- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Bærinn okkar lýsir nú upp skammdegið með jólaskreytingum vítt og breitt um bæinn. Aðventan er tími samveru með fjölskyldu og vinum. Aðventan er einnig sá tími sem við nýtum til þess að líta um öxl og fara yfir árið sem er að líða og setja okkur markmið fyrir næsta ár.
Íbúar Kópavogsbæjar eru nú rúmlega 40 þúsund, í bæjarfélagi sem er lifandi fyrir unga sem aldna. Ég finn það sterkt hversu eftirsóknarvert er að búa og starfa í Kópavogi en bærinn laðar að sér fjölbreyttan hóp íbúa og fyrirtækja. Í störfum mínum sem bæjarstjóri hef ég lagt ríka áherslu á að veita sem besta þjónustu fyrir ólíka hópa samfélagsins.
Árið 2024 hefur verið viðburðaríkt, stundum krefjandi en umfram allt skemmtilegt ár. Um leið og standa þarf vörð um það sem vel er gert er mikilvægt að halda vöku sinni og vera ávallt opin fyrir nýjum og ferskum hugmyndum sem gætu verið bæjarbúum gagnlegar.
Kópavogsmódelið í leikskólum okkar hefur fengið verðuga athygli og frábært er að sjá önnur sveitarfélög feta svipaðar slóðir. Þær kerfisbreytingar sem ráðist var í hafa skilað miklum árangri og stuðlað að bættri þjónustu fyrir börnin og ekki síður foreldra sem treysta á þessa mikilvægu þjónustu. Frá því við innleiddum breytingarnar haustið 2023 hefur engin deild á leikskólum Kópavogs þurft að loka sökum manneklu og í fyrsta skipti í áraraðir eru allir leikskólar Kópavogs fullmannaðir. Fleiri börn hafa því fengið leikskólapláss og þjónustan er stöðugri og faglegri. Þetta er sá árangur sem að var stefnt og mikið fagnaðarefni hve vel hefur til tekist!
Við fórum einnig í miklar breytingar á menningarstarfi Kópavogs með það að markmiði að efla fræðslu og upplifun barna í menningarhúsum Kópavogs. Á afmælisdegi bæjarins 11.maí síðastliðinn var opnað nýtt upplifunarrými lista, bókmennta og vísinda innan menningarhúsa Kópavogs. Í einu og sama rýminu er blandað saman á skemmtilegan hátt viðamiklu safni Náttúrufræðistofu og Bókasafns Kópavogs. Tengingin sem myndast í menningarhúsunum er öðruvísi og spennandi sem ég heyri ekki betur en að Kópavogsbúar og aðrir gestir kunni vel að meta.
Eldri bæjarbúar eru ört stækkandi hópur og mikilvægt að þjónusta bæjarins taki mið af því. Ákall hefur verið meðal íbúa að tryggja helgaropnun í félagsmiðstöðvum aldraðra og voru þau skref stigin á árinu í eins konar tilraunaverkefni. Verkefnið hefur gengið vel og mætingin verið framar vonum og í samstarfi við félag eldri borgara í Kópavogi hefur verið ákveðið að halda áfram með verkefnið.
Verkefnið „Virkni og vellíðan“ sem miðar að því að styrkja andlega, líkamlega og félagslegu heilsu fyrir 60 ára og eldri Kópavogsbúa hefur slegið í gegn. Þátttakendur fá tækifæri til hreyfingar undir handleiðslu þjálfara allt árið um kring, hlusta á fyrirlestra og fara í heilsufarsmælingar. Árangurinn er mikill og verkefnið hefur vakið verðskuldaða athygli á landsvísu.
Kópavogur er sannkallaður íþróttabær, enda íþróttaaðstaða til fyrirmyndar og ein sú besta á landinu. Frekari framkvæmdir eru framundan á vegum bæjarins á komandi árum til að byggja upp enn betri aðstöðu fyrir okkar íþróttafólk en þúsundir barna og ungmenna stunda íþróttir í Kópavogi. Fyrirmyndir þessara barna er að finna víða í bænum en á árinu varð Breiðablik Íslandsmeistari í fótbolta í bæði kvenna- og karlaflokki, þá varð Kópavogsbúi heims- og Evrópumeistari í kraftlyftingum og flottir fulltrúar úr Gerplu urðu Evrópumeistari í hópfimleikum svo dæmi séu tekin.
Íbúar gera kröfur til pólitískra fulltrúa um að fara vel með skattfé þeirra, forgangsraða verkefnum í þágu grunnþjónustu og ráðast í breytingar til að stuðla að enn betri þjónustu. Rekstur Kópavogsbæjar er traustur og við höfum lagt megin áherslu á rétta forgangsröðun í að efla grunnþjónustu við bæjarbúa. Á núverandi kjörtímabili hafa fasteignaskattar og önnur fasteignagjöld lækkað um milljarð króna. Það er þá einn milljarður sem situr eftir í heimilisbókhaldi íbúa bæjarins. Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 er gert ráð fyrir að fasteignaskattar lækki áfram. Þessar skattalækkanir koma til móts við hækkandi fasteignaverð sem ella hefði skilað bæjarsjóði enn hærri skatttekjum með samsvarandi skattlagningu á íbúa bæjarins. Fasteignaskattar í Kópavogi eru í dag meðal þeirra lægstu á landsvísu og fasteignagjöld hafa lækkað að raunvirði undanfarin ár.
Til að standa vörð um þessar áherslur á lækkun skatta en um leið ábyrgan rekstur höfum við á sama tíma ráðist í hagræðingaraðgerðir þvert á svið bæjarins samhliða því sem við höfum lækkað kostnað í pólitískum nefndum og ráðum. Slíkar aðgerðir hafa skilað umtalsverðum sparnaði. Á næsta ári ætlar Kópavogsbær að stíga markviss skref í innleiðingu á gervigreind með það að markmiði að auka skilvirkni í stjórnsýslunni, bæta ákvörðunartöku og þjónustu við bæjarbúa.
Hér hef ég aðeins talið upp örfá dæmi um verkefni sem hafa verið í forgrunni hjá okkur á árinu. Líkt og undanfarin ár verður áfram lögð rík áhersla á að standa vörð um góðan rekstur, byggja upp innviði og efla enn frekar þjónustu við bæjarbúa.
Tíminn er fljótur að líða. Árið sem nú er senn á enda er annað heila árið mitt sem bæjarstjóri. Ég er stolt af þeim verkefnum sem við höfum fylgt eftir á kjörtímabilinu og ég hlakka til ársins 2025 sem verður klárlega viðburðaríkt ár enda stórafmælisár Kópavogsbæjar!
Kæru Kópavogsbúar ég sendi mínar bestu kveðjur um góða aðventu, gleðilega jólahátíð og óskir um farsæld á nýju ári.
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi