Framúrskarandi skólastarf verðlaunað

Frá afhendingu Kópsins í Salnum 2014.
Frá afhendingu Kópsins í Salnum 2014.

Fjögur verkefni fengu viðurkenningu skólanefndar Kópavogs, Kópinn, fyrir framúrskarandi starf í grunnskólum bæjarins; Tálgarí í Snælandsskóla, Hafið í Kópavogsskóla, Dægradvölin í Salaskóla og Stærðfræði er skemmtileg í Hörðuvallaskóla.

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri og Bergljót Kristinsdóttir sem sat í valnefnd Kópsins afhentu Kópinn að lokinni kynningu á verkefnunum í Salnum í Kópavogi í gær.

Tálgarí í Snælandsskóla er stýrt af Hönnu Dóru Stefánsdóttur þroskaþjálfa og Stefáni Gunnarssyni garðyrkjufræðingi en það hefur að markmiði að efla verkfærni, þekkingu og notkun handverkfæra.

Hafið í Kópavogsskóla er verkefni sem er í umsjón Guðmundar Ásmundssonar skólastjóra, Ermengu Björnsdóttur kennara og Joaquín Armensto Nuevo foreldra í skólanum. Í því verkefni fræðast nemendur um fiska, komast í snertingu við þá og verða upplýstari og jákvæðari í neyslu fisks.

Dægradvölin í Salaskóla fékk Kópinn fyrir starf sem er fjölbreytt og til eftirbreytni en starfið hefur að leiðarljósi að örva hugsun nemenda sem og að hvetja þau til framkvæmda. Forstöðumaður dægradvalarinnar er Auðbjörg Sigurðardóttir forstöðumaður.

Loks hlaut verkefnið stærðfræði er skemmtileg í Hörðuvallaskóla Kópinn en það er í umsjón Ingu Sigurðardóttur kennara og Þórunnar Jónasdóttur deildarstjóra. Tilgangur verkefnisins er að skapa jákvætt viðhorf til stærðfræði og þróa óhefðbundin kennslugögn og leiðir.

Auglýst var eftir tilnefningum til Kópsins í febrúar síðastliðnum og var falast eftir „tilnefningum til viðurkenninga fyrir framúrskarandi skólastarf í grunnskólum Kópavogs.“ Valnefnd sem skólanefnd Kópavogs tilefndi fór svo yfir tilnefningarnar og þóttu þessi fjögur verkefni standa upp úr. Í valnefndinni sátu: Bragi Þór Thoroddsen, Bergljót Kristinsdóttir og Ragnheiður Hermannsdóttir.

Nánar um verkefnin:

Tálgarí í Snælandsskóla

Megináhersla

Markmið með þessari vinnu er að efla verkfærni og þekkingu og notkun handverkfæra, þjálfa formskyn og styrkja tengsl nemenda við náttúruna. Auk þess sem nemendur fá góða fræðslu um ræktun trjáa og nýtingu skógarafurða á Íslandi. Þetta verkefni er sjálfbært að því leyti að þarna er enginn efniskostnaður.

Verkefnið er það sem við viljum kalla ALVÖRU og FULLORÐINS. Það er alvöru efniviður, verkefni og verkfæri. Vinnslan er á verkstæði sem er ólíkt öðru námsumhverfi. Það er því vel til þess fallið að byggja upp sjálfstraust og að nemendur líti á sig sjálfa sem alvöru hönnuði og vinnandi fólk.

Rökstuðningur fyrir vali á verkefni:

Verkefnið gefur nemendum tækifæri til að þroska sína bestu hæfileika

Verkefnið lítur lögmálum um einstaklingsmiðað nám og gefur nemendum sem ekki hneigjast að bóklegu námi mögulega farveg við hæfi

Verkefnið sýnir metnað stjórnenda til að fara út fyrir ramman þrátt fyrir aukið álag

Hafið í Kópavogsskóla:

Megináhersla verkefnis:

Nemendur fræðast um fiska hafsins, komast í snertingu við þá og verða þar með upplýstari og jákvæðari í neyslu fisks.

Verkefnið er lifandi og skemmtilegt, tengist menningu lands og þjóðar auk þess sem nemendur fá tækifæri til þess að heimsækja fyrirtæki í sjávarútvegi. Verkefnið stuðlar að hollu mataræði ásamt jákvæðu hugarfari til einnar af helstu atvinnugreinum landsins.

Verkefnið hefur aukið samstarf skóla og foreldra og ætti því að vera hvatning til eftirbreytni bæði innan viðkomandi skóla og utan, auk þess sem börnin komast í tengsl við atvinnulífið.

Rökstuðningur fyrir vali á verkefni:

Verkefnið fylgir fiskum frá auðlind til afurðar

Verkefnið hefur tengsl við atvinnulífið

Verkefnið hvetur til hollara fæðis

Samvinna er á milli heimilis og skóla

Fjölbreyttir kennsluhættir auka áhuga nemenda á námsefni

Dægradvöl í Salaskóla

Megináhersla verkefnis

Starfsemi Dægradvalar hefur að leiðarljósi að örva hugsun nemenda sem og að hvetja þau til framkvæmda. Foreldrar fá þá tilfinningu að vel sé hugað að börnum þeirra frá lokum formlegs skólastarfs þar til þau eru sótt í lok vinnudags foreldra. Nemendur fá tækifæri til að prófa sig áfram á ýmsum sviðum s.s. skák, sönglist, leiklist, myndlist, kubbasmíði og bakstri. Starfið þar miðar að því að auka sjálfstraust og hvetur nemendur til að bæta sig. Einnig hjálpar það nemendum til betri samskipta og minnkar eineltistilburði.

Árangurinn telja foreldrar mælast í ánægju og öryggistilfinningu barnanna. Þarfir nemenda er hafðar að leiðarljósi og er aukinn þroski og þor til að prófa sig áfram sýnilegur.

Rökstuðningur fyrir vali á verkefni

Starf dægradvalar í Salaskóla gefur mjög jákvæða mynd af dægradvöl

Starfið er mjög fjölbreytt og til eftirbreytni

Starfið veitir börnum og foreldrum mikla ánægju

Starfið ætti að vera öðrum stjórnendum hvatning

Stærðfræði er skemmtileg í Hörðuvallaskóla

Megináhersla í verkefni:

Markmið verkefnins er að útbúa námsefnismöppu sem hentar fyrir blandaða námshópa og hlutbunda kennslu.  Tilgangurinn er að skapa jákvætt viðhorf nemenda og kennara til stærðfræðinnar og að þróa óhefðbundin kennslugögn og leiðir sem hvetja til jákvæðs viðhorfs.  Mat á verkefnunum byggir á sjálfsmati nemenda og símati kennara.

Unnið er með stærðfræði á fjölbreyttan og sveigjanlegan hátt.  Nemendur gerðir meðvitaðir um áhrif stærðfræði á daglegt líf og fjölbreytt tengsl við umhverfið

Áherslan er að nemendur átti sig á tengslum stærðfræðinnar og hvernig hún fléttast inn í daglegt líf.

Í könnun sem gerð var fyrir ári síðan meðal kennara Hörðuvallaskóla, telja þeir að þessi vinna hafi breytt viðhorfum nemenda til stærðfræði á jákvæðan hátt.  Eins kemur fram í sömu könnun að tæplega 90 % kennara telja að óhefðbundin nálgun og óhefðbundin kennslugögn stuðli að jákvæðara viðhorfi nemenda og vilja að þessari vinnu verði haldið áfram.

Nemendur voru einnig spurðir og þeir telja langflestir að gott sé að vinna í blönduðum hópum og finnst svona kennsla vera tækifæri til að gera stærðfræðinámið fjölbreyttara. Eins hefur árangur í samræmdum prófum  farið batnandi ár frá ári og hefur Hörðuvallaskóli verðið nokkuð fyrir ofan meðallag í þeim niðurstöðum.

Rökstuðningur fyrir vali á verkefni

Verkefnið eykur áhuga nemenda á stærðfræði

Verkefnið auðveldar skilning nemenda á stærðfræði og gerir þá jákvæðari gagnvart námsefninu

Efnið verður gefið út og verður þar með aðgengilegt öðrum skólum

Stjórnendur hafa þegar mælt árangur sem er ótvíræður