- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Aðgengi að Hermannsskógi hefur verið bætt til muna með nýjum göngu- og hjólastígum auk þess sem skógurinn hefur verið grisjaður og snyrtur, stórt tún tekið aftur í rækt og þá hefur mikil tiltekt verið á svæðinu. Skógurinn er vestast í Fossvogsdal, neðan fjölbýlishúsanna í Lundi.
Skógurinn er kenndur við Hermann Jónasson (1896 - 1976) forsætisráðherra sem hafði svæðið til umráða frá því um 1940 en síðar eignaðist Skógræktarfélag Reykjavíkur það og hafði umsjón með því fram á 10. áratug síðustu aldar.
Kópavogsbær keypti landið fyrir tveimur árum og hefur staðið að miklum endurbótum síðan þá. Tvær brýr yfir Fossvogslæk, sem rennur í gegnum skóginn endilangan, hafa verið endurnýjaðar. Sumarið 2020 var gerður um 400 metra langur malarstígur norðan lækjarins og í byrjun síðasta vetrar var lokið við nýjan göngu- og hjólastíg í sunnanverðum Hermannsskógi, sem tengir saman stíga í Fossvogsdal við þá sem eru við Kringlumýrarbraut / Hafnarfjarðarveg og áfram út á Kársnesið. Þessi stígur var kosinn í í íbúalýðræðisverkefninu Okkar Kópavogur árið 2020.
Fjöldi trjáa prýðir Hermannsskóg en á tímabilinu 1940-1990 var mikið gróðursett á svæðinu. Þar er meðal annars að finna stærsta tré bæjarins; sitkagreni sem orðið er um 25 metra hátt. Algengasta trjátregundin í Hermannsskógi er birki og sitkagreni en fjölda annarra tegunda er þar að finna, til dæmis blágreni, rauðgreni, broddgreni, stafafuru, fjallaþin, hvítþin, reynivið, hegg, selju, blæösp, alaskaösp, alaskaepli, elri og lerki, auk fjölda runnategunda.
Segja má að þetta gamalgróna svæði sé nýjasta útivistarsvæði Kópavogsbæjar, en borð og bekkir eru víða og tilvalið að fara í lautar- og gönguferðir í Hermannsskógi sem er friðsæll og ríkur af fuglalífi.