- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti árið 2018 að innleiða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í heildarstefnu Kópavogsbæjar. Kópavogur var þar með fyrsta sveitarfélag á Íslandi til þess að innleiða Heimsmarkmiðin með formlegum hætti. Stefna Kópavogsbæjar samanstendur af hlutverki, framtíðarsýn, gildum og yfirmarkmiðum sem eru fengin úr Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Hlutverk Kópavogsbæjar er að tryggja lífsgæði íbúanna með góðri og fjölbreyttri þjónustu. Grunnreglur bæjarfélagsins eru skýrar og miða að því að allir hafi tækifæri til áhrifa. Kópavogsbær leggur áherslu á gott mannlíf, skilvirkan og ábyrgan rekstur ásamt öflugu atvinnulífi.
Í framtíðarsýn Kópavogs kemur m.a. fram að Kópavogur sé bær þar sem veitt er framúrskarandi þjónusta og fólk og fyrirtæki sækjast eftir að búa í og starfa. Kópavogsbær er borgarsamfélag í nánum tengslum við náttúruna enda sýnir bærinn umhverfislega og samfélagslega ábyrgð. Í Kópavogi eru skólar í fremstu röð og vel hugað að líðan, heilsu og velferð íbúa á öllum aldri. UMHYGGJA - FRAMSÆKNI - VIRÐING – HEIÐARLEIKI eru gildi Kópavogsbæjar. Forgangsmarkmið bæjarstjórnar Kópavogs, og þar með yfirmarkmið í heildarstefnu sveitarfélagsins eru þrjátíu og sex talsins.
Heimsmarkmiðin eru hluti af heildarstefnu bæjarins en markmið hennar er að tryggja lífsgæði íbúa Kópavogsbæjar og taka um leið þátt í átaki þjóða heims um innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Kjörnir fulltrúar, nefndir/ráð, starfsfólk og íbúar hafa komið að innleiðingunni og hafa mörg verkefni sem tengjast Heimsmarkmiðunum litið dagsins ljós.
Stjórnsýsla Kópavogsbæjar skiptist í fimm svið; menntasvið, umhverfissvið, velferðarsvið, fjármálasvið og stjórnsýslusvið. Hvert svið hefur sett stefnu sem byggir á heildarstefnu Kópavogsbæjar og yfirmarkmiðum úr Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Mótun stefna sviðanna er liður í stefnumiðaðri fjárhagsáætlunargerð og fylgja stefnunum tengdar aðgerðaráætlanir sem fjallað er um árlega við fjárhagsáætlunargerð. Stefnurnar eru unnar af sviðsstjórum, starfsmönnum sviðanna, nefndum og ráðum, kjörnum fulltrúum og með aðkomu íbúa.
Stjórnsýslusvið Kópavogs ber ábyrgð á virkni stjórnkerfis og miðlægrar þjónustu Kópavogsbæjar samkvæmt þeim reglum sem bæjarstjórn setur. Markmið sviðsins er að starfsemi þess sé árangursdrifin og framsækin og grundvallist á sérfræðiþekkingu og þverfaglegu samstarfi.
Stefnan byggir á þremur stefnuáherslum. Í hverri stefnuáherslu eru tilgreind þrjú meginmarkmið.
Umhverfissvið Kópavogsbæjar sér um skipulags- og byggingarmál í Kópavogi. Einnig sér sviðið um framkvæmdir, viðhald mannvirkja og landsvæða bæjarins auk reksturs þeirra.
Stefna umhverfissviðs felur í sér sex málaflokka og stefnuáherslur sem starfsemi sviðsins og deilda þess byggist á. Í hverri stefnuáherslu eru tilgreind meginmarkmið.
Menntasvið annast framkvæmd menntunar í Kópavogi. Undir sviðið fellur starfsemi leik- og grunnskóla, tónlistarskóla, frístundastarf og íþróttastarf. Hlutverk sviðsins er að vinna að menntun, velferð, forvörnum og heilbrigði barna og íbúa á ólíku aldursbili og tryggja þeim hvetjandi, skapandi og nærandi umhverfi til náms, óháð því hvort það fer fram í skóla eða í gegnum frístunda- og íþróttastarf.
Menntastefnan byggir á fimm stefnuáherslum. Í hverri stefnuáherslu eru tilgreind meginmarkmið.
Með nýrri stefnu fjármálasviðs Kópavogsbæjar er lögð áhersla á að fjármálasvið sjái til þess að ávallt verði fyrirliggjandi réttar fjárhagslegar og stjórnunarlegar upplýsingar til undirbúnings ákvarðanatöku hjá Kópavogsbæ. Stefna fjármálasviðs felur í sér þrjár stefnuáherslur sem starfsemi sviðsins og deilda þess byggir á. Undir hverri stefnuáherslu eru meginmarkmið.
Velferðarsvið Kópavogs annast framkvæmd félagslegrar þjónustu Kópavogsbæjar og er hlutverk sviðsins að veita árangursríka þjónustu sem mætir fjölbreyttum þörfum einstaklinga og fjölskyldna fyrir stuðning.
Stefna velferðarsviðs felur í sér fimm málaflokka sem byggja á grunnstoðum laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og sérlaga þar um. Í hverjum málaflokki eru tilgreindar stefnuáherslur og meginmarkmið.
Kjarnmikið menningarstarf fer fram víða í Kópavogi aðallega í Bókasafninu, Gerðarsafni, Náttúrufræðistofu og Salnum og í góðu samstarfi við svið og stofnanir bæjarins. Auk þess starfrækir bærinn Skólahljómsveit Kópavogs og fjármagnar starfsemi ýmsa grasrótarhópa innan menningargeirans. Tilgangur menningarstarfs Kópavogsbæjar er að auka lífsgæði Kópavogsbúa á öllum aldri með framboði á fjölbreyttu menningar-, lista- og vísindastarfi auk fræðslu og miðlunar á því. Öflugt og fjölbreytt starf í menningu og listum styrkir bæjarbrag, eykur víðsýni, örvar samfélagið í heild og þar með efnahagslega framþróun þess. Síðast en ekki síst ýtir það undir jákvæða ímynd bæjarins og laðar að nýja íbúa og um leið innlenda jafnt sem erlenda gesti. Skoða menningarstefnu.
Menningarhúsin í Kópavogi höfðu frumkvæði að alþjóðlegu samstarfsverkefni, Vatnsdropanum. Eitt meginstef Vatnsdropans er að tengja saman boðskap og gildi Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun við sígild skáldverk barnabókahöfunda á borð við Tove Jansson, Astrid Lindgren og H.C. Andersen. Höfunda sem hafa kennt lesendum að bera virðingu fyrir náttúrunni, gefið innsýn í heim þeirra sem minna mega sín og hvernig má koma þeim til hjálpar. Verkefnið vinnur aðallega að markmiðum og mælingum Heimsmarkmiða 14 og 15 og er unnið í góðu samstarfi við skólana. Meira um Vatnsdropann.
Kópavogur er Barnvænt sveitarfélag og tók við viðurkenningu sem slíkt frá Unicef á Íslandi og félags- og barnamálaráðuneyti í maí 2021. Barnvæn sveitafélög er alþjóðlegt verkefni (e. Child Friendly Cities) sem snýr að samfélögum sem hafa það að markmiði að bæta aðstæður barna og tryggja að ávallt sé tekið tillit til réttinda þeirra samkvæmt Barnasáttmála við gerð stefnu, verkefna eða við aðra ákvarðanatöku.
Fjölmargar aðgerðir hafa litið dagsins ljós hjá Kópavogsbæ sem tengja má beint við Barnasáttmálann. Sem dæmi má nefna þróunarvinnu Kópavogsbæjar við gerð Mælaborðs barna sem er ætlað að varpa ljósi á aðstæður og velferð barna. Kópavogsbær hlaut alþjóðlega viðurkenningu Unicef fyrir Mælaborð barna á fyrstu alþjóðlegu ráðstefnu samtakanna sem haldin var í Köln haustið 2019.
Sem lið í innleiðingu Barnasáttmálans hefur markvisst verið farið í gegnum verklagsreglur er lúta að tilkynningum til barnaverndar. Þar með talið hefur verið settur upp tilkynningahnappur á spjaldtölvur barna (5. til 10. bekkur allra grunnskóla Kópavogsbæjar) þannig að þau geti sjálf tilkynnt um ofbeldi eða einelti er snýr að þeim sjálfum eða vinum sem þau hafa áhyggjur af. Þessu framtaki hefur verið vel fagnað meðal barna. Haldið var námskeið í lýðræðislegum vinnubrögðum til að þjálfa kennara og starfsfólk frístundaheimila og félagsmiðstöðva í að hlusta á raddir barna.
Þátttaka barna í málefnum bæjarins er ein mikilvægra aðgerða við innleiðingu Barnasáttmálans. Fyrsta barnaþing Kópavogs var haldið í mars 2022 en barnaþingið skapar tækifæri fyrir börn á grunnskólaaldri að koma með tillögur til bæjarstjórnar um hvað má betur fara í bænum. Skólarnir héldu síðan ýmsar útfærslur af skólaþingum. Fjórar tillögur voru lagðar fram fyrir hönd hvers skóla og unnið var með sex tillögur á barnaþinginu. Í framhaldi fá allir nemendur grunnskóla Kópavogs tækifæri til að tjá sig um tillögur skólanna í rafrænu umsagnarferli. Barnaþingmennirnir munu að því loknu fara fyrir bæjarstjórn með valdar tillögur, kynna þær og bæjarstjórn tekur afstöðu til þeirra. Niðurstöður bæjarstjórnar verða svo kynntar fyrir grunnskólum Kópavogs. Barnaþing er haldið árlega.
Starfsmenn menntasviðs hafa unnið að innleiðingu á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni sem lið í innleiðingu á heildarstefnu bæjarins. Fyrsta skref innleiðingar var kortlagning á verkefnum innan stofnana sviðsins sem tengjast Heimsmarkmiðunum en hluti af frekari innleiðingu er markviss starfsþróun og færniuppbygging meðal starfsmanna sviðsins. Í þeim tilgangi hafa starfsmenn leitast við að kynna sér innleiðingarferli annars staðar í Evrópu svo sem um áherslur, aðferðir, leiðir, verkefni, þjálfun og þróun námsefnis, og aðlögun kennsluhátta.
Sumarið 2020 hlaut menntasvið Kópavogsbæjar Erasmus+ styrk til þess að innleiða menntun til sjálfbærni. Styrkurinn fólst í því að sækja þriggja daga klæðskerasniðnar vinnustofur hjá fræðslustofnuninni Djapo í Belgíu um hugmyndafræði sjálfbærni og leiðir til að innleiða sjálfbærnihugsun í menntun barna frá leikskólaaldri. Vinnustofurnar munu þannig styðja við dýpkun þekkingar á hugmyndafræði sem Kópavogur er að innleiða í allt skólastarf í sveitarfélaginu og vinna að framkvæmd markmiða um sjálfbærni fyrir árið 2030. Með því er stuðlað að uppbyggingu á færni til að innleiðing hugmyndafræðinnar nái fram að ganga. Allt að 34 kennurum og stjórnendum í leik- og grunnskólum ásamt verkefnastjórum á menntasviði var veittur styrkur.
Aukin þekking þeirra sem sinna menntun á hugmyndafræði sjálfbærni og færni til að vinna markvisst að innleiðingu hennar er lykill að því að skólasamfélagið í Kópavogi þróist í sömu átt og að hugmyndafræðin nái að skjóta rótum í samfélaginu. Mikilvægt er að tryggja í þessu sambandi þátttöku sem flestra og miðlun þekkingar og reynslu.
Náttúrufræðistofa Kópavogs hlaut sem dæmi styrk úr Loftlagssjóði Rannís fyrir verkefni sem kallað er „Leggjum línurnar“. Verkefnið er hannað fyrir 10. bekk grunnskóla og snýst um að efla vitund ungmenna um loftslagsmál í víðu samhengi með samblandi af fræðslu og verklegum úrlausnarefnum.Skólarnir hafa auk þess unnið fjölbreytt verkefni tengd Heimsmarkmiðunum og hlotið viðurkenningar fyrir starf sitt. Þá má einnig nefna að Skólahljómsveit Kópavogs hélt sérstaka tónleika þar sem þemað var Heimsmarkmiðin og Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna.
Frístundabíllinn er sjálfbærniverkefni í samstarfi menntasviðs, íþróttafélaga og Markaðsstofu Kópavogs og hóf hann akstur síðastliðið haust. Í stað þess að fjöldi foreldra þurfi að keyra börn sín á æfingar bíður frístundabíllinn upp á þá þjónustu. Með því sparast tími foreldra og heildarlosun sveitarfélagsins minnkar.
Mynd/Sigríður Rut Marrow
Nokkrir leik- og grunnskólar eru lagðir af stað í spennandi þróunarvinnu við að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og munu að því loknu verða Réttindaleik- og grunnskólar Unicef. Réttindaleik- og grunnskólar Unicef leggja áherslu á að byggja upp lýðræðislegt umhverfi með því að rækta með markvissum hætti þekkingu, leikni og viðhorf sem hjálpa börnum að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í nútímasamfélagi. Í upphafi fóru allir starfsmenn viðeigandi stofnana á kynningarfund hjá Unicef.
Í Réttindaskólum Unicef læra börn og ungmenni um mannréttindi sín í leik og starfi. Markmið Réttindaskóla er að byggja upp lýðræðislegt umhverfi. Réttindum barna er fylgt eftir í skipulagi skólans og birtast í samskiptum við önnur börn, kennara, starfsfólk, foreldra og frístundaleiðbeinendur.
Mynd/Sigríður Rut Marrow
Skólar á grænni grein er alþjóðlegt verkefni til að auka umhverfismennt í skólum. Hér á landi sér Landvernd um verkefnið. Þeir skólar sem vilja komast á græna grein í umhverfismálum leitast við að stíga skrefin sjö. Þegar því marki er náð fá skólarnir leyfi til að flagga Grænfánanum næstu tvö ár en sú viðurkenning fæst endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi.
Grænfáninn er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Skrefin sjö eru ákveðin verkefni sem efla vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skóla um umhverfismál. Verkefnin eru bæði til kennslu í bekk og til að bæta daglegan rekstur skóla. Þau auka þekkingu nemenda og skólafólks og styrkja grunn að því að tekin sé ábyrg afstaða og innleiddar raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum skóla. Jafnframt sýnir reynslan í Evrópu að skólar sem taka þátt í verkefninu geta sparað talsvert í rekstri.
Markmið verkefnisins eru:
Níu leikskólar og sjö grunnskólar hafa unnið að grænfánaverkefnum og öðlast Grænfánann og sumir oftar en einu sinni.
Mynd/Sigríður Rut Marrow
Lýðheilsustefna Kópavogsbæjar hefur það að markmiði að Kópavogsbær verði þekktur fyrir að vera lifandi og jákvætt samfélag sem stuðlar að vellíðan meðal íbúa á öllum aldursskeiðum með jöfnuð til heilsu að leiðarljósi.
Sex meginmarkmið lýðheilsustefnunnar:
Kópavogsbær hefur frá árinu 2015 verið þátttakandi í verkefninu Heilsueflandi samfélag sem Embætti landlæknis heldur úti. Í því felst að leggja áherslu á lýðheilsumál í víðu samhengi innan sveitarfélagsins meðal starfsmanna og íbúa. Áhersla hefur verið lögð á útvistarmöguleika íbúa þar með talið uppbyggingu göngu- og hjólastíga til að hvetja til vistvænna samgangna.
Þá er öryggi barna í forgrunni og því er árstíðabundið viðhald gönguleiða til og frá skóla í forgangi sem og snjómokstur. Einnig hefur markvisst verið unnið að endurbótum og uppbyggingu opinna svæða í Kópavogi fyrir leik og aðra afþreyingu t.d. skólagarða og garðlönd fyrir íbúa þar sem lögð er áhersla á sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og hollustu.
Kópavogsbær, fyrstur sveitarfélaga á Íslandi, hefur opnað Geðræktarhús þar sem íbúar munu geta komið saman og sinnt geðrækt rétt eins og bærinn styður við íþróttahús bæði í skólum og hjá íþróttafélögum til að efla líkamlega heilsu.
Á árinu 2020 var ákveðið að fara í samstarf við þrjú stærstu íþróttafélögin í Kópavogi, Gerplu, HK og Breiðablik, um verkefnið Virkni og vellíðan sem miðar að því að eiga samstarf um skipulagða hreyfingu og heilsueflingu eldri borgara í sveitarfélaginu og vinna m.a. í samstarfi við Háskólann í Reykjavík að heilsufarsmælingum þátttakenda. Verkefnastjóri með viðeigandi menntun og reynslu, stýrir verkefninu í félögunum þremur og skipuleggur dagskrá, viðburði og æfingar. Auk þess eru þjálfarar og leiðbeinendur til verkefnisins í fræðslu og þjálfun.
Markmið verkefnisins er eftirfarandi;
Kópavogsbær nýtir sér einnig tæknina við að efla heilsu og færni aldraðra og var fyrsta sveitarfélagið sem bauð uppá kerfið DigiRehab sem hluta af félagslegri heimaþjónustu. DigiRehab er einstaklingsmiðað æfingakerfi sem upprunnið er í Danmörku og notað af mörgum sveitarfélögum þar í landi. Sérsniðið æfingakerfi er sett upp í spjaldtölvu fyrir hvern og einn notanda sem nýtur stuðnings starfsmanns heimaþjónustu við æfingarnar.
Ein mikilvægasta ráðlegging OECD til Kópavogsbæjar í innleiðingu Heimsmarkmiðanna var nauðsyn þess að virkja hagsmunaaðila við innleiðinguna. Með það að leiðarljósi voru rafrænar samráðsgáttir opnaðar fyrir starfsfólk og íbúa auk þess sem stór hluti starfsfólks Kópavogsbæjar fór í kortlagningarvinnu með Heimsmarkmiðin og sín daglegu störf. Því til viðbótar hefur Kópavogur nýtt rafrænan samráðsvettvang og leitað eftir áliti íbúa á mörgum fleiri verkefnum svo sem Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og við mótun stefna.
Hagsmunaaðilar sveitarfélags eru fjölmargir og má þar nefna íbúa, starfsmenn, fyrirtæki og stofnanir. Víðtækt samráð leiðir til þess að íbúar og fyrirtæki og aðrir hafa tækifæri til að hafa áhrif á það sem fram fer í Kópavogi. Kópavogur sinnir öflugu íbúalýðræði og er horft til Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í því sambandi. Í yfirmarkmiði 16.7 segir að teknar verði ákvarðanir á öllum sviðum þar sem brugðist skuli við aðstæðum og víðtæk þátttaka tryggð.
Kópavogsbær hefur hlotið viðurkenningu Unicef sem Barnvænt sveitarfélag og sem slíkt er leitað leiða til að auka lýðræði meðal grunnskólabarna og ungs fólks í Kópavogi. Á ungmennaþingi sem haldið verður í mars hvert ár gefst ungu fólki tækifæri á að mæta á ungmennaþing sem fulltrúi hvers grunnskóla, ungmennahúss og Menntaskólans í Kópavogi. Á ungmennaþinginu getur ungt fólk komið með tillögur varðandi málefni sem Ungmennaráð Kópavogs hefur ákveðið að fjalla um á þinginu. Tillögurnar eru síðan dregnar saman og lagðar fyrir bæjarstjórn Kópavogs að vori. Lýðræðisleg þátttaka ungmenna í nærsamfélaginu tengist jafnframt lýðræðislegri þátttöku ungs fólks í samfélaginu sbr. 12. og 13. grein Barnasáttmálans.
Frístunda- og grunnskóladeild menntasviðs hafa frá árinu 2018 þróað verkefnið Velkomin. Markmið verkefnisins er að virkja börn og unglinga með annað móðurmál en íslensku til þátttöku í samfélaginu sem og að hvetja þau til þátttöku og styðja við þau í frístunda- og íþróttastarfi. Verkefnið spannar nokkra daga sitt hvoru megin við sumarfrí þar sem unglingar úr 7. til 10. bekk fá að kynnast starfsemi félagsmiðstöðva og íþróttafélaga og annarri afþreyingu sem þeim býðst í Kópavogi. Lögð er áhersla á félagslega þáttinn, virkni og þátttöku en einnig á menningar- og tungumálanám, þau læra um framandi menningu um leið og fjöltyngd tungumálakennsla fer fram, með áherslu á íslensku og orðaforðabanka.
Verkefnið Okkar Kópavogur, er lýðræðis- og samráðsverkefni sem snýst um að bæta og fegra Kópavog í beinu samráði við íbúana, bæði hvað varðar ný verkefni og forgangsröðun annarra verkefna. Alls er 200 milljónum króna skipt á milli fimm bæjarhluta á tveggja ára fresti og þær settar í framkvæmdir sem íbúar leggja til í hugmyndasöfnun. Kosið var um hugmyndirnar snemma árs 2022 og ráðist verður í framkvæmdirnar árin 2022 og 2023.
Tilgangur verkefnisins er að bæta tengsl bæjaryfirvalda við íbúa, færa íbúum aukna ábyrgð og virkja þá í aukinni þátttöku í ákvarðanatöku um forgangsröðun fjármuna og framkvæmdir í bænum, ásamt því að hafa áhrif á bætta líðan og upplifun bæjarbúa í nærsamfélaginu. Jafnframt er tilgangurinn að gera Kópavog vistlegri, skemmtilegri og fjölbreyttari. Allir, óháð aldri eða heimilisfestu, geta sent hugmyndir um verkefni.
Dæmi um verkefni sem kosin hafa verið inn á fyrri árum eru ærslabelgir í Fossvogsdal, við Tröllakór og í Dalsmára, sem hafa notið mikilla vinsælda. Bekkjum og ruslafötum hefur verið komið að víða í Kópavogi í gegnum þetta verkefni, t.d. á Kársnesi og í Kópavogsdal. Jafnframt hafa íbúar kosið inn fjölmörg skemmtileg leik- og æfingatæki, svo sem klifurvegg við Vatnsendaskóla og æfingatæki við Himnastigann.
Atvinnulífið blómstrar í Kópavogi en fjöldi fyrirtækja í sveitarfélaginu er tæplega 2.000, launþegar eru 14.866 og velta fyrirtækja í Kópavogi er 533 milljarðar.
Samfélagið í Kópavogi er margþætt en til þess að styrkja það enn frekar var Markaðsstofa Kópavogs stofnuð. Markaðsstofan vinnur að því að laða jafnt atvinnustarfsemi og íbúa til bæjarins og styrkja þar með samfélagið í Kópavogi. Það gerir hún með öflugu markaðsstarfi og kynningu á kostum Kópavogs og tækifærum sem þar er að finna. Markaðsstofan er sjálfstæð stofnun sem Kópavogsbær fjármagnar ásamt fjölda vildarfyrirtækja í Kópavogi sem sjá tækifæri í að byggja upp og styrkja samstarf íbúa, fyrirtækja og stjórnenda bæjarins.
Haustið 2020 hrinti Markaðsstofan af stað verkefni um samstilltar aðgerðir í innleiðingu Heimsmarkmiða hjá rekstraraðilum í bæjarfélaginu. Fyrirtækin settu sér sameiginleg markmið og ætla að ná mælingum á stöðu í ýmsum þáttum starfsemi sinnar og innleiða Heimsmarkmiðin með samstilltum aðgerðum.
Með þátttöku í verkefninu samþykktu aðilar að veita Markaðsstofu Kópavogs upplýsingar um helstu markmið sín, sem og árlegar árangursmælingar og að upplýsingarnar verði skráðar í sameiginlegan gagnabanka á vegum Markaðsstofu Kópavogs.
Nokkur af framsæknustu fyrirtækjum og stofnunum í Kópavogi hafa undirritað viljayfirlýsingu um innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og vinna þannig saman að því að bæta umhverfið og samfélagið og gera Kópavog, Ísland og heiminn allan að betri stað til að búa og starfa í.
SKÓP er atvinnu- og nýsköpunarsetur í Kópavogi, stofnsett og rekið af Markaðsstofu Kópavogs sem samstarfsverkefni Kópavogsbæjar og atvinnulífs bæjarins. Á setrinu er stutt við einstaklinga til að koma sínum eigin viðskiptahugmyndum í framkvæmd og efla þannig nýsköpun og fjölgun starfa í bæjarfélaginu.
Skóp er fyrir alla Kópavogsbúa sem eru með viðskiptahugmynd og vilja hrinda henni í framkvæmd. Sérstaklega verður horft til þeirra sem eru í atvinnuleit. Kópavogsbær, Íslandsbanki og NTV skólinn eru helstu bakhjarlar SKÓP.
Takk fyrir!
Ábending þín er móttekin