- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Kársnes í Kópavogi hefur verið valið til þátttöku í norrænu nýsköpunarsamkeppninni Nordic Built City Challenge. Sex verkefni frá öllum Norðurlöndum voru valin til þátttöku í samkeppninni sem snýst um vistvæna, snjalla og lífvænlega bæi og borgir. Norrænar borgir og bæir standa frammi fyrir sambærilegum áskorunum þegar kemur að þróun vistvænna, snjallra og byggilegra bæja og borga. Hvernig getum við stuðlað að fjölþjóðlegri samvinnu sem tekst á við slíkar áskoranir? Það er viðfangsefnið í norrænu nýsköpunarsamkeppninni Nordic Built Cities Challenge.
Eigendur verkefna frá öllum Norðurlöndum, þar með talið umhvefissvið Kópavogsbæjar, sendu 37 tillögur að viðfangsefnum tengdum þróun þéttbýlissvæða til Nordic Built Cities Challenge. Sex þeirra voru valdar og munu þær leggja grunninn að framhaldi samkeppninnar. Auk Kársness voru meðal annars valin til þátttöku Sege Park í Malmö, Tryggve Lies Plass í Osló og Hans Tavsens Park og Korsgade í Kaupmannahöfn.
„Það er heiður að vera valinn til þátttöku í þessari samkeppni og sýnir vel þann metnað og frumkvæði sem ríkir hjá Kópavogsbæ. Við erum alltaf að leita leiða til þess að gera góðan bæ enn betri,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri.
„Með þátttöku í Nordic Built Cities gefst Kópavogsbæ kostur á að sækja í fjölbreytta þekkingu og hugmyndapott fyrir framtíðaruppbyggingu við Kársneshöfnina. Við viljum að þarna verði til hverfi sem svarar þörfum nútímans og tvinnar saman borgarlíf og gæði náttúrunnar, „ segir Sverrir Óskarsson formaður skipulagsnefndar.
„Verkefnin sex taka á áskorunum af ýmsum toga, allt frá aðlögun að loftslagsbreytingum til vistvænna samgangna og endurnýtingar efnis úr bæjarrýminu. Viðfangsefnin eru mikilvæg Norðurlöndunum og á heimsvísu, og markmiðið er að verkefnin leiði til fyrirmyndarlausna sem sýni að norræn nýsköpun sé vænleg til útflutnings, hvort sem er innan Norðurlandanna eða utan,“ segir Kristina Mårtensson, nýsköpunarráðgjafi hjá Nordic Innovation og verkefnisstjóri Nordic Built Cities.
Þess má geta að fomlegar samkeppnislýsingar fyrir verkefnin sex verða birtar 29. september. Allt að fjórir aðilar í hverri samkeppni hljóta verðlaun að upphæð 300.000 NOK. Einn sigurvegari í hverri samkeppni fær tækifæri til að framkvæma tillögu sína í náinni samvinnu við eigendur verkefnisins. Að auki keppa sigurvegararnir um aðalverðlaun samkeppninnar sem eru 1.200.000 NOK.