Jón Margeir og Íris Mist íþróttafólk ársins

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri, Jón Margeir Sverrisson, Íris Mist Magnúsdóttir og Una María Óskars…
Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri, Jón Margeir Sverrisson, Íris Mist Magnúsdóttir og Una María Óskarsdóttir, formaður íþróttaráðs.

Jón Margeir Sverrisson, sundmaður úr Fjölni/Ösp og Íris Mist Magnúsdóttir, fimleikakona úr Gerplu, voru kjörin íþróttakarl og íþróttakona Kópavogs fyrir árið 2012. Kjörinu var lýst á íþróttahátíð Kópavogs í Salnum í kvöld. Fengu þau að launum farandbikar og eignarbikar jafnframt því sem Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, afhenti þeim hvoru um sig 150 þúsund króna ávísun í viðurkenningarskyni frá bæjarstjórn Kópavogs.

Jón Margeir og Íris Mist voru valin úr hópi 43 íþróttamanna sem fengu viðurkenningu íþróttaráðs eftir tilnefningar frá íþróttafélögunum og almenningi í bænum. Íþróttaráð Kópavogs hafði veg og vanda að hátíðinni en formaður þess er Una María Óskarsdóttir.

Kópavogsbær hefur valið íþróttakarl og íþróttakonu frá árinu 1998, fyrst sveitarfélaga. Önnur sveitarfélög og sérsambönd innan Íþróttasambands Íslands fylgdu í kjölfarið.

Jón Margeir Sverrisson

Jón Margeir varð á árinu Ólympíumeistari í 200 metra skriðsundi í flokki S14 á Ólympíuleikunum í London, þegar hann synti á tímanum 1:59,93 mínútum og setti þar með einnig nýtt og glæsilegt heimsmet. Hann setti einnig heimsmet í 1.500 metra skriðsundi á Gullmóti KR í febrúar og annað heimsmet leit dagsins ljós á Opna þýska meistaramótinu á miðju sumri í 800 metra skriðsundi. Þá varð Jón Margeir Íslandsmeistari í fjölda greina á árinu og setti einnig nokkur ný Íslandsmet. Jón Margeir er því margfaldur Íslandsmeistari árið 2012, þrefaldur heimsmethafi, ólympíumótsmethafi og gullverðlaunahafi í 200 metra skriðsundi á Ólympíumótinu í London.

Íris Mist Magnúsdóttir

Íris Mist varð á árinu fjórfaldur Íslandsmeistari í hópfimleikum ásamt stöllum sínum í liði Gerplu. Bikarmeistaratitilinn fór einnig til Írisar og félaga hennar í Gerplu sem sigraði reyndar á öllum mótum sem liðið tók þátt í á árinu. Íris Mist hefur um árabil verið lykilmanneskja íslenskra fimleika og frammistaða hennar í landsliði Íslands í hópfimleikum verið til mikillar fyrirmyndar. Íris Mist var einn af máttarstólpum landsliðsins sem varði Evrópumeistaratitil Íslands í kvennaflokki á Evrópumeistaramótinu í hópfimleikum, sem fór fram í Aarhus í Danmörku í október. Íris Mist er þekkt fyrir að framkvæma allar æfingar með mikilli einbeitingu, krafti og glæsileika en að auki að vera mikill styrkur fyrir sína liðsfélaga innan sem utan vallar. Íris Mist hefur lengi verið ein besta fimleikakona Evrópu og hefur framkvæmt mörg af flóknustu stökkunum sem sést hafa á Evrópumeistaramótum.

Viðurkenningar

Flokkur 17 ára og eldri:

Aðalheiður Rósa Harðardóttir karate, Alexander Stefánsson blak, Auðunn Jónsson kraftlyftingar, Ásta Lovísa Arnórsdóttir júdó, Fanndís Friðriksdóttir knattspyrna, Heiðar Benediktsson karate, Íris Mist Magnúsdóttir hópfimleikar, Jóhanna Þórarinsdóttir kraftlyftingar, Jón Margeir Sverrisson sund, Júlía Grétarsdóttir listhlaup á skautum, Kári Steinn Karlsson frjálsar íþróttir, Ólafur Bjarki Ragnarsson handknattleikur, Ragnar Már Garðarsson golf, Stefanía Valdimarsdóttir frjálsar íþróttir.

Flokkur 13 til 16 ára:

Alexía Mist Víðisdóttir dans, Andrea Rán Hauksdóttir knattspyrna, Anna Soffía Grönholm tennis, Arna Katrín Kristinsdóttir karate, Elísabet Einarsdóttir blak, Elma Lára Auðunsdóttir knattspyrna, Gunnhildur Kristjánsdóttir golf, Irma Gunnarsdóttir frjálsíþróttir, Kolfinna Bergþóra Bjarnadóttir borðtennis, Kristín Hermannsdóttir hestaíþróttir, Margrét Hrönn Jóhannsdóttir dans, Ragnheiður Karlsdóttir sund, Sigríður Hrönn Bergþórsdóttir fimleikar, Þórhildur Braga Þórðardóttir handknattleikur, Alexander Helgi Sigurðarson knattspyrna, Andri Snær Kristmannsson knattspyrna, Arnaldur Karl Einarsson skíði, Aron Snær Júlíusson golf, Baldur Benediktsson karate, Bjarni Sævar Sveinsson dans, Björn Gunnarsson borðtennis, Búi Fannar Ívarsson siglingar, Elvar Smári Clausen Einarsson sund, Eyþór Örn Baldursson fimleikar, Höskuldur Þór Jónsson dans, Lúðvík Már Matthíasson blak, Ragnar Már Garðarsson golf, Reynir Zoëga frjálsíþróttir, Sigurður Egill Karlsson handknattleikur og Vladimir Ristic tennis.

Flokkur ársins 2012 var kjörinn meistaraflokkur Gerplu í hópfimleikum kvenna en liðið varð Evrópumeistari í hópfimleikum kvenna auk þess að verða bæði Íslands- og bikarmeistari.

Einnig voru á hátíðinni afhentar viðurkenningar fyrir árangur á alþjóðlegum vettvangi. Ármann Kr. Ólafsson og Una María Óskarsdóttir, formaður íþróttaráðs, afhentu íþróttafólkinu viðurkenningarskjöl.