- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Kópavogsbúar geta haft áhrif og kosið um íþróttafólk ársins 2023.
Rafræn íbúakosning um íþróttakarl og íþróttakonu Kópavogs 2023 verður á heimasíðu Kópavogsbæjar í gegnum þjónustugátt Kópavogs.
Valið stendur á milli 10 íþróttamanna sem íþróttaráð Kópavogs valdi úr innsendum tilnefningum frá íþróttafélögunum. Kjósa má einn íþróttakarl og eina íþróttakonu.
Kosning hefst þann 20. desember 2023 og lýkur 6. janúar 2024.
Niðurstaða kosninganna verður síðan kynnt á Íþróttahátíð Kópavogs í Salnum, fimmtudaginn 11. janúar 2024 kl. 17:30, en þar verða jafnframt veittar viðurkenningar vegna íþróttaársins 2023.
Hér má lesa um það íþróttafólk sem er í kjöri og skarað hefur framúr á árinu 2023.
Birna Kristín er Íslandsmeistari kvenna í 60m grindarhlaupi innanhúss. Í langstökki, hennar aðalgrein hefur hún átt mög gott ár og stokkið margoft yfir 6 metra, lengst stökk hún 6.11 metra sem er aðeins einum sentimetra frá íslandsmeti U23 í greininni. Einnig er hún margfaldur aldursflokkameistari og bikarmeistari í fjölda greina. Birna Kristín tók þátt í tveimur landsliðsverkefnum á árinu Evrópubikar landsliða og Smáþjóðaleikunum, þar sem hún hafnaði í 3 sæti í langstökki og 4 sæti í 100m grindarhlaupi.
Freyja Dís Benediktsdóttir átti glæsilegt ár. Hún var valin Trissubogakona Bogfimisambands Íslands árið 2023 og er þetta í fyrsta sinn sem Freyja hreppir titilinn. Hún vann 7 íslandsmeistaratitla á árinu, 5 í fullorðinsflokki og 2 í U21 flokki. Hún setti 5 íslandsmet í U21 árs flokki og tvö í fullorðinsflokki. Freyja varð fyrst íslendinga til þess að vinna verðlaun á Evrópubikarmóti ungmenna en þar hafnaði hún í 2. sæti. Einnig vann Freyja silfur á World Series. Hún er sem stendur í 2. sæti á World Series Elite heimslista U21 alþjóðabogfimisambandsins og er búin að tryggja sér þátttöku í úrslitamótinu í Frakklandi í janúar 2024, þar keppa topp 16 í heiminum um World Series Champion titilinn.
Herdís er keppandi með U21 árs landsliðshóp hestamanna. Hún varð heimsmeistari í T1 í Ungmennaflokki á hestinum Kvarða frá Pulu sumarið 2023 og er yngsti keppandi sem hefur orðið Heimsmeistari í tölti frá upphafi. Herdís Björg og Kvarði frá Pulu urðu einnig Íslandsmeistarar í Tölti T1 í unglingaflokki á Íslandsmóti og á Þórvör frá Lækjarbotnum varð hún Íslandsmeistari í Gæðingaskeiði í unglingaflokki. Herdís er fyrirmyndar hestakona, hvort sem er innan vallar eða utan.
Höskuldur hefur á líðandi tímabili farið fyrir liði Breiðabliks sem komst í riðlakeppni Sambandsdeildar UEFA fyrst íslenskra karlaliða.Liðið endaði einnig í 3 sæti í Bestu deild karla á árinu. Höskuldur lék einn A landsleik á árinu gegn Svíþjóð, en í þeim leik var hann fyrirliði liðsins.Hann er virkilega góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur félagsins, bæði hvað varðar ástundun en ekki síður hvernig hann kemur fram fyrir hönd félagsins.
Ingvar varð bæði Íslands- og bikarmeistari í götuhjólreiðum og Cyclocross á árinu. Hann varð í 2. sæti á Íslandsmótunum í tímatöku, fjallahjólreiðum og maraþon fjallahjólreiðum. Einnig sigraði hann í Bláalónsþrautinni og Westfjords Way Midnight Special. Á erlendri grundu tók Ingvar þátt í tíu keppnum, þar af fjórum stórmótum. Má þar helst nefna Dirty Reiver sem Ingvar vann og var það áttundi sigur hans erlendis á ferlinum. Hann varð 15. í The Traka 200 km, náði 17. sæti í Swiss Epic (UCI S1 keppni). Ingvar tók þátt í tímatöku bæði á HM (52. sæti) og EM (28. sæti).
Sigurður Örn Ragnarsson var valinn þríþrautarmaður ársins 2023 af Þríþrautarsambandinu en þetta er 6. árið í röð sem hann er valinn þríþrautarmaður ársins hjá ÞRÍ. Sigurður vann 5 af 6 bikarmótum sumarsins og varð Íslandsmeistari í ofursprettþraut og ólympískri þríþraut. Hann keppti jafnframt á heimsmeistaramótinu í Járnmanni (Ironman) og hafnaði í 82 sæti af 223. Sigurður er samhliða æfingum sínum aðalþjálfari Þríþrautardeildar Breiðabliks.
Sóley varð Evrópumeistari í kraftlyftingum þegar hún sigraði með yfirburðum í +84 kg. flokki kvenna með því að lyfta samanlagt 660 kg. Hún vann til gullverðlauna í bæði hnébeygju með 270 kg lyftu og í bekkpressu með 182,5 kg lyftu og svo silfurverðlaun í réttstöðulyftu með 207,5 kg. Á Heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum vann Sóley til silfurverðlauna í +84 kg flokki eftir harða baráttu um gullið með því að lyfta samanlagt 657,5 kg. Hún vann gullverðlaun í hnébeygju með 277,5 kg, silfurverðlaun í bekkpressu með 180 kg og bronsverðlaun í réttstöðulyftu 200 kg.
Thelma átti sitt besta keppnisár frá upphafi 2023. Hún varð Íslandsmeistari í fjölþraut kvenna og bikarmeistari með liði sínu Gerplu. Thelma varð Norðurevrópumeistari á tvíslá auk þess að vinna sér inn keppnisrétt á Heimsmeistaramótinu, en þar gerði hún sér lítið fyrir og náði sínum hæðstu stigum í fjölþraut á alþjóðlegu móti og var eingöngu 0,8 stigum frá því að vinna sér inn sæti á Ólympíuleikunum. Thelma stefnir ótrauð á að vinna sér inn sæti á leikunum í París 2024. Á heimsbikarmóti í Szombathely í Ungverjalandi gerði Thelma sér lítið fyrir og komst í úrslit á stökki og var fyrsti varamaður inn í úrslit á jafnvægisslá. Í úrslitunum á stökki hafnaði Thelma í 7. sæti.
Valgarð er búinn að vera fremsti fimleikamaður landsins undanfarin ár og var 2023 engin undantekning. Hann er enn að bæta við sig í erfiðleika og stefnir á Ólympíuleikana í París á næsta ári. Valgarð varð Íslandsmeistari í fjölþraut og bikarmeistari með liði sínu Gerplu. Hann stóð sig vel á Evrópumótinu í Tyrklandi í vor og náði þar að tryggja sér sæti heimsmeistaramótinu sem fram fór í Belgíu. Hann keppti mjög vel á heimsbikarmótum á árinu og komst í úrslit á einu af hans uppáhaldsáhöldum gólfinu. Valgarð varð svo í 2. sæti á tvíslá á Norður Evrópumótinu, síðasta móti ársins.
Vignir Vatnar hefur unnið ótal afrek á árinu. Hann varð Norðurlandameistari U20 í febrúar. Kláraði stórmeistaratitilinn í mars og varð þannig sextándi stórmeistari Íslendinga. Stærsta afrekið var svo í mai þegar Vignir Vatnar varð Íslandsmeistari í skák, bestur á Íslandi. Í lok september varð hann í 13.sæti á HM U20 í Mexíkó og tefldi á 3ja borði með landsliði íslands á EM landsliða í Svartfjallalandi í nóvember. Vignir Vatnar er áberandi í íslensku skáklífi og er mikilvæg fyrirmynd fyrir ungmenni og börn sem æfa skák af kappi. Á árinu stofnaði hann sinn eigin skákkennslu vef ásamt því að sinna afreksþjálfun í skák hjá Skákdeild Breiðabliks.