Afhentu viðurkenningu og styrk jafnréttis- og mannréttindaráðs

Á myndinni eru frá vinstri: Hildur María Friðriksdóttir, Lísa Z. Valdimarsdótti Bókasafni Kópavogs,…
Á myndinni eru frá vinstri: Hildur María Friðriksdóttir, Lísa Z. Valdimarsdótti Bókasafni Kópavogs, Ólafur Már Hreinsson og Heiðrún Svanhvít Nielsdóttir, dansdeild HK, Indriði Ingi Stefánsson, Sveinn Sampsted ÍSÍ og UMFÍ, Ragnar Guðmundsson, Heiðdís Geirsdóttir, Helga G. Halldórsdóttir.


Sveinn Sampsted og Dansdeild HK hlutu viðurkenningu Jafnréttis- og mannréttindaráðs og verkefni Bókasafns Kópavogs, Get together, hlaut styrk ráðsins.

Sveinn Sampsted hlaut viðurkenningu sem einstaklingur sem skarað hefur fram úr eða markað spor á sviði jafnréttis- og mannréttindamála í tengslum við þátttöku hinsegin fólks og barna í íþróttum. Dansdeild HK hlaut viðurkenningu fyrir það framtak að bjóða gjaldfrjáls dansnámskeið fyrir börn á aldrinum 3-12 ára. Loks hlaut verkefni Bókasafns Kópavogs, Get together, styrk. Get together er opið hús á Bókasafni Kópavogs fyrir hælisleitendur, flóttafólk og innflytjendur.

Jafnréttis- og mannréttindaráð óskaði eftir ábendingum frá bæjarbúum um einstaklinga, fyrirtæki, stofnanir, hópa eða félagasamtök sem hafa skarað fram úr eða markað spor á sviði jafnréttis- og mannréttindamála. Þá auglýsti ráðið eftir umsóknum um styrki til verkefna sem hafa framgang mannréttinda og jafnréttis í Kópavogi að markmiði. Ákvörðun um viðurkenningar og ráðstöfun styrks var tekin á fundi ráðsins 4.desember síðastliðinn og var viðurkenningarhöfum og styrkhafa afhent viðurkenningarskjal 22.janúar síðastliðinn.

Nánar um viðurkenningarhafa:

Sveinn Sampsted hefur komið að íþróttaiðkun með einum eða öðrum hætti frá unga aldri. Fyrst sem iðkandi í Breiðablik, þjálfari og sjálfboðaliði í 23 ár. Í dag starfar Sveinn sem svæðisfulltrúi ÍSI og UMFÍ á höfuðborgarsvæðinu. Sveinn hefur haldið fyrirlesturinn hinsegin&íþróttir í samstarfi við samtökin 78 frá árinu 2022 um land allt. Þá hefur Sveinn nýtt þær spurningar sem hann fékk þegar hann hélt fyrirlesturinn í fræðsluefni sem hann gaf út í samstarfi við samtökin 78 fyrir þá sem bera ábyrgð á íþrótta, tómstunda og æskulýðsstarfi hinsegin barna og ungmenna. Þá hefur Sveinn einnig haldið erindi erlendis þegar hann talaði um hinseginleika fyrir framan 140 manns frá 80 löndum í Ólympíuakademíunni í Grikklandi. Ásamt því hefur Sveinn einnig unnið að og haft áhrif á málefni fatlaðra í íþróttum en hann vinnur nú að lokaverkefni í félagsfræði um félagslega þætti sem valda brottfalli fatlaðra úr íþróttum.

Framtak dansdeildar HK að bjóða upp á gjaldfrjáls dansnámskeið er sérstaklega mikilvægt fyrir efnaminni fjölskyldur og framtakið stuðlar þannig að aukinni íþróttaþátttöku barna óháð bakgrunni eða efnahag.

Um Get togther:

Get together er opið hús á Bókasafni Kópavogs fyrir hælisleitendur, flóttafólk og innflytjendur. Verkefnið er unnið með hjálparsamtökunum GETA sem halda utan um opnu húsin. Safnið vildi virkja hóp innflytjenda sem nýtti bókasafnið að takmörkuðu leyti og var því verkefnið hluti af því. GETA hefur staðið að opnum húsum á þriðjudögum á haustönn 2024 og var mikil ánægja með verkefnið meðal þátttakanda. Mörg mættu með börn sín á leikskólaaldri, sem ekki voru enn komin inn á leikskóla og var boðið upp á ýmis konar föndur, hannyrðir og fleira í hvert sinn. Í ljósi þess að mikil ánægja var á meðal þátttakenda, Bókasafnsins og GETA var styrkurinn veittur til verkefnisins þar sem mikilvægt þótti að halda áfram með þetta verkefni sem stuðlar að jafnrétti og mannréttindum hælisleitenda, flóttafólk og innflytjendur.