styrkinn úr Barnamenningarsjóði við styrkúthlutun 24.maí 2020. Styrkurinn var veittur Kópavogsbæ fyrir verkefnið Vatnsdropann sem unnið er í samstarfi við H.C. Andersen safnið í Óðinsvéum, Múmín-safnið í Tampere og Undraland Ilons Wikland í Haapsalu, Eistlandi.
Úthlutunin fór fram í Hörpu að viðstöddum Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, og Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem fluttu ávörp við tækifærið.
Vatnsdropinn hlaut 6,5 milljónir króna en verkefnið er fyrsta alþjóðlega og þverfaglega menningarverkefnið sem tengir norrænar barnabókmenntir við þróunarmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Verkefnið er til þriggja ára og fer fram í fjórum löndum. Það byggir á vinnusmiðjum, sýningum og viðburðum fyrir almenning þar sem norræn skólabörn verða virkjuð í sýningarstjórn og allri framkvæmd. Þá hlutu tvö verkefni Menningarhúsanna í Kópavogi styrk úr sjóðnum.
„Það er mikil viðurkenning á starfsemi okkar innan Menningarhúsanna í Kópavogi að taka á móti svo rausnarlegu framlagi frá Barnamenningarsjóði. Verkefnin okkar þrjú sem hlutu styrk miða öll að því að leita nýrra leiða til að kynna fyrir börnum hvernig unnt er að taka þátt í skapandi menningarstarfi og um leið að veita þeim farveg til að taka virkan þátt í skipulagi og framkvæmd menningarverkefna sem þeim stendur til boða,“ segir Soffía Karlsdóttir forstöðumaður menningarmála hjá Kópavogsbæ.
Verkefnin sem hlutu styrk auk Vatnsdropans eru annars vegar verkefnið Í takti – unglingar og samtímalist sem Gerðarsafn hlaut í samstarfi við ellefu sjálfstætt starfandi listamenn. Verkefnið, sem hlaut 4 milljónir króna styrk, felst í því að Gerðarsafn leggur við hlustir um það hvernig unglingar kjósa að upplifa samtímalist. Verkefnið byggir á samtali milli safns og unglinga og er leitt af þverfaglegum hópi listamanna. Þau finna sér afdrep innan safnsins og koma til með að hafa mótandi áhrif á starfsemina. Unglingarnir finna sínar leiðir til fræðast um samtímalist og safnið lærir af þeim.
Hins vegar fengu Menningarhúsin í Kópavogi 4 milljónir fyrir smiðjur óháð tungumáli í myndlist, tónlist og ritlist. Í smiðjunum leiðbeina listamenn frá Póllandi, Íslandi og Serbíu á pólsku, spænsku, ítölsku, þýsku, ensku og íslensku með það að leiðarljósi að börn og tvær fjölskyldur geti notið skapandi stunda óháð tungumáli eða menningarbakgrunni. Verkefnið byggir á fjölþjóðlegu barnamenningarverkefni sem hlaut styrk frá Barnamenningarsjóði 2019.
Alls hlutu 41 verkefni styrki sem námu alls 92 milljónum króna en 112 umsóknir bárust. Úthlutað er úr sjóðnum í annað sinn en hann var stofnaður í tilefni aldarafmælis fullveldisins. Hlutverk sjóðsins er að styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífinu.