- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Kópavogsbúar geta haft áhrif og kosið um íþróttakonu og íþróttakarl ársins 2021. Valið stendur á milli 12 íþróttamanna sem íþróttaráð Kópavogs valdi úr innsendum tilnefningum frá íþróttafélögunum. Kjósa má einn karl og eina konu.
Rafræn íbúakosning um íþróttakarl og íþróttakonu Kópavogs 2021 verður á heimasíðu Kópavogsbæjar í gegnum þjónustugátt Kópavogs.
Kosning hefst þann 28.desember 2021 og lýkur 9. janúar 2022.
Niðurstaða kosninganna verður síðan kynnt á Íþróttahátíð Kópavogs fimmtudaginn 13. janúar 2022 kl 18:00 þar sem veitt vera viðurkenningar vegna íþróttaársins 2021.
Fyrirkomulag hátíðarinnar fer eftir samkomutakmörkunum og verður kynnt síðar.
Hér má lesa um það íþróttafólk sem er í kjöri og skarað hefur framúr á árinu 2021.
Agata Erna er sannur frumkvöðull og brautryðjandi í sinni íþróttagrein en hún hefur stundað dansíþróttina frá 5 ára aldri. Hún keppti fyrst Íslendinga í stjörnuflokki, flokki fyrir íþróttafólk með fatlanir, í samkvæmisdönsum á vegum Dansíþróttasambands Íslands bæði á Íslandi sem og erlendis. Hún varð íslandsmeistari í sínum greinum, Latin og Standard dönsum. Í ágúst 2021 fór hún erlendis og keppti fyrst Íslendinga á Special Olympics í dansi, náði þeim ótrúlega árangri að sigra yfir 100 keppendur og verða fyrsti Heimsmeistari Íslendinga í dansi á vegum Special Olympics og alþjóðlega dansíþróttasambandsins. Agata dansar í flokki með "unified partner" þá dansar hún við ófatlaðan einstakling, en aðeins Agata er dæmd til stiga.
Agla María var valinn besti leikmaður Pepsi Max deildar kvenna á árinu, en hún var lykilmaður í sterku liði Breiðabliks sem hafnaði í 2.sæti í deildinni ásamt því að liðið varð Bikarmeistari kvenna 2021. Lið Breiðabliks komast jafnframt í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu og stóð sig með miklum ágætum. Agla María er fastamaður í íslenska kvennalandsliðinu sem náði góðum úrslitum á árinu og er liðið í góðri stöðu í undankeppni fyrir næsta HM ásamt því að vera á leiðinni á lokakeppni EM næsta sumar. Agla María er frábær leikmaður, ávallt kraftmikil og áræðin og ljóst er að atvinnumennska í knattspyrnu er næsta skref hjá Öglu Maríu á knattspyrnuferlinum.
Arnar vann níu íslandsmeistaratitla á árinu 2021. Þetta gerði Arnar í mismunandi greinum allt frá 1500m hlaupi innanhús og upp í heilt maraþon úti. Arnar hefur samtals orðið 45 sinnum íslandsmeistari í langhlaupum á löngum ferli sínum. Arnar sigraði einnig í 800 m hlaupi á Reykjavík International Games 2021. Arnar er fyrirmynd annarra hlaupara á landsvísu og býr yfir mikilli ástríðu fyrir íþrótt sinni. Auk þess að stunda hlaup sjálfur starfar Arnar sem hlaupaþjálfari og fyrirlesari en hann býr yfir yfirgripsmikilli þekkingu og reynslu af hlaupum. Arnar var valinn frjálsíþróttakarl ársins 2021 hjá Breiðabliki jafnframt því að vera útnefndur götuhlaupari ársins hjá Frjálsíþróttasambandi Íslands.
Aron Snær varð Íslandsmeistari í höggleik árinu 2021. Jafn stígandi hefur verið hjá Aroni Snæ undanfarin ár og með sigrinum stendur hann fremstur íslenskra kylfinga á árinu. Hann sigraði á öðru stigamóti GSÍ mótaraðarinnar og varð stigameistari GSÍ í lok tímabils. Erlendis náði hann 5. sæti á EM einstaklinga, sem er besti árangur sem Íslendings. Á Breska meistaramótinu fyrir áhugamenn, einu elsta og sterkasta áhugamannamóti sem völ er á, varð Aron í 11. sæti af 144 keppendum í undankeppni en tapaði fyrir sigurvegara mótsins í fyrstu umferð úrsláttarkeppninnar. Aron Snær er 112. á heimslista áhugamanna sem er það næsthæsta sem íslenskur kylfingur hefur áður náð.
Hulda Clara skrifaði nýjan kafla í afrekssögu GKG þegar hún varð Íslandsmeistari í höggleik kvenna á síðast liðnu sumri. Með sigrinum varð Hulda fyrsti kvenkylfingur GKG til að tryggja sér stærsta titil sem í boði er á Íslandi. Hún lagði þó aðaláherslu á alþjóðleg mót á árinu og hafnaði því í 5. sæti stigalistans hér heima, þrátt fyrir að taka aðeins þátt í þremur mótum af sex. Hulda lék með kvennalandsliðinu á Norður Írlandi þar sem liðið náði 12. sæti af 19 þjóðum. Einnig lék hún á tveimur öðrum sterkum mótum erlendis í sumar, The Women´s Amateur og varð í 17.-32. sæti og EM einstaklinga þar sem hún náði 119. sæti.
Ingvar varð þrefaldur íslandsmeistari á árinu 2021, í götuhjólreiðum, fjallahjólreiðum og maraþonhjólreiðum jafnframt því að verða bikarmeistari í tímatöku. Þá hefur Ingvar náð mögnuðum árangri á erlendri grundu, þá sér í lagi í maraþonfjallahjólreiðum og er í 41. sæti á heimslistanum. Það er langbesti árangur Íslendings í hjólreiðum frá upphafi. Þrátt fyrir að ná góðum árangri þá setur Ingvar alltaf stefnuna enn ofar. Hann náði að fara í sex keppnisferðir á árinu og hefur verið að bæta sig stöðugt í keppni við bestu hjólreiðamenn í heimi. Ingvar var útnefndur hjólreiðamaður ársins áttunda árið í röð hjá Hjólreiðasambandi Íslands á árinu 2021.
Marín Aníta varð Íslandsmeistari í opnum flokki fullorðinna í júlí á nýju Íslandsmeti, 616 stig án þess að tapa stigi, en 616 stig er einnig hæsta skor á öllum landsmeistaramótum fullorðinna á Norðurlöndum á árinu. Marín sló 26 Íslandsmet á árinu, þar af Íslandsmet einstaklinga fimm sinnum í U18, sjö sinnum í U21 og tvisvar í opnum flokki fullorðinna. Marín Aníta varð Norðurlandameistari með miklum yfirburðum í U18 flokki í Ólympískum sveigboga í júlí og hefði skorið einnig dugað til sigurs U21 flokknum. Því er hægt að segja að hún sé efnilegasta stúlkan í Ólympískum sveigboga á Norðurlöndum. Marín Aníta var valin íþróttakona Bogfimisambands Íslands annað árið í röð.
Patrik Viggó er sterkasti langsundsmaður landsins þrátt fyrir að vera aðeins 19 ára gamall. Hann varð Íslandsmeistari í þremur greinum á Íslandsmeistaramótinu í 50 metra laug í apríl, í 200m baksundi, 800m skriðsundi og 1500 metra skriðsundi og fimmfaldur Íslandsmeistari á Íslandsmótinu í 25 metra laug sem fram fór í október, og þá í 200 , 400, 800 og 1500 metra skriðsundi og í 200 metra baksundi. Patrik Viggó er í úrvalshópi landsliðsins í sundi og hann keppti á heimsbikarmótinu í Berlín í október þar sem hann stóð sig mjög vel. Patrik stefnir til USA á næsta ári á skólastyrk og sundstyrk.
Sigurður Örn varð íslandsmeistari í ólympískri þríþraut á Akureyri sem og í hálfum járnmanni sem fram fór á Laugarvatni hjá Þríþrautarsambandi Íslands árið 2021. Sigurður varð jafnframt bikarmeistari karla í þríþraut á árinu. Hann var mjög sigursæll í keppnum ársins og vann allar þríþrautarkeppnir sem haldnar voru á liðnu sumri. Þessar þrautir voru meðal annars Kópavogsþrautin sem er ofursprettþraut, Laugarvatnsþrautin sem er hálfur járnmaður, Norðurljósaþrautin sem er sprettþraut og ofursprettþraut 3N. Sigurður Örn er mikil fyrirmynd í þríþraut og er mjög agaður í sinni íþróttaiðkun. Sigurður Örn var valinn þríþrautarmaður Breiðabliks 2021 og jafnframt var hann útnefndur þríþrautarmaður Þríþrautarsambands Íslands fjórða árið í röð.
Sóley Margrét er ein öflugasta kraftlyftingakona sem Ísland hefur alið. Hún varð Íslandsmeistari í réttstöðulyftu í +84 kg fl. með 205 kg., Ásamt því setti Sóley fjölda Íslandsmeta í kraftlyftingum. Sóley var í landsliði Íslands í kraftlyftingum og tók þátt á þremur alþjóðamótum og sýndi þar árangur á heimsmælikvarða. Á Reykjavík International Games í klassískum kraftlyftingum sem haldið var í janúar vann hún bronsverðlaun. Sóley keppti á Heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum í Noregi þar sem hún náði 5. sæti í sterkum og jöfnum +84 fl. kvenna með 630 kg í samanlögðum árangri. Sóley er öflugur íþróttamaður og leggur sig alla fram og er nú komin í heimsklassa í opnum flokki.
Tinna Sif varð Evrópumeistari í hópfimleikum kvenna með íslenska landsliðinu nú í desember 2021. Tinna Sif var þar mikilvægur hlekkur í úrslitakeppninni er hún skilaði flottum umferðum á dýnustökki og var með frábærar gólfæfingar. Hún er uppalin Gerplukona sem hóf ferilinn í áhaldafimleikum og náði að vinna til fjölda Íslands- og bikarmeistaratitla í þeirri grein. Þegar hún skipti yfir í hópfimleikana var hún fljót að tileinka sér hópfimleikagreinarnar, á dýnu og trampólíni og ekki síst í gólfæfingum. Hún varð í 2. sæti á Íslandsmóti í hópfimleikum með liði Gerplu. Þar skilaði hún að meðaltali fjórum umferðum og var lykilmanneskja í æfingum á gólfi og var valin í íslenska landsliðið
Valgarð er fastamaður í landsliði Íslands í áhaldafimleikum karla. Hann varð íslandsmeistari í fjölþraut í áhaldafimleikum og á tvíslá ásamt því að verða bikarmeistari með Gerplu á árinu. Hann tók þátt í heimsmeistaramótinu í Japan október og hafnaði í 36.sæti í fjölþraut. Á Norður-Evrópumóti í Wales í nóvember 2021 náði hann 9.sæti í fjölþraut og 4.sæti á tvíslá. Hann var efstur í fjölþraut á Evrópumóti í Sviss í apríl þegar hann fótbrotnar og varð að hætta keppni. Valgarð stefnir á Ólympíuleikana í París 2024. Hann er metnaðarfullur og góð fyrirmynd og hefur sýnt hvað þrautseigja skiptir miklu máli í íþróttum.