- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Aðstaða til íþróttaiðkunar stendur upp úr þegar Kópavogsbúar eru beðnir um að gefa álit sitt á þjónustu bæjarins. Í könnun sem Capacent gerði meðal bæjarbúa í lok síðasta árs segjast um 87% svarenda vera mjög ánægð eða frekar ánægð með íþróttaaðstöðuna í bænum. Samkvæmt könnuninni eru Kópavogsbúar einnig almennt mjög sáttir við að búa í bænum.
Könnunin var framkvæmd dagana 5. til 26. nóvember 2013 fyrir stærstu sveitarfélög landsins. Um er að ræða netkönnun sem þýðir að spurningar voru sendar með tölvupósti. Fjöldi svarenda í Kópavogi var samtals 519. Eftir að Capacent hafði unnið úr niðurstöðunum fékk bærinn þær sendar og voru þær kynntar helstu stjórnendum bæjarins í síðustu viku.
Í könnuninni var spurt út í ýmsa þjónustu, svo sem grunnskóla og leikskóla, þjónustu við fatlað fólk, eldri borgara og fleira. Hægt var að flokka svörin eftir ýmsum breytum, m.a. því hvort viðkomandi hefði nýtt sér umrædda þjónustu eða ekki. Þegar spurt var út í íþróttaiðkun var til dæmis hlutfall ánægðra aðeins hærra þegar einungis voru teknir þeir sem höfðu nýtt sér þjónustuna síðustu tólf mánuði eða þekktu til fjölskyldumeðlima sem nýttu sér þjónustuna. Hækkaði þá hlutfall ánægðra upp í 91%. Enginn annar málaflokkur er með fleiri ánægða í sínum hópi.
Um 83% foreldra grunnskólabarna eru mjög eða frekar ánægð með þjónustu grunnskólanna og um 70% foreldra leikskólabarna segjast mjög eða frekar ánægð með þjónustu leikskólanna. Um 59% þeirra sem nýta sér, eða þekkja vel til þjónustu eldri borgara, segjast mjög eða frekar ánægð með þá þjónustu. Sama er uppi á teningnum þegar spurt er út í þjónustu við fatlað fólk. Um 59% þeirra sem nýta sér eða þekkja vel þá þjónustu, eru mjög eða frekar ánægð.
Þegar spurt er út í þjónustu bæjarins við barnafjölskyldur segjast 57% vera mjög eða frekar ánægð en 26% segjast hvorki ánægð né óánægð. Um 45% segjast mjög eða frekar ánægð með skipulagsmál almennt í bænum en 32% nefna að þau séu hvorki ánægð né óánægð.
Einnig er í könnuninni spurt út í menningarmálin og segjast 61% telja að bærinn sinni menningarmálum mjög vel eða frekar vel. Um 32% nefna hvorki né. Ánægjan virðist aukast eftir því sem fólk eldist.
Að lokum má nefna að um 74% segjast vera mjög eða frekar ánægð með sitt nánast umhverfi eða „gæði umhverfisins við heimili sitt,“ eins og það var orðað í spurningunni.
Meirihluti aðspurðra, eða um 62%, telur að starfsfólk bæjarins leysi mjög eða frekar vel úr erindum sínum.