- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Hátt á annað þúsund manns og þar af um 800 skólabörn úr Kópavogi nutu Óperudaga í Kópavogi, nýrrar hátíðar á vegum Menningarhúsa Kópavogsbæjar og ungs tónlistarfólks sem haldin var í júníbyrjun.
Tilgangur hátíðarinnar var að breyta bænum í óperu- og leiksvið og gefa flytjendum og gestum færi á að eiga í fjörugu samtali við óperuformið. Um 70 ungir söngvarar og aðrir tónlistar- og listamenn tóku þátt í hátíðinni.
Dagskráin var mjög fjölbreytt og viðburðir alls 35. Má nefna óperugöngur í hjarta bæjarins með óvæntum uppákomum fyrir börn og fullorðna, nýja fótboltaóperu í tilefni EM í fótbolta, hádegistónleika í Salnum, stuttar óperuuppfærslur, masterklass með Kristni Sigmundssyni, stofutónleika og kabarettkvöld svo fátt eitt sé nefnt. Einstök atriði úr Óperudögum í Kópavogi voru einnig flutt í skólum og í félagsmiðstöðvum eldri borgara.
Listrænn stjórnandi hátíðarinnar var Guja Sandholt en framkvæmdastjórn var í höndum Örnu Schram, forstöðumanns Menningarhúsa Kópavogsbæjar. Fjöldi annarra starfsmanna menningarhúsa bæjarins, kom einnig að hátíðinni sem naut jafnframt liðsinnis starfsnáms Menningarstjórnunar Háskólans á Bifröst.
Arna Schram, forstöðumaður Menningarhúsa Kópavogsbæjar, segir að hátíðin sé sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi: „Hátíðin hitti í mark, aðsókn að viðburðum var mikil og hátíðin vakti mikinn áhuga fjölmiðla. Með óperuhátíðinni náðum við að sameina marga þætti í nýrri menningarstefnu Kópavogsbæjar, svo sem að tengjast betur upprennandi listamönnum, ná til barna og eldri borgara í Kópavogi, efla sérstöðu menningarstarfs bæjarins, auka samstarf menningarhúsa, skipuleggja nýja þemahátíð og síðast en ekki síst að efla ímynd bæjarins sem miðstöð menningar í ólíku formi.“
Guja Sandholt: „Mér þótti hátíðin takast einstaklega vel og augljóst að bæjarbúar og aðrir gestir tóku mjög vel í framtakið enda fór mæting fram úr björtustu vonum. Ég er þakklát lista- og menningarráði fyrir dyggan stuðning, starfsfólki Kópavogsbæjar fyrir skemmtilega samvinnu, hinu fjölmarga listafólki sem kom fram og öllum öðrum sem lögðu hönd á plóginn.“
Lista- og menningarráð Kópavogs studdi hátíðina með framlagi úr lista- og menningarsjóði bæjarins en einnig fékk hún styrki frá einstökum fyrirtækjum og einstaklingum m.a. í gegnum Karolina Fund.