Sýning á verkum Jóhönnu Kristínar

Eitt af fjölmörgum listaverkum Jóhönnu Kristínar Yngvadóttur Hraunfjörð
Eitt af fjölmörgum listaverkum Jóhönnu Kristínar Yngvadóttur Hraunfjörð

Glæsileg sýning á verkum Jóhönnu Kristínar Yngvadóttur Hraunfjörð verður opnuð í Gerðarsafni laugardaginn 31. ágúst klukkan þrjú. Sýningarstjórar eru Guðbjörg Kristjánsdóttir, forstöðumaður Gerðarsafns, og Guðrún Atladóttir, hönnuður og menningarmiðlari. Til sýnis eru fjörutíu og fimm verk í opinberri eigu og einkaeigu eftir þennan framúrskarandi listmálara.

Jóhanna Kristín átti við heilsuleysi að stríða og lést langt um aldur fram þrjátíu og sjö ára gömul. Starfsferill hennar spannaði aðeins tíu ár.

Jóhanna Kristín hélt sína fyrstu einkasýningu vorið 1983 í Nýlistasafninu við Vatnsstíg þar sem hún sýndi tólf stór olíumálverk, meðal annars verkið Foreldrarnir. Sýningin hlaut jákvæðar viðtökur og góða gagnrýni. Einn gagnrýnandi taldi að hér væri kominn fram málari af þeirri stærðargráðu að furðu sætti af svona ungri manneskju. Hún hefði með verkum sínum haslað sér völl í fremstu víglínu listamanna hérlendis. Næstu ár dvaldi Jóhanna Kristín á Sikiley á Ítalíu, á Grænlandi og í Svíþjóð. Hún hélt nokkrar einkasýningar og tók þátt í samsýningum hér heima og erlendis.

Um listakonuna segir Kristín G. Guðnadóttir, listfræðingur, meðal annars í sýningarskrá: „Í íslenskri listasögu skipar Jóhanna Kristín veglegan sess sem fulltrúi hins fígúratíva expressjónisma og sem konan sem málaði konur. Dýpt og einlægni í túlkun einkenna verk hennar, sem eru máluð af miklu öryggi og krafti. Hún skapaði af sannfæringarkrafti áleitin verk sem vekja erfiðar spurningar sem sumum hverjum verður seint svarað.”

Guðrún Atladóttir, bróðurdóttir Jóhönnu Kristínar, hefur gert heimildamynd um listakonuna sem ber heitið Svartur er litur gleðinnar. Á sýningunni verður sýnd styttri mynd eftir Guðrúnu sem fjallar um listsköpun Jóhönnu Kristínar. Sú mynd heitir Minningin er blá

Sýningin stendur yfir til 13. október. 

Því má bæta við að um helgina verður opnaður nýr og bættur vefur Gerðarsafns en nánari upplýsingar um opnunartíma, safnabúðina og aðrar sýningar má finna á vefnum.

Gerðarsafn.