Sólarslóð við Hálsatorg

Sólarslóð við Hálsatorg eftir Theresu Himmer.
Sólarslóð við Hálsatorg eftir Theresu Himmer.

 

Vegglistaverkið Sólarslóð/Sun Drive eftir Theresu Himmer var afhjúpað í dag, föstudaginn 5. júlí. Verkið sem er á bogadregnum vegg við Hálsatorg í Kópavogi setur mikinn svip á umhverfið og er í alfaraleið gangandi og akandi vegfarenda í miðbæ Kópavogs.

Um verkið

Sólarslóð sýnir hreyfingu sólarinnar yfir eins árs tímabil með tólf brotalínum. Þær teikna upp hin óskýru mörk á milli sólarljóssins og skuggans sem veggurinn á Hálsatorgi varpar á sjálfan sig. Hver brotalína áætlar hæstu stöðu sólar á 21. degi hvers mánaðar ársins. Línan er máluð með hvítri vegamálningu sem blönduð er örsmáum glerperlum. Þegar sólin skín á vegginn virkjast listaverkið og perlurnar endurspegla hin síbreytilegu sjónarhorn sem myndast á milli sólarinnar og áhorfandans. Þegar sólar nýtur ekki við,  minnir verkið okkur á síendurtekna hringrás sólarinnar.  Á sama tíma vísar hin hvíta sindrandi vegamálning til annarskonar hryns; umferðarinnar sem flæðir undir Hálsatorg, í kringum brúna og inn í hversdaginn.

Sólarslóð sækir innblástur í verk Gerðar Helgadóttur en rannsókn Theresu á verkum Gerðar hófst í tengslum við þátttöku hennar í sýningunni Innra, með og á milli í Gerðarsafni 2017. Þar sýndi Theresa verkið In House Production 1-3,sem Gerðarsafn eignaðist og er það nú til sýnis á yfirstandandi sýningu Gerðarsafns, Útlínur.

„Með verkinu tengi ég gang sólar um himinhvolfið við Kópavog, við skipulag hjarta bæjarins, leiðir og stíga. Um leið er ég að votta Gerði virðingu mína og þeirri sérstöðu sem hún hefur sem listamaður í bæjarfélaginu og víðar,“ segir Theresa Himmer listamaður.

Theresa Himmer

Theresa Himmer (f. 1976) er menntaður arkitekt og myndlistarmaður Hún stundaði framhaldsnám Whitney Museum Independent Study prógrammsins. Hún lauk MFA gráðu frá School of Visual Arts í New York og Cand. Arch gráðu frá Arkitektaskólanum í Árósum í Danmörku.

Verk Theresu og opinberar innsetningar hafa verið til sýnis víða um heim og á Íslandi hafa þau til dæmis verið sýnd í Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur, Gerðarsafni og nú síðast í Hverfisgalleríi.
Theresa hefur búið og starfað á Íslandi í meira en áratug. Hún býr nú í Danmörku, en er virkur þátttakandi í íslenskri myndlistarsenu.

Lista- og menningarráð Kópavogs styrkti gerð verksins en ákvörðun um uppsetningu þess var tekin síðastliðið haust.

„Verk Theresu Himmer við Hálsatorg hefur mikla listræna þýðingu fyrir Kópavogsbæ og mun verða eitt af kennileitum bæjarins. Verkið rammar inn þá öflugu menningarstarfsemi sem fram fer við Borgarholtið og er einstakur samnefnari fyrir starfsemi Menningarhúsanna á sviði náttúruvísinda, bókmennta og síðast en ekki síst samtímalistar,“ segir Soffía Karlsdóttir, forstöðumaður menningarmála í Kópavogi.