Fréttir

Tilkynningar

Viðburðir

20.02.2025 kl. 12:00 - Gerðarsafn

Michael Richardt | Gjörningur | DA

Michael Richardt fremur gjörninginn DA alla fimmtudaga frá kl. 12-18 á sýningartímabili Störu. Verkið er hluti af sýningunni. Öll eru hjartanlega velkomin! Michael Richardt (f. 1980) er sviðslistamaður sem sérhæfir sig í tímatengdum og langvarandi gjörningum. Heimildamyndin My Mother Is Pink um móður hans var tilnefnd í flokki listrænna heimildamynda á Sheffield Documentary Film Festival og vann Outstanding Excellence Award á Desert Edge Global Film Festival í Indlandi. Richardt hefur unnið fyrir Marina Abramović og kom fram á Louisiana Museum of Modern Art og Henie Onstad Art Centre. Hann hefur sýnt verk sín í Nikolaj Art Gallery, Vraa Exhibition, Listasafni Reykjanesbæjar, Norræna húsinu Nordic og Nitja miðstöð fyrir samtímalist í Noregi. Richardt fer með hlutverk Raphaels í sjónvarpsþáttunum Felix og Klara sem verða sýndir á RÚV í sumar. Nánar um sýninguna Störu: Yfirfull af lífi feta verkin sig í kring um sjálf listafólksins í samsýningunni Stara sem var opnuð í Gerðarsafni sem hluti af Ljósmyndahátíð Íslands.Manneskjurnar í sýningunni standa berskjaldaðar frammi fyrir áhorfendum. Fólkið býður okkur að koma nær, stara á sig. En þau stara líka til baka, eru síður en svo valdalaus viðföng ljósmyndarans heldur aðalleikararnir í sinni sögu. Við erum velkomin en höfum stigið inn á þeirra yfirráðasvæði. Verkin eru róttæk hvísl og við þurfum að koma inn fyrir til að heyra í óeirðinni. Hún býr í persónulegum frásögnum, sögum heimsins sem sagðar eru frá einstöku sjónarhorni hvers skapara.Ljósmyndamiðillinn er í aðalhlutverki á sýningunni en ófullkomleiki einkennir margar myndanna þar sem úthugsaðri myndbyggingu og tæknilegri fullkomnun er kastað á glæ til að nálgast einlægni, til að komast nærri lífinu. Hráleikanum er beitt til að fá okkur til að sjá út frá tilfinningalegri vídd, til að sýna okkur orku, tráma, kaos og drama lífsins en líka húmorinn og uppátækjasemina. Hefðbundnar reglur ljósmyndamiðilsins eru brotnar í fölskvalausum óði til miðilsins. Hér er að finna mikla fegurð en þetta er ekki fegurð fagurbókmennta og landslagsmálverks, hér eru drunur og pönktextar, dagbókarfærslur og opin hjörtu, líkamsvessar og berskjöldun sem í ofurmjúkri viðkvæmni sinni verður óbrjótanleg.
05.04.2025 kl. 11:30 - Bókasafn Kópavogs

Lesið fyrir hunda

Bókasafn Kópavogs ásamt Vigdísi, vinum gæludýra á Íslandi, býður börnum að lesa fyrir hunda sem hafa fengið sérstaka þjálfun í að hlusta á upplestur. Skráning fer fram á eyrun.osk@kopavogur.is  Athugið að barnið er ekki skráð fyrr en staðfestingarpóstur með tímasetningu hefur borist. Aðeins eru sex laus pláss í hvert sinn. Viðburðurinn er hugsaður fyrir 5-12 ára börn sem eru byrjuð að lesa sjálf. Lestrarstundin er ekki ætluð börnum sem glíma við hundahræðslu heldur er markmiðið að auka öryggi við lestur, ekki síst hjá þeim sem eiga við lestrarörðugleika að stríða. Hundurinn hjálpar barninu að slaka á, gagnrýnir ekki lesturinn og leiðréttir ekki barnið.
05.04.2025 kl. 13:00 - Gerðarsafn

Hreiður og egg með ÞYKJÓ

Við skoðum hvernig egg eru ólík að lögun, stærð og litum og málum svo okkar eigin egg úr leir, við og pappa. Smiðjan hentar börnum frá 3 ára aldri í fylgd með fullorðnum. Aðgengi er gott. Aðgangur er ókeypis og öll velkomin! Smiðjan er liður í viðburðaröðinni Fjölskyldustundir á laugardögum sem styrkt er af menningar- og mannlífsnefnd Kópavogsbæjar. — ÞYKJÓ er þverfaglegt hönnunarverkefni fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Hönnunarstarf ÞYKJÓ miðar að því að örva ímyndunarafl og sköpunarkraft barna í frjálsum leik. Í hönnunarvinnu höfum við til hliðsjónar hvernig hægt er að örva snertiskyn með efnisvali og formfræði, hreyfiþroska og jafnvægisskyn. ÞYKJÓ stendur einnig fyrir fjölbreyttum listsmiðjum, innsetningum og viðburðum í samstarfi við söfn og menningarstofnanir. Á meðal verkefna hópsins má nefna Hljóðhimna, upplifunarrými í Hörpu, húsgagnalínuna Kyrrðarrými, búningalínuna Ofurhetjur jarðar, þátttökuverkefnin Gullplatan – Sendum tónlist út í geim og Börnin að borðinu sem ÞYKJÓ vann ásamt börnum í Reykjanesbæ en verkefnið var valið Verk ársins á Hönnunarverðlaunum Íslands 2024.
05.04.2025 kl. 20:00 - Gerðarsafn

Skjól: Strengir og skinn

Bæjarlistamaður Kópavogs, Kristofer Rodríguez Svönuson, og strengjaleikarar kammerhópsins Caudu Collective standa fyrir tónleikunum Skjól: strengir og skinn í Gerðarsafni þann 5. apríl. Þá hafa þau einnig fengið til liðs við sig Birgi Stein Theodórsson kontrabassaleikara og Matthías Hemstock slagverksleikara og mun hópurinn leika tónlist eftir flytjendur, sem öll fjallar á einhvern hátt um vatn. Flutt verður bæði skrifuð tónlist og spuni og leikið verður með hið hefðbundna tónleikaform á mörkum tónlistar á myndlistar. Að þessu sinni skipa Cauda Collective þær Sigrún Harðardóttir á fiðlu, Þóra Margrét Sveinsdóttir á víólu og Þórdís Gerður Jónsdóttir á selló. Miðar: Tix.is - Skjól: strengir og skinn - Velja miða
07.04.2025 kl. 14:00 - Bókasafn Kópavogs

Bróderíklúbburinn á Lindasafni

Ertu byrjandi eða með áralanga reynslu af bróderíi? Viltu kannski rifja upp gamla takta og hitta aðra sem deila sama áhuga? Þá gæti Bróderíklúbburinn hentað fyrir þig. Bróderíklúbburinn hittist á mánudögum á Lindasafni í Núpalind 7 kl. 14:00. Öll velkomin og heitt á könnunni.
07.04.2025 kl. 12:00 - Bókasafn Kópavogs

Stólajóga

Jógakennarinn Kristín Harðardóttir býður upp á létt stólajóga á mánudögum. Tilvalið fyrir öll að mæta og fara slök inn í vikuna. Viðburðurinn fer fram í Huldustofu á þriðju hæð aðalsafns. Hvorki er þörf á íþróttaklæðnaði né jógadýnu. Aðgangur ókeypis og öll velkomin á meðan húsrúm leyfir.
08.04.2025 kl. 10:00 - Bókasafn Kópavogs

Hannyrðaklúbburinn Garn og gaman

Hannyrðaklúbburinn Garn og gaman hittist alla þriðjudaga á 2. hæð aðalsafns kl. 10. Heitt á könnunni og öll velkomin! Nánari upplýsingar veitir Gréta Björg Ólafsdóttir, gretabjorg@kopavogur.is Fylgist með í Facebook-hópnum Hannyrðaklúbburinn Garn og gaman | Bókasafn Kópavogs
08.04.2025 kl. 15:00 - Bókasafn Kópavogs

Spilaklúbbur | 13-17 ára

Nýr spilaklúbbur fyrir 13-17 ára hefur göngu sína. Klúbburinn hittist vikulega á þriðjudögum kl. 15 í ungmennadeild aðalsafnsins á 3. hæð og spilar saman.  Öll ungmenni hjartanlega velkomin!
08.04.2025 kl. 16:30 - Bókasafn Kópavogs

Rabbað um erfðamál

Fræðsluerindi um erfðarétt og erfðamál með Elísabet Pétursdóttur, lögmanni hjá Lögfræðiþjónustu Hafnarfjarðar Elísabet mun fara yfir ýmis hagnýt atriði er varða erfðarétt. Meðal þess sem farið verður í, er hvenær heimild fæst til setu í óskiptu búi og hvað sá sem situr í óskiptu búi má gera meðan búinu hefur ekki verið skipt. Þá er farið yfir hvaða reglur gilda um fyrirframgreiddan arf, hver munurinn er á einkaskiptum og opinberum skiptum á dánarbúum, hverjir taka arf eftir hinn látna og ýmis atriði tengd erfðaskrám. Tími gefst til almennra fyrirspurna og umræðu um efnið. Viðburðurinn fer fram á aðalsafni, ljóðahorni á annarri hæð. Aðgangur ókeypis og öll velkomin á meðan húsrúm leyfir.
09.04.2025 kl. 14:00 - Bókasafn Kópavogs

Hannyrðaklúbburinn Kaðlín

Hannyrðaklúbburinn Kaðlín hittist alla miðvikudaga á 2. hæð aðalsafns. Heitt á könnunni og öll velkomin! Nánari upplýsingar veitir Gréta Björg Ólafsdóttir, gretabjorg@kopavogur.is Fylgist með í Facebook-hópnum Hannyrðaklúbburinn Kaðlín | Bókasafn Kópavogs.
09.04.2025 kl. 20:00 - Salurinn

Púlsinn | HáRún & Laufkvist

Molinn, miðstöð unga fólksins og Salurinn kynna Púlsinn, nýja tónleikaröð sem verður haldin í Salnum, Kópavogi í vor. Markmið Púlsins er að gefa ungu tónlistarfólki tækifæri að koma fram á tónleikum í einum fallegasta tónleikasal landsins en jafnframt gefa þeim verkfæri og tól til þess að vinna í tónlistarferli sínum. HáRún HáRún, eða Helga Rún Guðmundsdóttir, er indí-popp söngvaskáld sem syngur hjartnæm lög á íslensku. Kassagítarinn spilar stórt hlutverk í lögunum og eru laglínurnar grípandi, textarnir einlægir og hnyttnir, og kraftmikla röddin dregur hlustandann nær. HáRún fær mikinn innblástur frá náttúrunni, íslenskum textum og daglegu lífi. Hún gaf út sitt fyrsta lag í febrúar síðastliðinn, lagið Enda alltaf hér, en hefur verið að taka upp fleiri lög til útgáfu. HáRún hefur komið fram með efnið sitt á ýmsum stöðum, t.d. á Airwaves Off-venue í Smekkleysu 2024, í 12 tónum, á Gauknum og núna síðast í Tónabíó. Hún kemur ýmist ein fram eða með öðrum, en hún stefnir á að vera með band með sér á tónleikunum í Salnum. Laufkvist Laufkvist er grænkuband sem samanstendur af stofnanda og nafna hljómsveitarinnar Francis Laufkvist, Rósu Sif Welding Kristinsdóttur, Silju Höllu Egilsdóttir og Víf Ásdísar Svansbur. Saman spila þau skemmtilega og fólký tónlist um mikla skógi, árstíðir, tilfinningar og undraverur. Verkefnið hófst almennilega þegar Francis tók þátt í Músíktilraunum árið 2024 og sumarið eftir varð verkefnið að hljómsveit þegar hún spilaði á grasrótar tónlistarhátíðinni Hátíðni. Tónlistin er undir áhrifum ýmissa strauma, meðal annars frá íslensku grasrótinni og popptónlist 7. áratugsins. Púlsinn 26.mars - Amor Vincit Omnia & Woolly Kind 9.apríl - HáRún & Laufkvist 21.maí - AGLA & Flesh Machine Molinn er miðstöð fyrir ungt fólk á aldrinum 16-25 ára þar sem hægt að mæta og nota aðstöðuna á ýmsan hátt, til dæmis með að bóka stúdíó og vinna í tónlist, æfa sig á sviði, halda viðburði en einnig til að slaka á, læra eða hafa gaman. Molinn er einnig skipuleggjandi Skapandi sumarstarfa í Kópavogi sem fagna 20 ára starfsafmæli í sumar.
10.04.2025 kl. - Salurinn

Stefán Hilmarsson | Af fingrum fram í 15 ár

Stefán Hilmarsson þarf vart að kynna en það er ljótt að skilja útundan. Hann hóf söngvaraferil sinn í Kvennaskólanum og söng svo með Sniglabandinu inn á plötu og þaðan í frá tók frægðarsól þessa frábæra söngvara að rísa svo um munaði. Hann er einn stofnandi Sálarinnar sálugu, einnar vinsælustu hljómsveit allra tíma hér á landi. Stefán hefur sent frá sér helling af músík á löngum ferli; bæði sem einherji og gestur á hljómplötum annarra listamanna. Honum var hent út í djúpu laugina í textagerð á upphafsmetrum Sálarinnar og var fljótur að ná tökum á þeirri list að setja saman eftirminnilega söngtexta. Það verður farið í gegnum litríkan og fjölbreyttan feril Stefáns á þessum tónleikum og ljóst er að af nægu er að taka. Þeim Jóni til aðstoðar verður Friðrik Sturluson, bassaleikarinn viðkunnalegi.
Fleiri viðburðir