Kópavogsvöllur eingöngu heimaleikvangur Breiðabliks

Heimaleikvangur Breiðabliks
Heimaleikvangur Breiðabliks

Breiðablik tekur yfir rekstur íþróttamannvirkja við Kópavogsvöll samkvæmt samningi sem Kópavogsbær og Breiðablik hafa gert með sér. Breiðablik hefur séð um rekstur íþróttahúss Smárans um árabil og sinnt þjónustu í knatthúsi Fífunnar en með nýjum samningi tekur félagið alfarið að sér rekstur knatthússins, rekstur stúkumannvirkis við Kópavogsvöll ásamt rekstri Smárans. 

Samningurinn var undirritaður í dag af þeim Ármanni Kr. Ólafssyni bæjarstjóra og Orra Hlöðverssyni, formanni Breiðabliks fyrir hönd félagsins.

Undanfarin ár hefur Kópavogsbær átt viðræður við fjölgreina íþróttafélög í bænum, sem eru HK og Breiðablik, um þjónustu félaganna við bæjarbúa. Í október sl. samþykkti bæjarstjórn Kópavogs samninga við félögin og tók HK við rekstri íþróttamannvirkja í Kór um áramótin. HK hefur nú óskað eftir heimild frá Knattspyrnusambandi Íslands þess efnis að heimaleikir félagsins í knattspyrnu fari fram í knatthúsi Kórsins. Gangi það eftir verður Kópavogsvöllur eingöngu heimaleikvangur Breiðabliks og mun félagið, eins og áður segir, sjá um rekstur stúkumannvirkis á vellinum. Kópavogsbær mun sjá um rekstur og alla umhirðu og viðhald grassvæða á Kópavogsvelli.


Umræddir samningar við íþróttafélög bæjarins festa í sessi skiptingu bæjarins í þjónustusvæði, sem íþróttafélögin skuldbinda sig til að sinna. Markmiðið er að iðkendur þurfi ekki að fara lengri leið en 2 km frá heimili á æfingar íþróttafélaganna.