- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Listasafn Kópavogs-Gerðarsafn fagnar tuttugu ára afmæli sínu um þessar mundir. Af því tilefni verður afmælissýning opnuð laugardaginn 24. maí kl. 15:00. Á sýningunni eru verk úr safneign eftir Barböru Árnason, Gerði Helgadóttur, Magnús Á. Árnason og Valgerði Briem. Úr einkasafni Þorvaldar Guðmundssonar og Ingibjargar Guðmundsdóttur eru sýnd verk eftir Jóhannes S. Kjarval.
Hvatinn að byggingu Gerðarsafnsins var höfðingleg gjöf sem erfingjar Gerðar Helgadóttur (1928–1975) færðu Kópavogsbæ árið 1977. Þetta voru um 1400 listaverk úr dánarbúi listakonunnar en hún lést árið 1975 aðeins 47 ára að aldri
Fordæmi erfingja Gerðar og vissan um að listasafn myndi rísa í Kópavogi innan fárra ára áttu vafalítið sinn þátt í því að árið 1983 barst bænum önnur stórgjöf, frá minningarsjóði Barböru Árnason (1911–1975) og Magnúsar Á. Árnasonar (1894–1980). Það voru 300 verk eftir þau hjónin, 100 eftir Barböru og 200 eftir Magnús.
Árið 2009 færðu börn Valgerðar Briem Gerðarsafni að gjöf teikningasafn móður sinnar. Í þessari miklu gjöf eru rösklega 1600 teikningar af ýmsum toga, unnar með margvíslegum aðferðum, sem gefa ágæta mynd af listþróun Valgerðar.
Þessar fjórar rausnarlegu listaverkagjafir eru kjarninn í listaverkaeign Gerðarsafns. Þær eru og munu verða óþrjótandi uppspretta fyrir sýningarhald og safninu til styrktar á alla lund. Í safneign eru auk þess fjöldi verka sem keypt hafa verið frá árinu 1965 fyrir fé Lista- og menningarsjóðs.
Árið 2001 gerðu Listasafn Kópavogs-Gerðarsafn og Listaverkasafn Þorvaldar Guðmundssonar og Ingibjargar Guðmundsdóttur með sér vörslusamning um listaverk sem tilheyra þessu stóra einkasafni. Þau hjónin, Þorvaldur og Ingibjörg, eignuðust langstærsta „Kjarvalssafn“ á landinu í einkaeign og gefur það eitt og sér ágæta yfirsýn yfir listferil Jóhannesar S. Kjarvals.
Sýningin stendur til 27. júlí.