Leikskólarnir tóku þátt í Íslenskuþorpi

Hluti af starfsfólki sem tók þátt í Íslenskuþorpinu og starfsfólk leikskóladeildar.
Hluti af starfsfólki sem tók þátt í Íslenskuþorpinu og starfsfólk leikskóladeildar.

Þrettán frá leikskólum Kópavogsbæjar tóku þátt í Íslenskuþorpinu sem er námskeið á vegum Menntafléttunnar, ætlað starfsfólki sem hefur annað móðurmál en íslensku.

Almenn ánægja var meðal þátttakenda. Þeir nefndu meðal annars að þátttaka þeirra í Íslenskuþorpinu hafi aukið sjálfstraust þeirra til faglegs starfs innan leikskólans og voru þau meira tilbúin að taka þátt í öllu starfi skólans. Þátttakan skilaði sér einnig í auknu sjálfstrausti til þátttöku í íslensku samfélagi og kveikti jafnvel áhuga þeirra á frekara námi.

Á námskeiðinu er fléttað saman fagtengdri íslensku og átta fjölbreyttum þemum úr leikskólastarfi. Námskeiðið byggir á samtali þátttakenda, uppbyggingu tengslanets og samstarfi þátttakenda og mentora inna leikskólanna. Þátttakendur, mentorar þeirra og leikskólastjórar kynnast menningarnæmi og fjölmenningarlegum áherslum leikskólastarfs og fá tækifæri til að byggja upp þekkingu innan leikskólanna á ofangreindu til framtíðar. Aðferðafræði Íslenskuþorpsins býður upp á markvisst og sérsniðið æfingaumhverfi í raunverulegum aðstæðum þar sem umhverfið og stuðningur mentors styður við námið og samskipti á íslensku.

Nám í Íslenskuþorpinu fer fram á vinnutíma í þriggja klukkutíma lotu tvisvar í mánuði yfir allt skólaárið. Einnig hitta þátttakendur mentora sína á vinnutíma þar sem lögð er áhersla á faglegar umræður á íslensku. Þess fyrir utan eru þátttakendur að vinna að verkefnum sem snúa að faglegu starfi innan leikskólans.

Ánægjulegt er frá því að segja að stjórnvöld hafa gefið vilyrði fyrir því að boðið verði upp á Íslenskuþorpið á næsta skólaári. Leikskólastjórnendur Kópavogsbæjar leggja metnað sinn í að skapa aðstæður til að fleira starfsfólk af erlendum uppruna hafi tækifæri til að sækja þetta nám. Takmörk eru á fjölda þátttakenda hverju sinni en leikskóladeild bindur vonir við að það starfsfólk sem óskar eftir að fara námið komist að.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið átti frumkvæði að stofnun Menntafléttunnar árið 2019. Samstarfsaðilar um verkefnið eru nú: Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Listaháskóli Íslands, Kennarasamband Íslands og mennta- og barnamálaráðuneytið. Menntavísindasvið HÍ hefur umsjón með Menntafléttunni.