Ármann Kristinn Ólafsson bæjarstjóri, gerði grein fyrir fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar 2015 sem samanstanda af rekstraryfirliti, rekstrarreikningi, efnahagsreikningi, sjóðstreymi og framkvæmdayfirliti, fyrir A-hluta og samstæðu Kópavogsbæjar. Lagði bæjarstjóri til að tillögunni yrði vísað til seinni umræðu í bæjarstjórn.
Þá lagði Ármann Kristinn Ólafsson bæjarstjóri, fram eftirfarandi tillögu að álagningu gjalda fyrir 2015:
I. Bæjarstjórn Kópavogs samþykkir að útsvar fyrir árið 2015 verði óbreytt, 14,48%.
II. Bæjarstjórn Kópavogs samþykkir að fasteignagjöld fyrir árið 2015 verði álögð sem hér segir:
a) Fasteignaskattur
1. Íbúðarhúsnæði lækki úr 0,27% í 0,265% af fasteignamati.
2. Atvinnuhúsnæði og annað húsnæði lækki úr 1,64% í 1,62% af fasteignamati.
3. Opinbert húsnæði óbreytt, 1,320% af fasteignamati (sbr. b-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995).
4. Hesthús lækki úr 0,27% í 0,265% af fasteignamati.
5. Sumarhús lækki úr 0,27% í 0,265% af fasteignamati.
b) Vatnsskattur og holræsagjald
1. Vatnsskattur lækki og verði 0,09% af heildarfasteignamati í stað 0,10%. Aukavatnsgjald skv. mæli verði kr. 36,30 (var 35,59) fyrir hvern m3 vatns.
2. Fráveitugjald, sbr. reglugerð um fráveitugjald í Kópavogsbæ nr. 729/2001, verði óbreytt og nemi 0,169% af fasteignamati, sbr. lög um skráningu og mat fasteigna nr. 94/1976 með síðari breytingum. Sé ekkert mannvirki á lóð greiðist ekki holræsagjald. Ekki skal reikna fráveitugjald af húsi það ár sem bygging þess hefst. Rotþróargjald fyrir íbúðarhúsnæði að Vatnsenda verði kr. 26.171 (var 25.658) og innheimtist með fasteignagjöldum.
c) Lóðarleiga:
1. Fyrir lóðir íbúðarhúsa óbreytt 19,48 á kr/m².
2. Lækjarbotnar-lækka úr kr. 22,72 í 19,48 kr/m².
3. Fyrir lóðir annarra húsa óbreytt 190,00 kr/m².
Gjalddagar fasteignagjalda 2015 verði átta, þann 1. febrúar, 1. mars, 1. apríl, 1. maí, 1. júní, 1. júlí, 1. ágúst og 1. september og greiðist áttundi hluti gjaldsins hverju sinni. Eindagi verði í lok hvers mánaðar.
Gjaldendur er greiða lægri fasteignagjöld en 40.000 kr. greiði þau í einu lagi á gjalddaga 01.03. 2015.
Gjaldendur er greiða fasteignagjöld að fullu fyrir 13.02. 2015 fá 3% staðgreiðsluafslátt
d) Elli- og örorkulífeyrisþegar er njóta lækkunar fasteignaskatts skulu fá staðgreiðsluafslátt samkvæmt sömu reglum og aðrir gjaldendur af þeim hluta er þeim ber að greiða.
Veittur verður afsláttur af fasteignaskatti til þeirra elli- og örorkulífeyrisþega, sem búa í eigin íbúð. Miðast afslátturinn við eftirfarandi tekjumörk liðins árs:
100% lækkun:
Einstaklingar með heildarárstekjur allt að 2.852.000 krónur (var 2.750 þ).
Hjón með heildarárstekjur allt að 3.935.000 krónur (var 3.795 þ).
75% lækkun:
Einstaklingar með heildarárstekjur á bilinu frá 2.852.001 - 3.287.000 krónur (var 3.170 þ).
Hjón með heildarárstekjur á bilinu 3.935.001 - 4.433.000 krónur (var 4.275 þ).
50% lækkun:
Einstaklingar með heildarárstekjur á bilinu 3.287.001 - 3.547.000 krónur (var 3.420 þ).
Hjón með heildarárstekjur á bilinu 4.433.001 - 4.812.000 krónur (var 4.640 þ).
25% lækkun:
Einstaklingar með heildarárstekjur á bilinu 3.547.001 - 3.754.000 krónur (var 3.620 þ).
Hjón með heildarárstekjur á bilinu 4.812.001 - 5.107.000 krónur (var 4.925 þ).
e) Veittur verður styrkur til greiðslu fasteignaskatts af fasteignum þar sem fram fer starfsemi sem ekki er rekin í ágóðaskyni, svo sem menningar-, íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarfsemi og mannúðarstörf, sbr. sérstakar reglur bæjarstjórnar þar um.
II. Bæjarstjórn Kópavogs samþykkir á grundvelli laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, að leggja sérstakt sorphirðu- og eyðingargjald á hverja íbúð í Kópavogi á árinu 2015. Gjaldið hækkar vegna aukins úrgangs og vegna gjaldskrárhækkana Sorpu, m.a. vegna gas- og jarðefnastöðvar og verður kr. 24.500 á íbúð (var 22.000). Enn fremur verði heimilt að leggja á aukatunnugjald. Innheimta skal gjaldið með fasteignagjöldum og eru gjalddagar þeir sömu.