Ljóðahátíð í Salnum 21. janúar

Verðlaunahafarnir þrír sem voru í efstu sætunum í grunnskólakeppninni fyrir árið 2012: Hrönn Kriste…
Verðlaunahafarnir þrír sem voru í efstu sætunum í grunnskólakeppninni fyrir árið 2012: Hrönn Kristey Atladóttir úr Hörðuvallaskóla, Katrín Kemp úr Vatnsendaskóla og Ólafur Örn Ploder úr Álfhólsskóla.

Greint verður frá niðurstöðum í árlegri ljóðasamkeppni lista- og menningarráðs Kópavogs, mánudaginn 21. janúar kl. 17:00 í Salnum. Ljóðasamkeppnin er kennd við Jón úr Vör og fer verðlaunaafhendingin fram á fæðingarafmæli hans. Um 400 ljóð bárust í keppnina og hefur þátttakan sjaldan verið meiri. Á sama tíma verða verðlaun veitt í ljóðasamkeppni grunnskólanna. Aðgangur er ókeypis og allir eru hjartanlega velkomnir.

Sigurvegarinn í ljóðasamkeppninni Ljóðstafur Jóns úr Vör fær peningaverðlaun og verðlaunagripinn, göngustaf Jóns úr Vör, áletraðan með nafni sínu til varðveislu í eitt ár auk eignargrips.

Grunnskólabörnin fá bækur og verðlaunaskjöl.


Tilgangur keppninnar er að efla og vekja áhuga á íslenskri ljóðlist.

Dómnefndina í ár skipa þau Gerður Kristný, rithöfundur og ljóðskáld, Sindri Freysson, rithöfundur og ljóðskáld og Gunnþórunn Guðmundsdóttir, bókmenntafræðingur og dósent við Háskóla Íslands.

Veitingar verða í boði lista- og menningarráðs í forrými Salarins að dagskrá lokinni.