- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Kópavogsbúar geta haft áhrif og kosið um íþróttakonu og íþróttakarl Kópavogs fyrir árið 2022.
Rafræn íbúakosning um íþróttakarl og íþróttakonu Kópavogs 2022 verður á heimasíðu Kópavogsbæjar í gegnum þjónustugátt Kópavogs.
Valið stendur á milli 10 íþróttamanna sem íþróttaráð Kópavogs valdi úr innsendum tilnefningum frá íþróttafélögunum. Kjósa má einn íþróttakarl og eina íþróttakonu.
Kosning hefst þann 20. desember 2022 og lýkur 4. janúar 2023.
Niðurstaða kosninganna verður síðan kynnt á Íþróttahátíð Kópavogs í íþróttahúsinu Smáranum, miðvikudaginn 11. janúar 2023 kl. 17:30, en þar verða jafnframt veittar viðurkenningar vegna íþróttaársins 2022.
Hér má lesa um það íþróttafólk sem er í kjöri og skarað hefur framúr á árinu 2022.
Arnar er áttfaldur Íslandsmeistari í langhlaupum á árinu 2022.
Þetta gerði hann í mismunandi greinum allt frá 1500 m hlaupi innanhús og upp í heilt maraþon úti.
Arnar hefur samtals orðið 53 sinnum íslandsmeistari í langhlaupum á löngum ferli sínum.
Þá vann hann það afrek að verða fyrstur manna til að vinna bæði Reykjavíkurmaraþonið og Laugavegshlaupið á sama ári. Arnar sigraði Laugaveginn á næstbesta tíma sögunnar, 4:04:52 en það var stigahæsta ITRA afrek ársins hjá Íslendingi.
Arnar er fyrirmynd annarra hlaupara á landsvísu og býr yfir mikilli ástríðu fyrir íþrótt sinni.
Auk þess að stunda hlaup sjálfur starfar Arnar sem hlaupaþjálfari og fyrirlesari en hann býr yfir yfirgripsmikilli þekkingu og reynslu af hlaupum.
Freyja Dís sem er 17 ára átti frábært keppnisár 2022. Hún vann 6 Íslandsmeistaratitla í U18, U21 og opnum flokki. Þá vann hún Norðurlandameistaratitil í U18 flokki einstaklinga með miklum yfirburðum í Kemi í Finnlandi og silfur á sama móti með trissubogaliði Íslands.
Freyja keppti þrisvar til úrslita á Evrópumeistaramótum í U21 flokki á árinu og vann til gullverðlauna með íslenska trissuboga kvennaliðinu á heimslistamóti fullorðinna í Kamnik Slóveníu í maí og endaði í 9. sæti einstaklinga.
Samkvæmt frétt heimssambandsins sýndi Ísland þriðja besta árangur allra landa í heildarniðurstöðum mótsins á eftir Bretlandi og Slóveníu. Freyja sló 20 Íslandsmet á árinu í einstaklings-, félagsliðs- og landsliðskeppnum. Hún er í 10. sæti á World Series Indoor Open ranking lista
heimssambandsins yfir fullorðna tímabilið 2021-2022 og sem stendur í 81. sæti á Evrópulista og 187.- sæti á heimslista fullorðinna.
Höskuldur var fyrirliði meistaraflokks Breiðabliks í knattspyrnu karla sem varð Íslandsmeistari með miklum yfirburðum. Hann spilaði allar mínútur
mótsins fyrir utan korter ásamt því að skora 6 mörk og leggja upp á annan tug marka (stoðsendingar).
Hann var jafnframt valinn í liði Bestu deildar karla 2022 (Íslandsmót KSÍ). Höskuldur hefur verið lykilmaður og frábær leiðtogi í Breiðabliksliðinu undanfarin ár bæði innan vallar sem utan. Liðið náði auk þess frábærum árangri í Evrópukeppni félagsliða.
Undir lok tímabils bættist svo enn ein rósin í hnappagat Höskuldar þegar hann var valinn fyrirliði íslenska A landsliðsins í leik gegn Suður-Kóreu en nokkrum
dögum áður hafði hann einnig spilað allan leikinn gegn Sádi-Arabíu.
Hann er virkilega góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur félagsins, bæði hvað varðar ástundun en ekki síður hvernig hann kemur fram fyrir hönd félagsins.
Ingvar átti frábært keppnisár 2022 og varð sexfaldur Íslandsmeistari í götuhjólreiðum, fjallahjólreiðum, Cyclocross, maraþonhjólreiðum, tímatöku og Criterium.
Hann varð einnig bikarmeistari í Cyclocross og tímatöku, í öðru sæti á bikarmótinu í götuhjólreiðum og í þriðja sæti í bikarmótaröðinni í fjallahjólreiðum.
Ingvar hefur náð frábærum árangri á erlendri grundu, sér í lagi í maraþonfjallahjólreiðum og er núna í kringum 100. sætið á heimslistanum í þeirri grein.
Hann fór í fjölmargar keppnisferðir erlendis þar sem hann keppti meðal annars á heimsmeistaramótinu í maraþonfjallahjólreiðum og Evrópumótinu í tímatöku og götuhjólreiðum. Ingvar sem hefur verið atvinnumaður í hjóleiðum frá 2015, leggur metnað sinn í að gera ávallt sitt besta og stefnir alltaf ofar.
Ingvar og HRÍ gerðu samstarfssamning í vor með það að markmiði að styðja og efla íþróttalegt umhverfi Ingvars.
Keppnisferill Móeyjar Maríu er glæsilegur og fylgdi hún Norðurlandameistaratitli í liðakeppni í kata kvenna frá árinu 2021 eftir með tveimur Íslandsmeistaratitlum í ár, Móey vann gull á íslandsmeistaramótinu í liðakeppni kvenna i kata og gull í einstaklingskeppni í kata kvenna.
Hún hefur verið í landsliði Íslands í þó nokkurn tíma og tekið þátt í fjölmörgum mótum fyrir hönd Íslands. Nú síðast á Smáþjóðaleikum og Norðurlandamótinu.
Móey María er þar fyrir utan að þjálfa yngri iðkendur í deildinni og verið liðsstjóri á barna- og unglingamótum. Þar að auki er hún góður liðsfélagi, frábær fyrirmynd og svo sannarlega vel að því komin að vera tilnefnd sem íþróttakona Kópavogs.
Án þess að hafa dregið úr sínum eigin æfingum er Móey í dag einn helsti barna- og unglinga- þjálfari deildarinnar og algerlega ómissandi í því starfi.
Sigurður Örn er og hefur verið fremsti þríþrautarmaður Íslands síðastliðin ár og unnið allar bikarkeppnir og Íslandsmeistaratitla Þríþrautarsambands Íslands auk þess að vera valin þríþrautarmaður ársins af sambandinu síðastliðin ár.
Sigurður Örn gerði sér svo lítið fyrir og sigraði í heilum járnkarl í byrjun október á þessu ári á Ironman Barcelona og var það í fyrsta skipti sem íslenskur þríþrautar kappi sigrar slíka keppni. Með sigrinum ávann Sigurður sér þáttökuréttindi á heimsmeistaramótinu í Ironman sem fer fram á Hawaii í október 2023.
Sigurður er einstaklega vinnusamur í einu og öllu er kemur að æfingum og þeim lífstíl sem íþróttafólk á hans getustigi þarf að tileinka sér.
Sigurður Örn er þríþrautarkappi á heimsmælikvarða og glæsilegur fulltrúi þríþrautar á Íslandi.
Sofia Sóley varð Íslandsmeistari í einliðaleik kvenna á árinu 2022 þriðja árið í röð og í fjórða sinn á á síðustu 6 árum. Hún vann bæði innan- og utanhússmótin. Hún varð einnig Íslandsmeistari árið 2021 og hlaut titilinn tenniskona ársins það ár.
Sofia hefur verið einn sterkasti tennisspilari okkar Íslendinga síðustu ár en hún vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil aðeins fjórtán ára gömul.
Sofia er hæfileikaríkur spilari sem kemur vel fram við aðra spilara og sýnir öðrum virðingu bæði utan og innan vallar. Hún býr að því að hafa verið metnaðarfull sem barn og unglingur og lætur erfiða og flókna hluti virðast auðvelda. Sofia er dugleg að hvetja liðsfélaga sína áfram á landsliðsæfingunum.
Sóley Margrét sýndi það, að þrátt fyrir að vera enn í unglingaflokki U23 þá er hún ein besta kraftlyftingakona sem Ísland hefur alið.
Sóley vann til silfurverðlauna í samanlögðu í +84 kg flokki kvenna á Evrópumeistaramótinu í kraftlyftingum í Tékklandi.
Á mótinu vann hún jafnframt til gullverðlauna í hnébeygju, brons í bekkpressu, silfur í réttstöðulyftu og lenti í 11. sæti á stigum þvert á alla þyngdarflokka.
Sóley Margrét setti ný Norðurlandamet U23 í hnébeygju 280 kg og í bekkpressu með 185 kg, sem jafnframt er Íslandsmet í opnum flokki og U23.
Á Heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum í nóvember vann Sóley silfur í +84 kg flokki kvenna í samanlögðu og gullverðlaunum í hnébeygju og bronsverðlaunum bekkpressu. Sóley hefur sýnt og sannað á palli og utan hans að hún er afburðaíþróttakona í heimsklassa.
Thelma er fimleikakona Fimleikasambands Íslands 2022. Thelma hefur æft fimleika í Gerplu frá unga aldri og hefur verið í landsliði Íslands í áhaldafimleikum í ára raðir. Thelma varð Íslandsmeistari í fjölþraut í fyrsta sinn á árinu þar sem hún sýndi glæsileika og mikla yfirburði og vann með 47.650
stigum. Hún varð einnig bikarmeistari með liði sínu í Gerplu og leiddi liðið til sigurs með yfirburðum.
Thelma varð Norðurlandameistari á slá og lenti íslenska liðið í 3. sæti í liðakeppninni sem er frábær árangur.
Thelma varð stigahæst Íslendinganna í fjölþraut þar sem hún lenti í 6. sæti með samtals 48.065stig.
Thelma átti frábært Evrópumót og náði léttilega í keppnisrétt á meðal þeirra bestu á HM í Liverpool, sem hún kláraði með frábærum árangri.
Thelma er fyrirmyndar iðkandi og mikill leiðtogi fyrir yngri iðkendur í fimleikum.
Valgarð er fimleikamaður Fimleikasambands Íslands 2022.
Hann keppti á Evrópumótinu í Munchen í ágúst og náði þar þeim glæsilega árangri að tryggja sér keppnisrétt á heimsmeistaramótinu í Liverpool nýliðið haust. Valgarð varð Íslandsmeistari í fjölþraut og jafnframt Íslandsmeistari á gólfi, í stökki og á svifrá.
Valgarð varð Bikarmeistari með liði Gerplu sem sigraði með miklum yfirburðum. Á Norðurlandamótinu í Kópavogi í sumar varð Valgarð tíundi í fjölþraut og vann til tvennra silfurverðlauna á gólfi og í stökki. Á Norður-Evrópumótinu vann Valgarð með landsliðinu til bronsverðlauna í liðakeppni en það er í fyrsta skipti í fimleikasögu Íslands sem karlalið vinnur slík verðlaun. Þar bætti Valgarð við tveimur silfurverðlaunum í úrslitum á stökki og svifrá sem er frábær endir á löngu keppnistímabili.