Keppendur heiðraðir fyrir góðan árangur

Keppendur frá Gerplu á Norðurlandamótinu ásamt Ásdísi Kristjánsdóttur bæjarstjóra.
Keppendur frá Gerplu á Norðurlandamótinu ásamt Ásdísi Kristjánsdóttur bæjarstjóra.

Stjórn Gerplu heiðraði keppendur á Norðurlandamóti í áhaldafimleikum við hátíðlega viðhöfn í vikunni. Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, ávarpaði gesti þegar glæsilegum árangri liðsins var fagnað í fimleikasalnum Versölum og færði félaginu blóm.

 

Norðurlandamótið í áhaldafimleikum fór að þessu sinni fram í Osló í Noregi. Gerpla átti fimm keppendur í karlalandsliðinu, þrjá í kvennalandsliðinu, tvo í unglingalandsliði kvenna, einn í unglingalandsliði karla og komu allir keppendur Gerplu heim með verðlaunapening.

 

Kvennalandsliðið sigraði liðakeppnina, karlalandsliðið varð í 3 sæti, unglingalandslið stúlkna í 2 sæti og unglingalandslið drengja í 3 sæti. Hildur Maja Guðmundsdóttir gerði sér lítið fyrir og sigraði fjölþrautina en þess má geta að Ísland hefur ekki unnið Norðurlandatitil í fjölþraut síðan 2006. Hildur varð einnig Norðurlandameistari í áhaldafimleikum kvenna, stökki og á jafnvægisslá. Thelma Aðalsteinsdóttir varð í 2 sæti í fjölþraut, og nældi sér í Norðurlandameistaratitil í gólfæfingum. Valgarð Reinharðsson átti glæsilegt mót og hann náði að sigra gólfæfingar líkt og Thelma.

 

Glæsilegur árangur, til hamingju.