Björk Þorgrímsdóttir hlýtur Ljóðstafinn

Björk Þorgrímsdóttir handhafi Ljóðstafs Jóns úr Vör ásamt bæjarstjóra, varaformanni Lista- og menni…
Björk Þorgrímsdóttir handhafi Ljóðstafs Jóns úr Vör ásamt bæjarstjóra, varaformanni Lista- og menningarráðs og valnefnd í ljóðasamkeppninni.

Ljóðstafur Jóns úr Vör var afhentur í 18. sinn við hátíðlega athöfn í Salnum á afmælisdegi skáldsins þann 21. janúar.

Handhafi Ljóðstafsins árið 2020 er Björk Þorgrímsdóttir.

Í öðru sæti var Freyja Þórsdóttir fyrir ljóðið Skilningur og þriðja sætið hlaut Elísabet Kristín Jökulsdóttir fyrir ljóðið Að elska Vestfirðing.

Sérstaka viðurkenningu hlutu auk þess ljóðskáldin Björk Þorgrímsdóttir, Draumey Aradóttir, Haukur Þorgeirsson og Tómas Ævar Ólafsson.

Alls bárust 232 ljóð í keppnina og dómnefnd skipuðu Bjarni Bjarnason formaður, Ásta Fanney Sigurðardóttir og Magnús Sigurðsson.

Hlutskörpust í grunnskólakeppninni var Ingimar Örn Hammer Haraldsson í 7. Bekk Álfhólsskóla fyrir ljóðið Svarthol. Í öðru sæti var Arnór Snær Hauksson í 5. Bekk Salaskóla fyrir ljóðið Grimma tréð og í þriðja sæti Steinunn María Gunnarsdóttor og Ragnheiður Jónasdóttir í 7. bekk Kársnesskóla fyrir ljóðið Draumaland.

Þá hlutu sjö nemendur sérstaka viðurkenningu en  þau eru: Benedikt Einarsson í 10. bekk Vatnsendaskóla, Helgi Geirsson í 7. bekk Álfhólsskóla, Bára Margrét Guðjónsdóttir í 5. bekk Salaskóla, Kristín Elka Svansdóttir í 5. bekk Hörðuvallaskóla, Hrannar Ben Ólafsson í 5. bekk Hörðuvallaskóla og Ingunn Jóna Valtýsdóttir í 10. bekk Lindaskóla.

Alls bárust 153 ljóð frá grunnskólabörnum.

 Við athöfnina fluttu Ágúst Ólafsson baritón og Eva Þyri Hilmarsdóttir píanóleikari lög við ljóð Jóns úr Vör.

 

Sigurljóðið í ljóðasamkeppni um Ljóðstaf Jóns úr Vör 2020. Höfundur Björk Þorgrímsdóttir.

Augasteinn

 

undan nóttinni vaxa trén

við vorum sammála um það

hvort var það ég eða þú sem komst aftur?

var ég heilög og húðin sjúklega geislandi

kjarni sítrusávaxta

 

við ræddum lófana í hljóði

góm við góm

meðan augasteinarnir sukku

sáttlausir í myrkrinu

 

það fæst engin medalía fyrir tilraunastarfsemi

 

þú með þína klofnu tungu

og ég sem næli orðunni

rétt undir viðbeinið

 

Sigurljóð í ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs 2020. Höfundur Ingimar Örn Hammer Haraldsson
 

Svarthol

Svarthol eru svört,

og draga að sér ljós,

en ekki nógu sterk,

til þess að draga að sér,

mína sál.