Endurnýja norrænt samstarf

Fulltrúar frá Finnlandi, Færeyjum, Svíþjóð, Noregi, Íslandi og Danmörku.
Fulltrúar frá Finnlandi, Færeyjum, Svíþjóð, Noregi, Íslandi og Danmörku.

Kópavogur og vinabæir hans á hinum Norðurlöndunum hafa endurnýjað samkomulag um frekara vinabæjarsamstarf í náinni framtíð. Nýr samstarfssamningur var undirritaður í Norrköping í Svíþjóð í vikunni. Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri ritaði undir samninginn ásamt bæjarstjórum eða vara bæjarstjórum í Norrköping í Svíþjóð, Trondheim í Noregi, Klaksvik í Færeyjum, Óðinsvéum í Danmörku og Tampere í Finnlandi.
Formlegt samstarf þessara bæja með samstarfssamningi nær aftur til ársins 1995. Tengsl og samskipti bæjanna nær þó enn lengra aftur í tímann.

Hinn nýi samstarfssamningur vinabæjanna byggir að miklu leyti á samningnum frá árinu 1995. Fram að þessu hefur megináherslan verið lögð á samstarf á sviði æskulýðs- og menningarmála en mikill áhugi er á að útvíkka samstarfið, svo sem með því að skiptast á reynslu og þekkingu á sviði velferðarmála, atvinnumála og þjónustu við eldri borgara, svo dæmi séu nefnd.


Skýrt kom fram á fundinum í Norrköping í vikunni að vinabæirnir væru allir meira og minna að fást við sömu hluti og reyna að leysa sömu vandamál. Bæjarstjóri Kópavogs mælti fyrir því að haldnir yrðu þemafundir reglulega þar sem embættismenn gætu skipst á upplýsingum og lausnum. Þannig væri ekki hver úti í sínu horni heldur væri hægt að læra hver af öðrum.

Eva Andersen, bæjarstjóri Norrköping, lagði áherslu á að íbúar vinabæjanna ættu margt sameiginlegt og að mikilvægt væri að efla enn frekar þekkingu unga fólksins á sögu okkar og menningu. Í Norrköping væri til dæmis reglulega norrænir þemadagar þar sem til dæmis skólabörn fengju til dæmis að smakka þjóðarrétti frá hinum Norðurlöndunum.

Vinabæjarmót hafa verið haldin reglulega frá árinu 1995 þar sem bæjarstjórar hittast og skiptast vinabæirnir á því að halda slík mót.