Uppskeruhátíð Skapandi sumarstarfa verður 7. ágúst

Afrakstur sumarvinnu lishópanna verður sýndur í Salnum 7. ágúst.
Afrakstur sumarvinnu lishópanna verður sýndur í Salnum 7. ágúst.

Skapandi sumarstörf í Kópavogi bjóða til glæsilegrar uppskeruhátíðar í Salnum í Kópavogi fimmtudag 7. ágúst. Þar verður afrakstur sumarsins sýndur á stóra sviðinu og í anddyri Salsins. Húsið opnar kl. 19:30 þar sem básar listhópanna verða opnir og dagskrá á sviði hefst svo kl. 20:00. Eitt hlé verður gert á sýningunni þar sem básarnir verða einnig til sýnis. Aðgangur er ókeypis og öll eru velkomin.

 

 

Skapandi Sumarstörf í Kópavogi veita ungu listafólki á aldrinum 20-26 ára tækifæri til að vinna að eigin listsköpun og hefur það reynst mikilvægur stökkpallur fyrir margt af efnilegasta listafólki landsins. Í sumar eru starfrækt 11 spennandi og ólík verkefni en að baki þeim standa 26 ungir listamenn úr mismunandi listgreinum.

 

 

Dagskrá Skapandi Sumarstarfa hefur verið afar fjölbreytt og metnaðarfull í sumar. Listhóparnir stóðu fyrir ýmsum viðburðum í og um bæinn og voru í sérstöku samstarfi við Menningarhúsin í Kópavogi. Samstarfið er hluti af breytingum á starfsemi Molans, miðstöð unga fólksins en Molinn hefur umsjón með Skapandi sumarstörfum.

 

 

Molinn, miðstöð unga fólksins býður upp á fjölbreytta þjónustu fyrir ungt fólk á aldrinum 16-25 ára en þar er meðal annars lögð áhersla á aðstöðu til listsköpunar. Í Molanum er starfandi umsjónarmaður skapandi verkefna sem skipuleggur skapandi störf með ungu fólki. Umsjónarmaður skapandi verkefna veitir leiðsögn og skipuleggur námskeið, smiðjur, sýningar og viðburði tengda list, menningu og nýsköpun fyrir ungt fólk. Í Molanum er einnig gott stúdíó sem ungmenni hafa aðgang að og geta nýtt eins og þeim hentar, í samvinnu við starfsmenn Molans.

 

Hægt er að lesa meira um starfsemi Molans yfir vetrartímann hér