Stuttmyndahátíð í Salnum vel sótt

Stuttmyndahátíð Orðaskipta í Salnum var vel sótt.
Stuttmyndahátíð Orðaskipta í Salnum var vel sótt.

Skapandi sumarstörf í Kópavogi efndu til stuttmyndahátíðar í Salnum fimmtudag 25. júlí síðastliðinn. Sýndar voru fjórar stuttmyndir eftir listhópinn Orðaskipti en hópinn skipa þær Júlía Gunnarsdóttir, Melkorka Gunborg Briansdóttir og Stefanía Stefánsdóttir. Markmið þeirra í sumar var að skrifa, taka upp og klippa fjórar stuttmyndir á átta vikum.

 

 

Í stuttmyndum Orðaskipta er rýnt í ólík samskipti milli fólks - með og án orða. Stuttmyndirnar fjórar báru heitin Kubbur, Busl, Sjálfur og Við erum öll eins og við munum öll deyja. Stöllurnar þrjár léku sjálfar í einni myndanna en fengu faglærða leikara í hinar, þar á meðal Björn Thors.

 

Skapandi Sumarstörf í Kópavogi veita ungu listafólki á aldrinum 20-26 ára tækifæri til að vinna að eigin listsköpun og hefur það reynst mikilvægur stökkpallur fyrir margt af efnilegasta listafólki landsins. Í sumar eru starfrækt 11 spennandi og ólík verkefni en að baki þeim standa 26 ungt listafólk úr mismunandi listgreinum.

 

 

Dagskrá Skapandi Sumarstarfa hefur verið afar fjölbreytt og metnaðarfull í sumar. Listhóparnir stóðu fyrir ýmsum viðburðum í og um bæinn og voru í sérstöku samstarfi við Menningarhúsin í Kópavogi.

 

 

Skapandi sumarstörf í Kópavogi bjóða til glæsilegrar uppskeruhátíðar í Salnum í Kópavogi fimmtudag 7. ágúst. Þar verður afrakstur sumarsins sýndur á stóra sviðinu og í anddyri Salsins. Húsið opnar kl. 19:30 þar sem básar listhópanna verða opnir og dagskrá á sviði hefst svo kl. 20:00. Eitt hlé verður gert á sýningunni þar sem básarnir verða einnig til sýnis. Aðgangur er ókeypis og öll eru velkomin.