- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Afhendingu 100 spjaldtölva í leikskóla Kópavogs lauk í dag. Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, afhenti leikskólastjórum bæjarins spjaldtölvurnar og 20 fartölvur á leikskólanum Efstahjalla. Spjaldtölvurnar voru afhentar með fjölmörgum smáforritum, öppum, sem nýtast í kennslu á leikskólastigi. Eftir afhendinguna í dag verða haldin námskeið fyrir alla kennara í leikskólum Kópavogs og framhaldsnámskeið fyrir þá kennara sem eru lengra komnir .
Spjaldtölvur hafa verið notaðar með góðum árangri í kennslu í leikskólum Kópavogs. Þær hafa nýst í sérkennslu, tungumálakennslu og við úrlausn einfaldra sem flókinna verkefna fyrir börn á leikskólaaldri. Með fleiri spjaldtölvum fjölgar möguleikum á notkun tækjanna.
„Afhending spjaldtölva eru kaflaskil í leikskólastarfi í Kópavogi. Spjaldtölvurnar eru fyrirtaks viðbót við þann fjölbreytta efnivið sem leikskólarnir bjóða upp á til að örva börn í námi og leik.Spjaldtölvuvæðing leikskólanna er líka í góðu samræmi við þá stefnu meirihlutans að skólar í Kópavogi séu í fremstu röð. Öflug og rétt notkun upplýsingatækni á öllum skólastigum styrkir nemendur okkar, “ sagði Ármann Kr. Ólafsson við tækifærið.
Afhending spjaldtölvanna helst í hendur við uppsetningu þráðlauss nets í leik- og grunnskólum Kópavogs. Nettengin leikskólanna í Kópavogi, sem eru 19 talsins, var stækkuð þrefalt árið 2013 og er uppsetningu þráðlauss nets nú lokið í öllum nema tveimur leikskólum Kópavogs. Þráðlaust net eykur mjög á notkunarmöguleika spjaldtölva og fartölva í skólastarfi.
Í fyrra voru auk þess allar borðtölvur leikskólanna uppfærðar í vinnurýmum kennara og hjá stjórnendum. Um er að ræða samtals 100 öflugar borð- og fartölvur.
Kostnaður við uppsetningu á þráðlausu neti og kaup á búnaði fyrir leikskóla eru um 30 milljónir króna á þessu ári. Í þeirri upphæð er einnig kostnaður við lagfæringar á lögnum sem reyndust nauðsynlegur undanfari uppsetningarinnar.