Ærslagangur um allan bæ

Ærslabelgur við Salalaug kom í gagnið árið 2020.
Ærslabelgur við Salalaug kom í gagnið árið 2020.

Ærslabelgjum fjölgar óðum í Kópavogi en í lok sumars verða öll hverfi í bænum komin með einn slíkan. Undanfarin ár hafa ærslabelgir áunnið sér miklar vinsældir hér á landi en fyrir þá sem ekki þekkja til eru svokallaðir ærslabelgir uppblásnar hoppudýnur.

 

Fyrsti ærslabelgurinn í Kópavogi var tekinn í notkun 2018 og er á túninu við Menningarhúsin í Kópavogi. Hann fékk góðar viðtökur og í kjölfarið óskuðu íbúar eftir fleiri belgjum í hugmyndasöfnun Okkar Kópavogs. Þær hugmyndir nutu mikils fylgis í íbúakosningum og varð niðurstaðan sú að fjórir ærslabelgir til viðbótar yrðu reistir í hverfum Kópavogs.

 

Ærslabelgur við Salalaug kom í gagnið árið 2020 en ærslabelgir í Smárahverfi og við Tröllakór voru tilbúnir í byrjun sumars 2021. Við þeim fimmta og síðasta má búast við í lok sumars en hann verður staðsettur í Fossvogsdal, neðan Reynigrundar.