- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Rekstrarafgangur Kópavogsbæjar nam 2,2 milljörðum króna árið 2017. Það er tæpum tveimur milljörðum meira en gert hafði verið ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Skuldahlutfall bæjarins var 133% í árslok en gert hafði verið ráð fyrir 140%. Ársreikningurinn endurspeglar sterka fjárhagsstöðu bæjarfélagsins.
„Þessi góða niðurstaða ársreikningsins markar tímamót hjá Kópavogsbæ. Við höfum undanfarin ár lagt mikla áherslu á aðhald í rekstri og greiða niður skuldir. Útsvarið er undir lögbundnu hámarki og við höfum lækkað skatta og álögur á hverju ári allt kjörtímabilið eins og lagt var upp með í málefnasamningi meirihlutans í upphafi þess. Ársreikningurinn sýnir að þær áherslur hafa skilað sér og við uppskerum eftir því. Hér hafa engin lán verið tekin fyrir framkvæmdum sem eru þó heilmiklar. Nú er mikilvægt að halda áfram á sömu braut og tryggja langtímahugsun í fjármálum bæjarins,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs.
Framkvæmdir
Fjárfest var fyrir um 2,5 milljarða í eigum bæjarins. Umfangsmesta framkvæmdin var bygging nýs íþróttahúss við Vatnsendaskóla sem nýtast mun skólanum og íþróttafélaginu Gerplu. Byggingu hússins er nær lokið og verður það vígt á næstunni. Þá voru settar upp 13 skólastofur við Kársnesskóla við Vallargerði en rýma þurfti Kársnesskóla við Skólagerði síðastliðið vor.
Þá var hafist handa við undirbúning á nýju húsnæði fyrir Skólahljómsveit Kópavogs en skóflustunga verður tekin að því á næstu vikum. Nýtt húsnæði við Askalind var keypt fyrir Þjónustumiðstöð Kópavogs (áhaldahús) en hið gamla selt.
Framkvæmdum úr íbúaverkefninu Okkar Kópavogi var haldið áfram. Þá var aukin áhersla á viðhaldsverkefni á húsnæði og lóðir við leik- og grunnskóla. Engin lán voru tekin fyrir framkvæmdum.
Niðurgreiðsla skulda
Á kjörtímabilinu hafa vaxtaberandi skuldir, það er að segja skuldir við fjármálastofnanir, lækkað um 5,5 milljarða.
Frá ársreikningi 2013 hefur verið unnið markvisst að niðurgreiðslu skulda. Í ársreikningi 2013 voru vaxtaberandi skuldir 35,7 milljarðar á verðlagi þess tíma, en miðað við vísitölu ársreiknings 2017, 38,2 milljarðar. Vaxtaberandi skuldir í ársreikningi 2017 eru hins vegar 30,2 milljarðar þannig að þær hafa lækkað um 5,5 milljarða á verðlagi hvors árs, en um 8 milljarða, reiknað á verðlagi ársins 2017.
Skuldahlutfall samstæðu er sem fyrr segir 133% en var 146% í árslok 2016. Það var hæst 242% árið 2010. Ekki voru tekin ný lán á árinu 2017 og alls greiddar 2,2 milljarðar í afborganir lána.
Tekjur
Tekjur sveitarfélagsins námu rúmlega 30,3 milljörðum en gert hafði veið ráð fyrir 27,8 milljörðum í tekjum fyrir A- og B-hluta. Eigið fé samstæðunnar nam í árslok 19,2 milljörðum en eigið fé A-hluta nam tæplega 17,7 milljörðum.
Veltufé frá rekstri var 3,8 milljarðar króna en áætlanir höfðu gert ráð fyrir 3,2 milljörðum. Veltufé frá rekstri sýnir hvað rekstur gefur af sér til að standa undir framkvæmdum og afborgunum lána.
Rekstrarniðurstaða A-hlutans var jákvæð um 1,9 milljarða króna en gert hafði verið ráð fyrir 122 milljóna afgangi.
Laun og tengd gjöld
Laun og launatengd gjöld voru alls 15,9 milljarðar króna sem eru 700 milljónum yfir því sem áætlað var. Aðal munurinn liggur í uppgjöri lífeyrisskuldbindinga við Brú, lífeyrissjóð starfsmanna sveitarfélaga. Hækkun lífeyrisskuldbindinga við LSK (Lífeyrissjóð starfsmanna Kópavogs) var 689 milljónir kr.
Önnur rekstrargjöld bæjarins eru í góðu samræmi við fjárhagsáætlun bæjarins sem unnin var í samstarfi allra bæjarfulltrúa.
Heildarfjöldi starfsmanna hjá sveitarfélaginu í árslok 2017 voru 2.559 en meðalfjöldi stöðugilda 1.806.
Íbúar Kópavogsbæjar þann 1. september 2017 voru 35.902 og fjölgaði þeim um 668 frá fyrra ári eða um 1,9%.
Ársreikningur Kópavogsbæjar verður lagður fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn þriðjudaginn 24.apríl.