- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Nemendur í grunnskólum Kópavogs koma almennt vel út úr PISA rannsókn OECD og er staðan nú betri en árið 2009. Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu létu greina árangur grunnskólanema á höfuðborgarsvæðinu í PISA rannsókninni sem kynnt var í lok síðasta árs og er sá árangur borinn saman við sambærileg sveitarfélög á hinum Norðurlöndunum. Í ljós kom að Kópavogur stendur jafnfætis ef ekki framar sveitarfélögum af sambærilegri stærð í nágrannalöndunum.
Anna Birna Snæbjörnsdóttir, sviðstjóri menntasviðs og Ragnheiður Hermannsdóttir, deildarstjóri grunnskóladeildar, reifa niðurstöðurnar í Kópavogsblöðunum í vikunni. Þær segja ýmislegt í rannsókn PISA sem þurfi að skoða nánar með það í huga að gera enn betur „en við eigum líka að vera stolt af þeim árangri sem þegar hefur náðst.“
Þær benda á að stærðfræðilæsi sé til dæmis hærra í Kópavogi en í sambærilegum sveitarfélögum í Danmörku, Noregi og í Svíþjóð og ef litið sé á læsi á náttúrufræði er staðan í Kópavogi nálægt því sem gerist í sambærilegum sveitarfélögum í Svíþjóð og í Danmörku.
Þegar litið er á lesskilning megi sjá að hlutfall þeirra nemenda sem ekki geta lesið sér til gagns er lægra í Kópavogi en í sambærilegum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu en svipað og í sambærilegum sveitarfélögum í Danmörku og í Noregi. Kynjamunur í lesskilningi er jafnframt hverfandi í Kópavogi og álíka lítill og í sambærilegum sveitarfélögum í Danmörku en þar er lang minnsti kynjamunur á Norðurlöndunum.
Trú nemenda í Kópavogi á eigin getu er hærri en gengur og gerist í svipuðum sveitarfélögum á hinum Norðurlöndunum og skólabragur, eða viðhorf nemenda í Kópavogi til skólaumhverfisins, fær hæstu einkunn. Samband nemenda við kennara hefur einnig styrkst mjög mikið undanfarinn áratug á sama tíma og það hefur versnað í sambærilegum sveitarfélögum á honum Norðurlöndunum.
Menntasvið mun á næsta misseri greina nánar niðurstöður PISA rannsóknarinnar í samráði við Námsmatsstofnun og skólastjórnendur í Kópavogi, með það að markmiði að efla styrkleikana og bæta það sem betur má fara.