- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Sundlaug og sjósundsaðstaða í Fossvoginum miðjum, flotbrú milli sveitarfélaga, söfn, yfirbyggður almenningsgarður og lífleg blöndun byggðar eru meðal þess sem lagt er til í tillögum í alþjóðlegri hugmyndasamkeppni um Kársnes, „Kársnes – sjálfbær líftaug.“
Tillögurnar fjórar, Sólborg, Spot on, Evolve Kársnes og Harbouring life, eiga það sammerkt að vilja efla samfélagið á Kársnesi, nýta einstaka staðsetningu þess og mögulegar tengingar við Vatnsmýrina í Reykjavík, styrkja útivistarsvæði og koma með umhverfisvænar lausnir í mannvistar- og samgöngumálum
„Það er mjög spennandi að þátttakan í þessari keppni hafi skilað svona áhugaverðum og framsæknum tillögum. Mikil gerjun er í skipulagsmálum Kársness og í undirbúningi vinna við gerð deiliskipulags fyrir hafnarsvæðið og næsta nágrenni þess. Stefnt er að því að niðurstaða úr Kársnesskeppninni verði innlegg í þá vinnu,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs.
Alþjóðleg keppni
Kópavogsbær var valinn til þátttöku í keppninni Nordic Built Cities Challenge á síðasta ári. Keppninni var hleypt af stokkunum síðastliðið haust og hafa fjórar tillögur verið valdar til áframhaldandi þátttöku í keppninni. Auk Kársness í Kópavogi voru fimm önnur þéttbýlissvæði á Norðurlöndum valin til þátttöku í Nordic Built Cities Challenge. Samkeppnin hefur það sem meginmarkmið að efla nýsköpun og samkeppnishæfni Norðurlandanna á sviði sjálfbærni í byggðu umhverfi.
Auk Kársness voru valin til þátttöku í Nordic Built Cities Challenge: Sege Park í Malmö, Tryggve Lies Plass í Osló, Hans Tavsens Park og Korsgade í Kaupmannahöfn, Runavík í Færeyjum og Kera iðnaðarhverfið í Espoo í Finnlandi. Áskoranir á svæðunum eru af ýmsum toga, frá aðlögun að loftslagsbreytingum til vistvænna samgangna og endurnýtingar efnis úr bæjarrýminu, en eiga það sameiginlegt að vera mikilvægar á Norðurlöndunum og á heimsvísu.
Skipuð var dómnefnd á hverjum stað. Íslensku dómnefndina skipa Guðný Björk Eydal, Hrafnkell Proppé, Karl Benediktsson, Þór Sigfússon og Þóra Kjarval. Alls bárust 19 tillögur í samkeppnina um Kársnes. Tillögurnar eru undir nafnleynd sem ekki verður aflétt fyrr en að lokinni keppni síðar á þessu ári.
Hugmyndir til útflutnings
Kópavogsbær sér um framkvæmd fyrri hluta keppninnar og mun hin íslenska dómnefnd velja eina tillögu sem send verður í lokahluta keppninnar. Í honum etja kappi sigurtillögur frá hverju hinna Norðurlandanna. Þess má geta að af hálfu Nordic Built Cities er lögð áhersla á að hugmyndir í keppninni leiði til nýjunga í vöru eða þjónustu sem mætti mögulega nota til útflutnings frá Norðurlöndunum og að þær verði raungerðar innan fárra ára.
Smellið hér til að lesa niðurstöðu dómnefndar og rökstuðning.
Keppnisgögn, myndbönd og myndir má skoða hér www.kopavogur.is/nbcc