- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Kópavogsbær er sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu sem liggur sunnan við Reykjavík og norðan við Garðabæ og á jafnframt landsvæði á Sandskeiðum og Húsfellsbruna. Bærinn dregur nafn sitt af voginum sunnan við Kársnes. Kópavogur er fjölmennastur þeirra bæja sem liggja í kringum Reykjavík og er jafnframt næstfjölmennasta sveitarfélag á Íslandi, með 38.332 íbúa í lok árs árs 2021 samkvæmt Hagstofu Íslands.
Höfuðstöðvar Kópavogsbæjar eru á Digranesvegi 1. Samfélagið í Kópavogi einkennist af ungum aldri bæjarins, staðsetningu hans og náttúru svæðisins. Í Kópavogi er mikið um verslun og þjónustu, sérstaklega í Smáranum og við Smiðjuveg. Nálægð bæjarins við höfuðborgina og ungur aldur byggðarinnar setur svip sinn á samfélagið í Kópavogi.
Í Kópavogi eru tvær stórar íþróttamiðstöðvar, tvær sundlaugar og fjölmargir almenningsgarðar og útivistarsvæði, svo sem í Kópavogsdal, Fossvogsdal og við Elliðavatn. Mikill fjöldi barna á leikskólaaldri í Kópavogi taka þátt í öflugu leikskólastarfi í þeim leikskólum sem reknir eru í sveitarfélaginu en þeir eru alls tuttugu og einn. Kópavogsbær rekur einnig níu öfluga grunnskóla. Menntaskólinn í Kópavogi er eini framhaldsskólinn í Kópavogi.
Ármann Kr. Ólafsson er bæjarstjóri Kópavogs. Hann hefur starfað sem bæjarstjóri frá árinu 2012. Bæjarstjórn Kópavogs er skipuð 11 bæjarfulltrúum með fjölbreyttan bakgrunn en þeir eru kosnir hlutfallskosningu til fjögurra ára í senn. Bæjarstjórn kýs síðan bæjarstjóra og skipar í ráð og nefndir bæjarins.
Bæjarstjórn Kópavogs í árslok 2021 er skipuð ellefu fulltrúum úr fimm framboðum, en meirihlutasamstarf er með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokki. Þessi meirihluti hefur verið starfandi frá árinu 2018 þegar síðast var kosið til bæjarstjórnar. Forseti bæjarstjórnar er Margrét Friðriksdóttir, Sjálfstæðisflokki, bæjarstjóri Kópavogs er Ármann Kr. Ólafsson, Sjálfstæðisflokki, og formaður bæjarráðs er Birkir Jón Jónsson úr Framsóknarflokki.
Í bæjarstjórn Kópavogs sitja við útgáfu þessarar skýrslu Ármann Kr. Ólafsson, Bergljót Kristinsdóttir, Birkir Jón Jónsson, Einar Örn Þorvarðarson, Hjördís Ýr Johnson, Jón Finnbogason, Karen Elísabet Halldórsdóttir, Margrét Friðriksdóttir, Pétur Hrafn Sigurðsson, Sigurbjörg Erla Egilsdóttir og Theódóra Sigurlaug Þorsteinsdóttir.
Sveitarfélög eru sjálfstæð stjórnvöld sem er stjórnað af lýðræðislega kjörnum sveitarstjórnum í umboði íbúa sveitarfélagsins. Kveðið er á um sjálfsstjórn sveitarfélaga í stjórnarskrá Íslands þar sem fram kemur að sveitarfélög skulu sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða. Sveitarfélög sinna þeim verkefnum sem þeim eru falin lögum samkvæmt, m.a. varðandi fræðslu- og uppeldismál, félagsþjónustu, æskulýðs- og íþróttamál, menningarmál, hreinlætismál og umhverfismál. Um starfsemi og stjórnarhætti sveitarfélaga gilda sveitarstjórnarlög nr. 138/2011. Þá lýtur sveitarfélagið hinum ýmsu lögum sem gilda um starfsemi þess, s.s. stjórnsýslulögum, lögum um opinber innkaup, lögum um opinber skjalasöfn og lögum um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna svo fátt eitt sé nefnt.
Bæjarstjórn fer með stjórn sveitarfélagsins samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, annarra laga og samþykktar um stjórn sveitarfélags. Bæjarstjórn hefur ákvörðunarvald um framkvæmd verkefna sveitarfélagsins, nýtingu tekjustofna, lántökur og ráðstöfun eigna. Þá fer bæjarstjórn með yfirstjórn stofnana og fyrirtækja á vegum bæjarins að svo miklu leyti sem hún hefur ekki falið öðrum slíka yfirstjórn.
Bæjarstjórn kýs fulltrúa í nefndir eftir því sem fyrir er mælt í lögum og samþykkt um stjórn sveitarfélags. Slíkar nefndir teljast fastanefndir bæjarstjórnar sem eru falin ólík verksvið og málaflokka. Kjörtímabil fastanefnda er hið sama og bæjarstjórnar, nema annað leiði af lögum eða bæjarmálasamþykkt. Að loknum bæjarstjórnarkosningum halda fastanefndir þó umboði sínu þar til nýkjörin bæjarstjórn hefur kjörið nýja nefnd í þeirra stað.
Starfsemi Kópavogsbæjar er skipt í fimm svið: menntasvið, umhverfissvið, velferðarsvið, fjármálasvið og stjórnsýslusvið. Fjármálasvið og stjórnsýslusvið starfa þvert á önnur svið bæjarins. Á árinu 2021 var unnið að því að móta stefnur allra sviða og þær birtar á heimasíðu sveitarfélagsins. Það er liður í stefnumiðaðri fjárhagsáætlunargerð þar sem aðgerðaáætlanir sviða taka mið af stefnunum og segja til um hvernig ætlunin er að koma stefnu í framkvæmd. Aðgerðaáætlanir fela í sér mælanleg markmið, mælikvarða og aðgerðir og eru innlegg í vinnu við fjárhagsáætlunargerð sveitarfélagsins. Stefnurnar byggja allar á heildarstefnu Kópavogsbæjar sem samanstendur af hlutverki, framtíðarsýn, gildum og yfirmarkmiðum sem eru fengin úr Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Bæjarráð fer ásamt bæjarstjóra með framkvæmdastjórn og fjármálastjórn bæjarfélagsins að því leyti sem þau mál eru ekki öðrum falin. Bæjarráð hefur eftirlit með stjórnsýslu sveitarfélagsins og fjármálastjórn þess, semur drög að fjárhagsáætlun og viðaukum við hana og leggur fyrir bæjarstjórn. Þá sér bæjarráð um að ársreikningar sveitarfélagsins séu samdir reglum samkvæmt og lagðir fyrir bæjarstjórn til meðferðar og afgreiðslu. Meðan bæjarstjórn er í sumarleyfi fer bæjarráð með sömu valdheimildir og bæjarstjórn hefur ella.
Kópavogsbær tekur þátt í rekstri byggðasamlaga um Strætó og Sorpu. Strætó bs. er byggðasamlag í eigu Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar, Hafnarfjarðarbæjar, Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarneskaupstaðar, og rekur fyrirtækið strætisvagnakerfi sem nær til allra þessara sveitarfélaga og Akraness að auki. Eignarhlutföll hvers sveitafélags er í samræmi við íbúafjölda þess.
SORPA bs. er byggðasamlag í eigu sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu; Reykjavíkur, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Seltjarnarness, Mosfellsbæjar og Garðabæjar. Í stofnsamningi SORPU kemur fram að tilgangur byggðasamlagsins er að annast meðhöndlun úrgangs, sbr. lög nr. 55/2003, fyrir sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, sem öll eru stofnaðilar að því.
Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, skammstafað SSH, eru sameiginleg hagsmunasamtök þeirra sjö sveitarfélaga sem mynda höfuðborgarsvæðið. Núverandi aðilar að samtökunum og eigendur þeirra eru Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarkaupstaður, Garðabær, Seltjarnarnes-kaupstaður, Mosfellsbær og Kjósarhreppur.
Borgarlínan er afrakstur samvinnu innan SSH. Um er að ræða tímamótasamkomulag um metnaðarfulla uppbyggingu á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu til fimmtán ára. Einnig er unnið að samræmingu sorphirðu á höfuðborgarsvæðinu.
Sveitarstjórnir starfa eftir siðareglum sem settar eru á grundvelli 29. gr. sveitarstjórnarlaga og staðfestar eru af ráðherra. Kópavogsbær var fyrst sveitarfélaga á Íslandi til þess að setja sér siðareglur árið 2009. Gildandi siðareglur eru frá 27. janúar 2015 og eru aðgengilegar á heimasíðu sveitarfélagsins. Markmið reglnanna er eins og fram kemur í fyrstu grein þeirra að „skilgreina það hátterni sem ætlast er til að kjörnir fulltrúar sýni af sér við störf sín fyrir hönd Kópavogsbæjar og upplýsa íbúa um þær kröfur sem gerðar eru til þeirra." Þar er meðal annars að finna ákvæði um hagsmunaárekstra kjörinna fulltrúa, þ.e. þegar kjörinn fulltrúi hefur beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta í máli sem tekin eru fyrir í nefndum eða bæjarstjórn eða bæjarráði. Í þeim kemur einnig fram að kjörnir fulltrúar megi ekki beita réttindum eða aðstöðu sem fylgir embætti þeirra í þágu einkahagsmuna eða annarra í því skyni að geta notið af því hagsbóta. Sjá nánar.
Kópavogsbær leggur mikla áherslu á að uppfylla í hvívetna þá persónuverndarlöggjöf sem er í gildi hverju sinni. Kópavogsbær hefur sett sér persónuverndarstefnu og leitast við að tryggja að öll vinnsla persónuupplýsinga fari fram í samræmi við ákvæði persónuverndarlaga. Nánar um persónuvernd í Kópavogsbæ.
Kópavogsbær er annað stærsta sveitarfélag landsins og stór atvinnurekandi. Starfsfólk Kópavogsbæjar 2022 eru tæplega þrjú þúsund, og þar af eru 78% konur og 22% karlar. Stærstu starfsmannahópar Kópavogsbæjar eru starfsfólk í grunn- og leikskólum og velferðarþjónustu.
Á sumrin bætist stór hópur ungmenna við starfsmannahópinn en þá tekur til starfa Vinnuskóli Kópavogs sem er fyrir ungmenni yngri en 18 ára. Auk þess kemur til starfa stór hópur af ungmennum 18 ára og eldri sem fara í margvísleg sumarstörf fyrir bæinn. Stærsta fagsvið Kópavogsbæjar er menntasvið en þar starfa um 69% alls starfsfólks. Annað stærst er velferðarsvið en þar starfa 24% starfsfólks.
Stærsti aldurshópur starfsfólks er á aldrinum 25 – 44 ára eða alls 42,4%. Hópurinn 17- 24 ára og 45-54 eru nokkuð jafn eða um 19% hvor.
Konur eru í meirihluta allra aldurshópa, langflestar eða yfir 80% þó í aldurshópi 30-50 ára.
Stefnur Kópavogs á sviði mannauðsmála hafa það að markmiði að tryggja gott og heilbrigt starfsumhverfi, stuðla að heilsueflingu á starfsstöðum bæjarins, og samræma starf- og fjölskyldulíf. Einnig að tryggja starfsfólki góð starfskilyrði og möguleika á að vaxa og dafna í starfi.
Markmið Kópavogsbæjar er að vera vinnustaður þar sem öll kyn hafi jöfn tækifæri í starfi, starfsemin taki mið af jafnréttisáætlun sveitarfélagsins og enginn óútskýrður launamunur sé til staðar. Sjá nánar jafnlaunastefnu.
Með vísun í 19.gr jafnréttislaga er kveðið á um að öll kyn fái greidd jöfn laun og fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Jafnréttissjónarmið skulu metin til jafns við önnur sjónarmið við ráðningar t.d. að auglýsa öll störf óháð kyni og stuðla að jafnari kynjaskiptingu innan starfsgreina. Starfsmenn og stjórnendur bera sameiginlega ábyrgð á að skapa jákvæða vinnustaðamenningu þar sem gagnkvæm virðing, umhyggja og góð líðan er í fyrirrúmi.
Jafnréttis- og mannréttindastefna Kópavogs er byggð á jafnræðisreglu Stjórnarskrárinnar og miðar að því að allir fái notið mannréttinda án tillits til kyns, uppruna, þjóðernis, litarháttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, kynferðis, kynhneigðar, aldurs, efnahags, ætternis, fötlunar, heilsufars eða annarrar stöðu. Kópavogsbær hefur einsett sér að vera í fararbroddi í mannréttindamálum.
Í starfsmannastefnu Kópavogsbæjar kemur fram að markmið bæjarins er að rækta sem best þann mannauð sem í starfsmönnum hans býr.
Kópavogsbær ætlast til þess að hver starfsmaður fái notið hæfileika sinna og að lögð verði áhersla á faglega þróun starfsmanna með það fyrir augum að þeir geti betur sinnt starfi sínu, sjálfum sér og sveitarfélaginu til hagsbóta. Kópavogsbær leggur rækt við menntunarmál starfsfólks svo hagnýt og fræðileg þekking sé ætíð í samræmi við kröfur tímans.
Áhersla er lögð á að starfsumhverfi starfsfólks sé með sem allra bestum hætti. Öryggisstefna lýsir því markmiði Kópavogsbæjar að vera slysalaus vinnustaður. Starfsemi bæjarfélagsins gerir ráð fyrir að öllum kröfum sé fylgt eftir samkvæmt lögum og reglugerðum og að sífellt sé unnið að endurbótum sem stuðla að auknu öryggi allra í Kópavogsbæ. Forvarnir, fræðsla og góð vinnubrögð skapa öruggt umhverfi og fyrirbyggja óhöpp og slys. Í öryggisstefnu bæjarins kemur fram að á öllum vinnustöðum séu til staðar virkar öryggisnefndir og starfsmenn bæjarins vinni eftir samþykkt um öryggismál.
Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti árið 2018 að innleiða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í yfirstefnu Kópavogsbæjar. Kópavogur var þar með fyrsta sveitarfélag á Íslandi til þess að innleiða Heimsmarkmiðin með formlegum hætti. Í kjölfarið kom Kópavogsbær sér upp gagnasafni sem samanstendur af mælaborðum og árangursmælikvörðum sem munu nýtast við stefnumótun, stefnumarkandi ákvarðanatöku og ráðstöfun fjármuna. Þannig er innleiðing Kópavogs á Heimsmarkmiðunum gagnadrifin.
Heimsmarkmiðavísitölu Kópavogs er ætlað að gefa sýn á stöðu innleiðingar Heimsmarkmiðanna sem lið í innleiðingu á heildarstefnu Kópavogsbæjar. Uppbygging vísitölunnar samanstendur af 15 víddum þar sem hver og ein vídd svarar til eins Heimsmarkmiðs. Þessar 15 víddir spanna 36 þætti sem bæjarstjórn Kópavogs hefur valið sér sem yfirmarkmið en þau eiga sér jafnframt samsvörun í undirmarkmiðum Heimsmarkmiðanna (e. targets).
Vísitalan fær gildi á bilinu 0-100 sem segir til um hversu nálægt Kópavogsbær er að ná Heimsmarkmiðunum. Jafnframt fær hver vídd, hver þáttur og hver mælikvarði gildi á bilinu 0-100. Með því má auðveldlega skoða hvar vantar uppá að markmiðunum sé náð og hvort, og hversu hratt sveitarfélagið sé að nálgast þau. Mögulegt er að skoða nánar þá þætti sem liggja á bak við mælingarnar. Vísitalan er vistuð í upplýsingakerfi sem upplýsingatæknideild Kópavogs hefur þróað sérstaklega síðustu ár og ber nafnið Nightingale.
Stjórnunarkerfi gæða hjá Kópavogsbæ byggir á ISO 9001 gæðastaðlinum og á skilgreindri gæðastefnu bæjarstjórnar og samþykktum hverju sinni. Gæðastefnan er rýnd og samþykkt árlega af bæjarstjórn og stjórnunarkerfið er einnig rýnt og alþjóðlega vottað árlega samkvæmt ISO 9001 staðlinum af viðurkenndum ytri vottunaraðila bæjarfélagsins.
Eins og segir í gæðastefnu Kópavogsbæjar þá er tilgangurinn með öflugu stjórnunarkerfi gæða að vera í fararbroddi í þjónustu við íbúa bæjarins og aðra þá sem þurfa að nýta þjónustu hans. Með stjórnunarkerfi gæða vill Kópavogsbær einnig koma á gegnsæi í stjórnsýslu sem tryggir öllum sama rétt til þjónustu og að viðskiptavinir með sömu þarfir fái sömu afgreiðslu.
Skjalastefna Kópavogsbæjar er gerð með hliðsjón af heildarstefnu Kópavogsbæjar. Tilgangur stefnunnar er að uppfylla kröfur sem gerðar eru til skjalastjórnar samkvæmt lögum og reglugerðum og að tryggja kerfisbundna stjórnun, örugga meðferð og varðveislu opinberra skjala.
Kópavogsbær hefur einnig innleitt mælingar um starfsemi og þjónustu sveitarfélagsins samkvæmt sjálfbærni-, lífskjara- og þjónustustaðlinum ISO37120 og snjallborgarstaðlinum ISO37122. Kópavogur hefur fengið platínuvottun tvö ár í röð fyrir ISO37120 og var í hópi fyrstu 10 sveitarfélaga heims til að verða ISO37122 vottað. Markmiðið með vottuninni er tvíþætt; annars vegar að fá sambærilegar mælingar á milli sveitarfélaga til að fylgjast með árangri og skilvirkni í starfsemi bæjarins og hins vegar að fá mælikvarða sem nýst geta í Kópavogi við mótun og innleiðingu stefnu bæjarins sem felur í sér innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.
Mælaborð barna var þróunarverkefni unnið í samstarfi við Unicef og félagsmálaráðuneytið og er því ætlað að tryggja betri yfirsýn yfir velferð barna á Íslandi. Verkefnið fékk alþjóðleg verðlaun Unicef fyrir framúrskarandi lausnir og nýsköpun í nærumhverfi barna. Haldið er utan um vísitölurnar og mælaborðið í hugbúnaðinum Nightingale sem upplýsingatæknideild Kópavogs hefur þróað.
Frammistaða Kópavogsbæjar er vel yfir meðaltali Efnahags- og framfarastofnunarinnar eins og fram kom í skýrslu OECD sem gefin var út haustið 2020. Skýrslan var gefin út í tilefni af þátttöku Kópavogsbæjar í alþjóðlegu verkefni OECD um innleiðingu á Heimsmarkmiðunum og þróun mælikvarða sem tengjast innleiðingunni. Kópavogur hefur notið jákvæðra vaxtaráhrifa á suðvesturhorni landsins og er góður og öruggur staður að búa á þegar horft er til góðrar frammistöðu í mörgum undirmarkmiðum Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna þ.á.m. sláandi lágt atvinnuleysi á mælikvarða OECD, engin sárafátækt, auk þess sem loftmengun og dauðaslys í umferðinni eru lág. Á móti kemur að framgangi sumra undirmarkmiða í umhverfismálum er hamlað af mikilli bílanotkun og magni úrgangs á mann.
OECD hrósaði Kópavogi sérstaklega fyrir þá vinnu sem sveitarfélagið hefur lagt í þróun á Nightingale hugbúnaðinum til þess að halda utan um og mæla árangur við innleiðingu Heimsmarkmiðanna. Með þessari nálgun á stefnuna getur Kópavogur horft heildstætt á innleiðingu stefnunnar.
Þeir lögðu til ýmsar leiðir til að takast á við áskoranir til dæmis samstarf við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um samgöngur og úrgangsmál. Einnig var lagt til að styrkja samband við hagsmunaaðila. Þá var bent á að í Kópavogi eru bílar aðal samgöngumáti fólks á leið til vinnu. Kópavogur hafi mótað heildarstefnu til að tryggja þróun sjálfbærni í sveitarfélaginu og ná Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem styðst við mælingar til þess að átta sig á og fylgjast með framgangi á helstu styrk- og veikleikum, auk þess að horfa sérstaklega til þátta er varða börn og ungmenni. Sú aðferðafræði sem Kópavogur hafi valið við stefnumiðaða fjárhagsáætlunargerð sé gott dæmi um leiðir til að tryggja skilvirkni í opinberri stjórnsýslu og gegnsæi.
Að mati OECD eru lífsgæði íbúa Kópavogs góð. Frammistaða Kópavogs er yfir OECD meðaltali hvað varðar innleiðingu margra Heimsmarkmiðanna, þá sérstaklega þegar kemur að mælingum á HM1 Engin fátækt, HM8 Góð atvinna og hagvöxtur, HM3 Heilsa og vellíðan, HM4 Menntun fyrir alla og HM11 Sjálfbærar borgir og samfélög. Sárafátækt mælist ekki á Íslandi, hlutfall atvinnulausra og dánartíðni barna er einnig sláandi lágt í samanburði OECD. Auk þess er hlutfall íbúa Kópavogs með háskólamenntun yfir meðaltali OECD og loftmengun er lægri en á öllum öðrum OECD svæðum. Ennfremur kemur 100% af rafmagnsnotkun sveitarfélagsins frá endurnýjanlegum orkugjöfum.
Gagnadrifin nálgun sveitarfélagsins við innleiðingu Heimsmarkmiðanna felur í sér viðleitni til að þróa staðbundin mælaborð, vísitölur og gagnasöfn, s.s. Mælaborð barna og sjálfbærni, lífskjara- og þjónustustaðalinn ISO37120, sem munu nýtast við mótun stefna og forgangsröðun. Þróað hefur verið upplýsinga- og stjórnendakerfið Nightingale til þess að fylgjast með framgangi við innleiðingu Heimsmarkmiðanna, þróun mælaborða, mælinga og vísitalna.
Stefnumiðuð fjárhagsáætlunargerð fór í fyrsta sinn fram á árinu 2021 þar sem gerðar voru aðgerðaáætlanir sviða sem tóku mið af stefnum sviða, heildarstefnunni og öðrum stefnum og áætlunum, og segja til um hvernig ætlunin er að koma stefnu í framkvæmd. Aðgerðaáætlanir fela í sér mælanleg markmið, mælikvarða og aðgerðir og eru innlegg í vinnu við fjárhagsáætlunargerð. Eftirfylgni með aðgerðaáætlunum sviða fer fram í stefnukerfi þar sem framgangur aðgerða og verkliða þeim tengdum eru skráð og hægt er að fylgjast með framvindu mælanlegra markmiða.
OECD benti á að mikilvægt sé fyrir Kópavogsbæ að virkja með ríkari hætti hagsmunaaðila í Kópavogi að innleiðingarferli Heimsmarkmiðanna. Þannig náist meiri árangur. Liður í því var opnun samráðsgáttar á heimasíðu Kópavogsbæjar fyrir starfsmenn annars vegar og íbúa Kópavogs hins vegar vegna innleiðingar Heimsmarkmiðanna. Markmiðið með opnun samráðsgáttarinnar var að kynna Heimsmarkmiðin og stefnu Kópavogsbæjar, virkja íbúa og starfsmenn til þátttöku í innleiðingu Heimsmarkmiðanna og gefa þeim tækifæri til að koma á framfæri ábendingum um áherslur við innleiðingu á hverju markmiði.
Í skýrslu OECD um innleiðingu Heimsmarkmiðanna sem gefin var út haustið 2020 var lagt til að Kópavogur setti af stað aðgerðaplan í sjö liðum.
Nota Heimsmarkmiðin sem hagnýta leið til þess að bregðast við mikilvægum áskorunum í sveitarfélaginu sem ná yfir sveitarfélagamörk
Með langtímasjónarmið að leiðarljósi þá verður aðalskipulag Kópavogs að gera ráð fyrir sjálfbærum og aðgengilegum samgöngumáta á viðráðanlegu verði og öðrum samgöngumáta en notkun einkabíla. Í endurskoðuðu aðalskipulagi þá er horft til þessa með samstarfi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um Borgarlínuverkefnið. Kópavogur verði líka að búa til tækifæri til minnkunar á úrgangi og endurvinnslu á Stór-Reykjavíkursvæðinu og nálægum bæjum (e. Functional Urban Area, FUA).
Nota Heimsmarkmiðin sem verkfæri til hvatningar starfsfólks í opinberu starfi og laða að nýtt starfsfólk svo sem hvað varðar leikskóla og félagsþjónustu
Með því að tengja störf hjá sveitarfélaginu við háleitari markmið þá getur það hjálpað til við hvatningu starfsfólks í starfi, ásamt því að ná að ráða tilgangsdrifið fólk í þau störf sem oft eru lægra launuð og auka þannig gæði menntunar og félagsþjónustu. Starfsmenn stofnana eru mjög virkir í að nota Heimsmarkmiðin í sínu daglega umhverfi.
Búa til verkefnahóp með ríkinu til þess að styrkja lóðrétta samhæfingu við innleiðingu Heimsmarkmiðanna
Með því að bæta samhæfingu á milli mismunandi stiga í opinberri stjórnsýslu og með því að nýta til fulls þær aðferðir sem til eru þá er hægt að koma í veg fyrir tvítekningar og endurteknar aðgerðir til stuðnings innleiðingu Heimsmarkmiðanna. Aðalmarkmið hópsins væri að hafa sameiginlega landsáætlun fyrir Heimsmarkmiðin sem hvert stig opinberrar stjórnsýslu ætti að vinna með í samræmi við skyldur og hæfni. Hópurinn ætti að byggja á óformlegu samtali sem átt hefur sér stað á meðal lykil hagsmunaaðila í opinberri stjórnsýslu og á samráðsvettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hópurinn gæti verið samsettur af samgöngu- og sveitastjórnarráðuneyti, verkefnahópi forsætisráðuneytis um Heimsmarkmiðin, Hagstofunni og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Slíkur samráðshópur er nú starfandi á vegum forsætisráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga um Heimsmarkmiðin. Verkefnið er stuðningsverkefni fyrir sveitarfélög um innleiðingu Heimsmarkmiðanna og felur meðal annars í sér verkfærakistu um innleiðingu Heimsmarkmiðanna.
Nota Heimsmarkmiðin sem leið til þess að forgangsraða fjármunum við fjárhagsáætlunargerð í gegnum stefnumarkandi áætlanir sem lið í innleiðingu heildarstefnunnar
Heimsmarkmiðin geta hjálpað til við forgangsröðun fjármuna við fjárhagsáætlunargerð mismunandi sviða í starfsemi Kópavogs sem heildstæð og samþætt framkvæmdaáætlun til ársins 2030. Sérstaklega þegar innleiðingu er framhaldið í gegnum aðgerðaáætlanir sviða og tengdar aðgerðaáætlanir þar sem búið er að tengja við undirmarkmið Heimsmarkmiðanna, í stað þess að fjármagna afmarkaðar aðgerðir hvers sviðs. Þetta hefur verið gert á árinu 2021.
Nota upplýsinga- og stjórnendakerfið Nightingale sem tæki við stefnumótunarumræðu og áætlanagerð
Hægt er að nýta upplýsingar úr Nightingale kerfinu til þess að fá fram umræðu hagsmunaaðila um lykil styrkleika og veikleika sveitafélagsins og draga fram jákvæð og neikvæð áhrif á milli Heimsmarkmiðanna til þess að tryggja að stefna sé í samræmi við yfirmarkmið. Áframhaldandi þróun á kerfinu er í vinnslu.
Samþætta tæknilegu ofansæknu (e. top-down) leiðina sem valin var við forgangsröðun Heimsmarkmiðanna við neðansækna (e. bottom up) aðferð sem byggist á þátttöku hagsmunaaðila í innleiðingarferli heildarstefnu Kópavogs
Aðkoma nefnda og ráða að stefnumörkunarferlinu er skref í áttina að því að tryggja þátttöku auk þess að tengja stjórnendur og kjörna bæjarfulltrúa í mótun innleiðingarferlis stefnunnar. Notkun netsamráðsgátta sem voru opnaðar í september 2019 eru líka merki um aukna viðleitni til þess að auka eignarhald á Heimsmarkmiðunum og virkja stuðning á innleiðingunni hjá hagsmunaaðilum. Samráð hefur verið haft við leikskóla, skóla, íþróttafélög, fyrirtæki, starfsmenn og kjörna fulltrúa um ýmis verkefni er tengjast Heimsmarkmiðunum. Ritun skýrslu þessarar er leið til þess að veita yfirsýn um öll helstu sjálfbærniverkefni sveitarfélagsins.
Nota Heimsmarkmiðin sem tæki til þess að ýta við einkageiranum og virkja hann til þess að innleiða Heimsmarkmiðin
Opinber innkaup og samstarf opinberra aðila og einkaaðila geta hjálpað við að móta framlag einkaaðila til innleiðingar Heimsmarkmiðanna og hvatt til framsækinna hugmynda til að leysa Heimsmarkmiðatengdar áskoranir. Fyrstu skref Markaðsstofu Kópavogs um gerð viljayfirlýsinga við fyrirtæki í Kópavogi um innleiðingu Heimsmarkmiðanna eru jákvæð upphafsskref. Festa, miðstöð um samfélagsábyrgð, gæti stutt slíkt frumkvæði og þannig tengt fyrirtæki í Kópavogi við fleiri fyrirtæki utan Kópavogs. Fyrirtæki geta líka lært af hvort öðru og komið með lausnir að lykilþáttum hjá Kópavogi s.s. að minnka bílanotkun einstaklinga með því að hvetja til deilibíla eða deiliferða á meðal starfsmanna. Stór sem smá fyrirtæki í Kópavogi hafa tekið sjálfbærniáskoruninni af krafti.
Takk fyrir!
Ábending þín er móttekin