- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Meiri aðstoð í íslensku og við heimanám almennt og fræðsla um frístundastarf sem stendur börnum til boða er meðal þess sem börn af erlendum uppruna telja að mætti sinna betur. Þetta kom fram á málstofu sem Kópavogsbær og Akureyrarbær stóðu fyrir og haldið var í Kópavogi 29. september.
Tuttugu börn úr bæjarfélögunum, sem eru af erlendum uppruna, tóku þátt í málstofunni til að ræða hvernig mætti tryggja að raddir þeirra heyrðust. Málstofan er hluti af verkefni sem styrkt er af Þróunarsjóði innflytjendamála hjá félags- og barnamálaráðuneytinu.
Lífleg umræða, gleði og ánægja ríkti á málstofunni og voru þátttakendur verulega ánægðir með hvernig til tókst.
Á málstofunni var unnið út frá 3., 6. og 12. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem fjalla um að virða skoðanir barna, að skapa þeim góðar aðstæður til að lifa og þroskast og leitast við að gera ávallt það sem börnum er fyrir bestu.
Börnunum, sem voru á aldrinum 12 til 15 ára og tala samtals 10 tungumál auk íslensku, var skipt í hópa sem fjölluðu um þessar greinar. Samantekt á niðurstöðum hópanna verður kynnt bæjaryfirvöldum.
Bæjarfélögin tvö er þau einu á landinu sem hafa fengið viðurkenningu sem Barnvæn sveitarfélög. Barnvæn sveitarfélög leita markvisst eftir sjónarmiðum barna og var tilgangur málstofunnar að hlusta sérstaklega eftir röddum barna af erlendum uppruna.
Þetta sögðu þátttakendur:
Börnin sögðu oft á þau hlustað en þeim fannst þó koma of oft fyrir að þeim væri ekki trúað þegar þau væru að segja frá og skorta á aðgerðir í kjölfarið. Sérstaklega fannst þeim erfitt að taka upp mál eins og einelti og rasískt orðbragð sem sumir nota við eða um þau, jafnvel án þess að gera sér grein fyrir meiningunni.
Börnin töldu heppilegt ef skólar biðu upp á formlegt samtal og fræddu þau um hvað teldist til frístundastarfs sem þau gætu tekið þátt í. Sum þeirra vita ekki hvað er í boði eða geta jafnvel ekki tekið þátt vegna fjarlægða og samgöngumála eða vegna tímaleysis meðal annars vegna umönnunar yngri systkina.
Börnin sögðust helst þurfa aðstoð við heimanám (sem þau sögðu að mætti alveg vera minna) og þá ekki síst við námsgreinar eins og íslensku, vegna þess að ef þau ná ekki góðum tökum á íslenskunni kemur það niður á öðrum námsgreinum. Þetta á jafnt við börn sem fædd eru á Íslandi sem og þau sem hafa flutt hingað með foreldrum sínum eða forráðamönnum. Þau vilja gjarnan fá aðstoð byggða á einstaklingsbundinni þörf frekar en að verið sé að gera þau öðruvísi sem hóp því þau vilji ekkert endilega slíka athygli. Þá töldu börnin betra að hafa meira af símati (leiðsagnarmati) í skólunum því reglulegt mat á stöðu þeirra hjálpar meira en að vera með próf.
Þá nefndu þau sérstaklega að skólastarfið mætti fela í sér meira val, sveigjanleika og skapandi nám. Þannig geta þau fyrr eflt áhugasvið sitt og fá síður tilfinningu fyrir því að námið sé tilgangslaust sem stundum sé raunin. Í skólanum skorti nám um hluti sem þau þyrftu á að halda til að lifa lífinu og til að takast á við praktísk verkefni lífsins sem aftur getur hjálpað þeim að undirbúa sig undir framtíðina.
Maturinn í mötuneytum skólanna varð hitamál á málþinginu og töldu börnin að hér þyrfti að gera mun betur. Þeim fannst fæðið of einhæft og hráefnið ekki nógu gott. Þau töldu að mögulega mætti efna til kosninga meðal barnanna um matseðlagerðina.
Að lokum sögðu börnin að Íslendingar mættu alveg brosa meira.