Frá vinstri: Gunnþórunn Guðmundsdóttir, Sindri Freysson, Gerður Kristný, Karen E. Halldórsdóttir, Magnús Sigurðsson og Ármann Kr. Ólafsson.
Magnús Sigurðsson hlaut í dag Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir ljóð sitt Tungsljós í árlegri ljóðasamkeppni lista- og menningarráðs Kópavogs. Samkeppnin var nú haldin í tólfta sinn en tilgangur hennar er að efla og vekja áhuga á íslenskri ljóðlist.
Verðlaunaafhendingin fór fram við hátíðlega athöfn í Salnum á fæðingardegi Jóns úr Vör, 21. janúar. Á sama tíma voru úrslit kynnt í ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs. Þar urðu í þremur efstu sætunum þau Ester Hulda Ólafsdóttir, Hörðuvallaskóla, Lára Pálsdóttir, Lindaskóla, og Patrik Snær Kristjánsson úr Hörðuvallaskóla.
Um 400 ljóð bárust í samkeppnina um Ljóðstaf Jóns úr Vör. Ljóðin voru send undir dulnefni og vissi dómnefnd því ekki hver höfundurinn var fyrr en sigurljóðið hafði verið valið. Í rökstuðningi dómnefndar segir m.a. að ljóðið hafi galdrað fram andrúmsloft sem dragi lesandann til sín aftur og aftur. „Ljóðið Tunglsljós hefur yfir sér dularfullan blæ sem heillaði okkur,“ segir m.a. í rökstuðningnum.
Magnús hlaut peningaverðlaun og Ljóðstaf Jóns úr Vör, áletraðan með nafni sínu, til varðveislu í eitt ár. Auk þess hlaut hann eignargrip sem Sigmar Maríusson gullsmiður hannaði. Magnús sagði það mikinn heiður að fá þessa viðurkenningu. Hann sagði að ljóðlistin þarfnaðist umræðu og að tómarúm væri sá veruleiki sem íslensk ljóðlist byggi yfir. „Sérstök bókmenntaþjóð getum við þó varla talist með réttu, ef við skellum skollaeyrum við tungumáli ljóðlistarinnar og tjáningarmöguleikum hennar. Við færum einfaldlega á mis við of margt.”
Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri og Karen E. Halldórsdóttir, formaður lista- og menningarráðs, afhentu verðlaunin og fóru yfir sögu og tilgang keppninnar.
Magnús Sigurðsson fæddist árið 1984 á Ísafirði. Árið 2007 komu út þýðingar hans á ljóðabálki Ezra Pounds, Söngvarnir frá Písa. Í kjölfarið fylgdu meðal annars smásagnasafnið Hálmstráin og ljóðabækurnar Fiðrildi, mynta og spörfuglar Lesbíu og Blindir fiskar, en fyrir þá fyrrnefndu hlaut Magnús Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar. Árið 2012 komu út þýðingar Magnúsar á ljóðum norska ljóðskáldsins Tors Ulven, Steingerð vængjapör.
Dómnefnd í ár skipuðu rithöfundarnir og ljóðskáldin Gerður Kristný og Sindri Freysson, ásamt Gunnþórunni Guðmundsdóttur, bókmenntafræðingi og dósent við Háskóla Íslands.
Rökstuðningur dómnefndar:
Meðlimir dómnefndar lásu og ræddu saman um 400 ljóð á liðnum vikum, en fáum gefst viðlíka tækifæri til að fá nasasjón af því sem fólk er að fást við að yrkja nú um stundir og viljum við þakka öllum sem sendu ljóð í keppnina fyrir að gera starf okkar jafn forvitnilegt og skemmtilegt og raunin varð. Við lásum um ástir í meinum, náttúru- og veðrakvæði, bernskuminningar, fantasíur og drauma, hrunljóð og fjölmargt fleira.
Smám saman þrengdist hringurinn og að lokum var eitt ljóð eftir sem dómnefndin var sammála um að galdraði fram andrúmsloft sem drægi lesandinn til sín aftur og aftur. Ljóðið ‚Tunglsljós‘ hefur yfir sér dularfullan blæ sem heillaði okkur. Ljóðið gerist á framandi stað, en efniviðurinn er einfaldur; kolanámumenn koma uppúr námunum að loknum vinnudegi þegar sólin er sest og ‚strjúka framan úr sér rykið‘. Sterk mynd sem dregin er upp af einstakri myndvísi, þar sem lesandinn er kynntur fyrir þrískiptum heimi: himninum, yfirborði jarðar og neðanjarðarheimi, þar sem sígildar andstæður ljóss og myrkurs fá á sig framandi yfirbragð og þar sem speglunin í lokaerindinu dregur okkur aftur niður á jörðina. ‚Tunglsljós‘ er vel ort ljóð og dómnefnd er sammála um að höfundur þess sé vel að því kominn að hljóta Ljóðstaf Jóns úr Vör 2013.
Verðlaunaljóð í ljóðasamkeppninni Ljóðstafur Jóns úr Vör