Lögð fram að nýju tillaga að breyttu deiliskipulagi skíðasvæðisins í Bláfjöllum. Breytingin nær til alls skíðasvæðisins og gerir grein fyrir þáttum eins og snjóframleiðslu, endurnýjun lyfta á svæðinu svo og breyttum staðsetningum á lyftum, nýjum skálum og þjónustuhúsum. Einnig er gert ráð fyrir landmótun vegna skíðagönguhrings. Tillagan, Bláfjöll skíðasvæði í Kópavogi , deiliskipulag tillaga, sem unnin er af Landslagi ehf. er sett fram í greinargerð ásamt skipulagsskilmálum, umhverfisskýrslu og deiliskipulagsuppdrætti í mkv. 1:5.000 dags. 13. apríl 2018. Jafnframt fylgir með tillögunni greinargerð starfshóps Kópavogsbæjar, Áhættumat vegna starfsemi á skíðasvæði í Bláfjöllum og fyrirhugaðrar starfsemi við Þríhnúkagíg gagnvart vatnsvernd og grunnvatnsmálum, febrúar 2018 og skýrsla verkfræðistofunnar Mannvits, Uppbygging aðstöðu við Þríhnúkagíg og Bláfjöll, áhættumat gagnvart vatnsvernd, desember 2017.
Tillagan var auglýst í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 7. gr. laga um umhverfismat áætlana nr. 105/2006. Auglýsing birtist í Fréttablaðinu 2. júní 2018 og Lögbirtingablaðinu 4. júní 2018. Með erindi dags. 3. júlí 2018 var athygli umsagnaraðila vakin á því að kynning tillögunar stæði yfir. Frestur til athugasemda og ábendinga var til 16. júlí 2018. Athugasemir og ábendingar bárust. Á fundi skipulagsráðs 16. júlí 2018 var tillagan lögð fram að lokinni kynningu ásamt athugasemdum og ábendingum sem bárust á kynningartíma. Skipulagsráð frestaði afgreiðslu tillögunnar og málinu til umsagnar skipulags- og byggingardeildar.
Tillagan lögð fram að nýju. Lagt er til að eftirfarandi breytingar hafa verið gerðar á kynntri tillögu til að koma til móts við framkomnar athugasemdir á ábendingar:
1. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir verði tilkynntar í tvennu lagi í stað þess að fjalla samtímis og í einu lagi um þær framkvæmdir í deiliskipulaginu, sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum og hafa ekki þegar hlotið umfjöllun, breytt í kafla 1.1, 3.5 og 4.2.
2. Í kafla 3.2.1 er leiðrétt að Borgarskálinn stendur enn og er nýttur sem vélsleðaskemma en stendur til að fjarlægja. Einnig er bætt inn upplýsingum um núverandi skála.
3. Bætt inn í kafla 3.2.3 Samgöngur og 4.6 Vega- og samgöngukerfi: Umferð vélknúinna ökutækja, annarra en starfsmanna skíðasvæðisins og björgunaraðila í neyðartilvikum, er óheimil utan vega á skíðasvæðinu og í Bláfjallafólkvangi.
4. Færsla á diskalyftunni Ömmu Dreka yfir á byrjendasvæði Bláfjallaskála hafði gleymst og er því bætt við í kafla 3.5.
5. Bætt við kafla 3.5 Mat á umhverfisáhrifum: Gert er ráð fyrir að áætlaðar framkvæmdir verði tilkynntar í tvennu lagi. Fjalla skal samtímis og í einu lagi um þær framkvæmdir sem áætlaðar eru fyrir árin 2018-2024 annars vegar og hins vegar þær framkvæmdir sem áætlaðar eru árin 2025-2030.
6. Listi yfir framkvæmdir sem hafa fengið umfjöllun og eru ekki taldar matsskyldar í kafla 4.2 hefur verið uppfærður til samræmis við stöðuna árið 2018. Einnig er uppfært yfirlit yfir áætlaðar framkvæmdir í kafla 4.2, sem ekki hefur verið úrskurðað hvort séu háðar mati á umhverfisáhrifum. Bætt er við eftirfarandi í lok kafla 4.2: Eins og kom fram hér að fram þá eru fyrirhugaðar framkvæmdir í Bláfjöllum tilkynningarskyldar til ákvörðunar um matsskyldu samkvæmt 6. gr. og lið 12.01 í 1. viðauka í lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.
Gert er ráð fyrir að áætlaðar framkvæmdir verði tilkynntar í tvennu lagi. Fjalla skal samtímis og í einu lagi um þær framkvæmdir sem áætlaðar eru fyrir árin 2018-2024 annars vegar og hins vegar þær framkvæmdir sem áætlaðar eru árin 2025-2030.
Allar þessar framkvæmdir þarf að vinna í samráði við Umhverfisstofnun og heilbrigðiseftirlitið og hljóta samþykki bæjaryfirvalda.
Fylgja skal eftir þeim takmörkunum og skilyrðum um umferð vinnutækja innan vatnsverndarsvæðisins á framkvæmdatíma sem sett verða af heilbrigðisnefnd. Kröfur til verktaka verða settar í útboðsgögn í samræmi við reglugerðir, samþykkt um vatnsverndarsvæðið, öryggisreglur fyrir verktaka og kröfur heilbrigðisnefndar.
Fyrirvari er á framkvæmdum að nýjum lyftum, byggingum og snjóframleiðslu að ekki verði farið í framkvæmdir fyrr en áætlun um vegabætur á Bláfjallavegi og Bláfjallaleið liggi fyrir.
7. Í kafla 4.4 Skíðabrekkur er bætt við: Uppsetning snjósöfnunargirðinga víðsvegar við lyftur, togbrautir og skíðaleiðir er heimil. Halda skal jarðraski í lágmarki við allar framkvæmdir og ekki er heimilt að raska hrauni.
8. Í kafla 4.5 Gönguskíðasvæði er bætt við: Uppsetning snjósöfnunargirðinga við gönguskíðaleiðir er heimil utan hrauna.
9. Í kafla 4.5.1 Gönguhringur er bætt við: Lega brautarinnar á skipulagsuppdrættinum er leiðbeinandi, en lögð er áhersla á að við nánari útfærslu á legu brautarinnar verði hraun á svæðinu fyrir sem minnstum áhrifum.
10. Í lok kafla 4.7 Bílastæði er bætt við: Eins og staðan er í dag eru skiptar skoðanir á því hvers konar yfirborð ætti að vera á bílastæðunum til að draga úr mengunarhættu. Uppbyggð stæði með gegndræpu yfirborðsefni eða malbikuð með síunarræmum koma bæði til greinar. Áður en farið er í framkvæmdir þarf að vera samráð við heilbrigðiseftirlitið og í því samráði ákveðið hvaða lausn sé best hverju sinni eftir aðstæðum.
11. Bætt er við kafla 4.8 Byggingar og byggingarskilmálar: Við gerð bygginga skal lögð áhersla á að nota endurvinnanleg og vistvæn efni s.s. timbur, stál, steypu og steinull auk þess sem fyllsta öryggis skal gætt á framkvæmdartíma til að koma í veg fyrir mengun. Ítrekað er að hvers konar mannvirkjagerð er háð samþykki Umhverfisstofnunar skv. reglum um fólkvang í Bláfjöllum.
12. Tekið er fram flatarmál gólfflatar fyrir hverja byggingu og er þá átt við heildar flatarmál gólfflatar allra hæða ef um fleiri en eina hæð er að ræða.
13. Ekki er gert ráð fyrir fleiri gistirýmum en þegar er til staðar á svæðinu í núverandi skálum.
14. Einnig er skerpt á skilmálum fyrir nýja skála og skíðalyftur, bætt inn skýringarmynd sem sýnir mannvirki sem verða fjarlægð.
15. Í kafla 4.10 Kaldavatnsöflun er bætt við: unnið er að því að fá skilgreind vatnsverndarsvæði fyrir borholuna og að vaktáætlun feli í sér gæðaeftirlit a.m.k. einu sinni á ári.
16. Í kafla 4.12 Snjóframleiðsla/skilmálar er bætt við nánari upplýsingum um miðlunarlón og sett inn eftirfarandi skilyrði: að borholurnar verði nýttar til rannsókna m.a. að fylgjast með grunnvatnsstöðu með síritandi vatnshæðarmæli í a.m.k. einni þeirra.
17. Skerpt á skilmálum um eftirlit og umsjón með fráveitumálum í kafla 4.13 Frárennslismál.
18. Bætt við kafla 4.18 Geymsla varasamra efna. Slíkt skal vera í samráði við heilbrigðiseftirlitið og í samræmi við samþykkt um verndarsvæði vatnsbóla.
19. Í umhverfisskýrslu er bætt við áhrifaþætti ný og endurnýjaðar stólalyftur og umhverfisþættinum sjónræn áhrif bætt við umfjöllun um landslag. Bætist þá við kafli Landslag og sjónræn áhrif ásamt skýringarmynd. Niðurstaða þess kafla er: Áðurnefndar framkvæmdir innan skíðasvæðisins skv. deiliskipulagi mun hafa óveruleg sjónræn áhrif og áhrif á landslag verða óveruleg eða óljós.
20. Í umfjöllun um aðsókn í kafla 5.4.2 Samgöngur er bætt við umfjöllun um aukningu á gestafjölda úr áhættumati Mannvits.
21. Á uppdrætti hefur C-hættumatslína snjóflóðamats verið færð inn og byggingarreitir fyrir skíðaskála Ulls og þjónustuhús og stjórnstöð neðan Suðurgils verið minnkaðir og færðir út fyrir C-hættumatslínu. Byggingarreitur fyrir nýja stólalyftu (Gosa) hefur verið teygður út fyrir C-hættumatslínu snjóflóða til að endastöðin geti verið staðsett þar. Einnig hefur byggingarreitur fyrir heimatorfuna við Bláfjallaskála verið stækkaður til að rúma lyftuna Ömmu Dreka sem á að færa.
Tillagan lögð fram að nýju með áorðnum breytingum, greinargerð ásamt skipulagsskilmálum, umhverfisskýrslu og deiliskipulagsuppdrætti í mkv. 1:5.000 dags. 17. september 2018.
Halldóra Narfadóttir, landfræðingur Landslagi gerir grein fyrir tillögunni.
Gestir
- Halldóra Narfadóttir - mæting: 17:30