Vilja fjölbreytta fræðslu í lífsleikni

Frá Barnaþingi 2022.
Frá Barnaþingi 2022.

Barnaþing nemenda í skólum í Kópavogi fór fram á dögunum en á því komu saman fulltrúar barna í grunnskólum Kópavogs og mótuðu tillögur sem lagðar verða fyrir bæjarstjórn Kópavogs.

Mikil vinna hefur átt sér stað í vetur innan skólanna, stundum við undarlegar aðstæður vegna heimsfaraldursins. Haustið byrjaði á því að haldið var námskeið í lýðræðislegum vinnubrögðum til að þjálfa kennara og starfsfólk frístundaheimila og félagsmiðstöðva í að hlusta á raddir barna.

Svo réðust allir grunnskólar Kópavogs í undirbúning innan skólanna og héldu ýmsar útfærslur af skólaþingum þar sem allt að fjórar tillögur voru lagðar fram fyrir hönd hvers skóla. Hver skóli valdi tvo barnaþingmenn sem sína fulltrúa á barnaþinginu. Barnaþingmennirnir átján völdu svo úr tillögum allra skólanna þær tillögurnar sem fóru fyrir barnaþingið sjálft.

Barnaþingið er eins konar bæjarstjórn barnanna sem sett var saman og einstaklega gaman að því hversu málefnaleg og vel undirbúin þau voru öll,“ segir Sigrún María Kristinsdóttir verkefnastjóri sem stýrði þinginu.

Barnaþingmennirnir 18, sem eru á aldrinum 10 til 15 ára, funduðu í Geðræktarhúsi Kópavogs og voru líflegar umræður um þau málefni sem brenna á börnum í Kópavogi.

Niðurstaða þingsins eru sex tillögur og verða þær lagðar fyrir bæjarstjórn í apríl.

Tillögur Barnaþings í Kópavogi

Auka þekkingu kennara á menntaskólum

Fræða kennara um menntaskóla, þannig að þeir hafi þekkingu til að svara spurningum nemenda um skólana. Það er stór munur á grunnskóla og framhaldsskóla og því er gott að það sé búið að undirbúa okkur þannig að við getum staðið okkur vel. Til þess að ná árangri bæði fyrir nemendur og kennara þarf að hlúa að starfsfólki, nemendum og umhverfi.

Félagsmiðstöðvar – bæta aðstöðumun og auka fræðslu

Meira fjármagn frá Kópavogsbæ til að bæta aðstöðumun félagsmiðstöðva og gera þennan punkt að veruleika (sjá tillögu tvö) í öllum félagsmiðstöðvum.

Einnig að auka fjárman til að hægt sé að auka opnun fyrir miðstig og auka mögleika á að fá ýmis konar fræðslu fyrir félagsmiðstöðvarnar (t.d. kynfræðslu, Samtökin 78, geðheilbrigðismál o.s. frv).

Markviss lífsleiknikennsla

Lífsleikni sem sér fag í öllum skólum á mið- og unglingastigi, ekki tekið fyrir sem hluti af samfélagsfræði. Má ekki vera val og mikilvægt að það sé séð til þess að lífsleikni detti ekki upp fyrir. Fræðsla sé ekki bara í formi fyrirlestra heldur hluti af verkefnum og kennslunni almennt, meiri umræða og verkefni en ekki bara fyrirlestrar þar sem m.a. er fjallað um rasisma, fordóma, ást, mörk og kynlíf. Allri fræðslu þarf að fylgja eftir og taka umræðu. Lífsleikni ætti að vera ein kennslustund (40-60mín) tvisvar sinnum í viku.

Kynfræðslan mætti byrja fyrr og þá með áherslu á aðra þætti kynfræðslunnar en samfarir, getnaðarvarnir og kynlíf. Meiri áhersla á eigin líkama, mörk og heilbrigð samskipti.

Gott væri að gefa þeim sem verða fyrir eða hafa orðið fyrir rasisma og öðrum fordómum tækifæri til að deila reynslu sinni. Þurfum að fá tækifæri til að heyra frá og kynnast fólki af ólíkum uppruna og í ólíkum minnihlutahópum. Það verður að vera skýrt hvert nemendur geta leitað ef farið er yfir mörk eða ef þeir upplifa fordóma.

Sundkennsla

Taka sundpróf í 8.bekk, ef þú nærð því þá er sund val í 9. og 10.bekk. Það þarf samt að vera annað hæfnipróf og upprifjun í 10.bekk til að sýna fram á að þú hafir viðhaldið hæfninnni. Ef viðkomandi nær ekki hæfniprófinu þarf hann að taka sund sem valgrein. Það þarf að vera kynlaus einstaklings klefi eða útiklefi í öllum sundlaugum og/eða lokaður klefi inni í kynjuðum klefum. Kynjaskipt í sund og kynsegin einstaklingar velja með hvaða hóp þeir fara. Það er áríðandi að það sé markviss skyldu fræðsla um kynsegin strax á miðstigi.

Fá fjármálafræðslu á mið- og unglingastig í alla grunnskóla í Kópavogi

Fá kynningu á því hvað felst í fjármálafræðslu í 7. bekk og í kjölfarið fasta tíma vikulega í 8., 9. og 10. bekk. Hugtök sem vert er að horfa á í kennslustundum um fjármál eru skattar, sparnaður, fjárfesting, lánataka, launaseðlar og stofnun bankareikninga. Fá kynningu frá starfsmönnum til dæmis í banka, hjá sýslumanni eða skattinum á unglingastigi. Fjármálafræðslu væri hægt að fella undir lífsleikni. Einnig væri að búa til rafrænt verkefni þar sem heimabanki væri settur upp, t.d. Etoro (app).

Fá starfsfræðslu á mið- og unglingastig í alla grunnskóla í Kópavogi

Fá kynningu á því hvað felst í starfsfræðslu í 7. bekk og í kjölfarið fasta tíma vikulega í 8., 9. og 10. bekk. Atriði sem vert væri að skoða í starfsfræðslu eru gerð ferilskráa, starfsumsóknir og starfsviðtöl. Einnig væri gott að fá betri kynningu á námsframboði framhaldskóla og hvaða fög eru kennd í viðkomandi námi. Starfsfræðslu væri hægt að fella undir lífsleikni.