Gagnagreining nýtt til að bæta lífsgæði barna

Amanda Karima heldur erindi á ráðstefnu Planet Youth.
Amanda Karima heldur erindi á ráðstefnu Planet Youth.

Sérfræðingar Kópavogsbæjar kynntu notkun Kópavogsbæjar á mælaborði til þess að forgangsraða verkefnum og fjármagni í þágu barna og ungmenna á ráðstefnu Planet Youth sem haldin var 19.mars. 

Í erindum sínum útskýrðu Amanda Karima Ólafsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofudeildar menntasviðs, og Jakob Sindri Þórsson, sérfræðingur á skrifstofu umbóta og þróunar, hvernig sveitarfélagið hefur þróað mælaborð sem safnar gögnum um lykilþætti eins og menntun, heilsu, félagslega þátttöku og öryggi barna. Þau kynntu einnig hvernig gögnin hafa verið nýtt til að forgangsraða verkefnum og fjármagni í þágu barna, með það að markmiði að bæta lífsgæði þeirra og tryggja öllum jöfn tækifæri til farsældar.

Þess má geta að Kópavogsbær hefur verið leiðandi í innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í íslenskum sveitarfélögum og hlaut viðurkenningu sem barnvænt sveitarfélag árið 2021. Mælaborð barna er eitt þeirra verkefna sem hefur verið sett á laggirnar í tengslum við innleiðingu á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í Kópavogi.

„Við sjáum mikinn ávinning af því að vinna gagnadrifið og forgangsraða verkefnum eftir raunverulegri þörf,” sagði Amanda. „Áreiðanleg gögn eru lykilatriði til að sveitarfélög geti brugðist við og tekið upplýstar ákvarðanir um málefni barna.”

Jakob benti á að hefðbundnar alþjóðlegar mælingar nái oft ekki að fanga raunverulega líðan barna í hátekjusamfélögum eins og á Íslandi. „Með mælaborðinu höfum við skapað nýjar leiðir til að greina stöðu barna og grípa til aðgerða þegar þörf krefur,” sagði hann.

Ráðstefna Planet Youth safnar saman sérfræðingum víða að úr heiminum sem vinna að velferð barna með gagnadrifnum aðferðum. Þar var fjallað um nýjustu rannsóknir og lausnir á sviði barnaverndar, forvarna og samfélagslegrar ábyrgðar.