- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Kópavogsbær vinnur að innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Í stefnupýramída Kópavogsbæjar eru íbúar í öndvegi og innleiða á til árangurs við það langtímaverkefni að tryggja lífsgæði íbúa.
Samhliða gerð þjónustukönnunar sveitarfélaga þá hefur Gallup spurt úrtak íbúa Kópavogsbæjar um hvort þeir þekki til eða hafi heyrt af Heimsmarkmiðum SÞ um sjálfbæra þróun síðustu ár. Niðurstaðan er sú að 80% íbúa þekkir eða hefur heyrt um Heimsmarkmiðin (70% 2021, 83% 2022). Góður hópur íbúa á öllum aldri er því vel meðvitaður um Heimsmarkmiðin og unga fólkið leiðir þar hópinn.
Samkvæmt niðurstöðum þjónustukönnunar Gallup í Kópavogi fyrir árið 2023 eru 85% íbúa sveitarfélagsins ánægðir með sveitarfélagið sem stað til að búa á.
Kópavogsbær hefur í nokkur ár tekið þátt í alþjóðlegu verkefni OECD um innleiðingu á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Í skýrslu sem gefin var út haustið 2020 kom fram að lífsgæði íbúa Kópavogs séu góð miðað við aðrar þjóðir en helstu áskoranir tengist samgöngum og magni úrgangs. Í lok árs 2023 hóf Kópavogsbær þátttöku í nýju alþjóðlegu samstarfsverkefni á milli bæja á Norðurslóðum sem kallast AURC eða „Arctic Urban-Regional Cooperation". Verkefnið snýst um sjálfbærniþróun og nýsköpun á Norðurslóðum eða „Arctic sustainable urban development and innovation“ og fellur undir stefnu Evrópusambandsins um Norðurslóðir eða „EU Arctic Policy project“. Horft er til þess að styðja við sveitarfélög með því að skiptast á þekkingu og reynslu í gegnum „peer to peer learning“ og samvinnu varðandi málefni sem varða hringrásarhagkerfið, jafnrétti og inngildingu í samfélög, sjálfbæra ferðaþjónustu, matvælaframleiðslu og matvælaöryggi, þátttöku ungmenna, náttúrulegar lausnir, nýsköpun, búa til aðlaðandi lífvænar borgir, sjálfbæran hreyfanleika og samgöngur.
Bókasafn Kópavogs fagnaði sjötugsafmæli með pompi og prakt og var marsmánuður 2023 helgaður afmælinu. Á afmælisdaginn sjálfan var mikið um dýrðir og meðal annars sýnd stuttmynd um sögu bókasafnsins.
Ríflega 200.000 gestir sækja safnið heim á ári hverju og útlán voru um 152.000 á árinu 2023. Í takt við breytingar á starfsemi bókasafna hefur viðburðum í safninu fjölgað mjög undanfarin ár. Árið 2023 voru til dæmis 208 viðburðir haldnir í Bókasafninu af fjölbreyttum toga. Þá er Bóksasafnið aðsetur fyrir bókaklúbba, alls kyns skiptimarkaði, foreldramorgna og hannyrðaklúbba sem gefa handverkið til hjálparsamtaka.
Tala og spila er samverustund sem fram fer reglulega á Bókasafni Kópavogs, aðalsafni, í því skyni að efla skilning og leikni fólks af erlendum uppruna í íslensku og skapa jafnframt notalegan vettvang fyrir tengslamyndun. Fjölbreyttir kennsluhættir og miðlunarleiðir eru höfð að leiðarljósi þar sem samtöl, spil og leikir gegna lykilhlutverki. Í samstarfi við skapandi sumarstörf voru haldnar sögustundir á bókasafninu og boðið uppá hádegistónleika.
Öflugt samstarf hefur verið á milli bókasafnsins og skóla svo sem í formi skólaheimsókna og sögustunda fyrir leikskóla. Í einu samstarfsverkefni við Smáraskóla voru taupokar saumaðir úr gömlu efni. Gamlar bækur og tímarit eru mikið notuð í smiðjum og áhersla hefur verið á að endurnýta húsgögn í bókasafninu. Horft er til þess að endurnýta efnivið eldri afgreiðsluborða í nýsmíði vegna breytinga fyrir barnadeild á fyrstu hæðinni.
Í tengslum við breytingar á Menningarhúsum var afráðið 2023 að fyrstu hæð Bóksafns Kópavogs yrði breytt í upplifunar- og fræðslurými sem meðal annars myndi hýsa sýningu Náttúrufræðistofu. Efnt var til hugmyndasöfnunar meðal íbúa um rýmið og voru niðurstöður hennar hafðar til hliðsjónar við hönnun þess. Hafist var handa við framkvæmdir í ársbyrjun 2024 með það að markmiði að opna á afmælisdegi bæjarins 11. maí 2024.
Skáldverk og sjálfbær þróun tengd saman
Alþjóðlega barnamenningarverkefnið Vatnsdropinn sem Menningarhús Kópavogsbæjar áttu frumkvæði að rann sitt skeið á enda haustið 2023. Verkefnið var unnið í samstarfi Kópavogsbæjar, H.C.Andersen safnsins í Danmörku, Múmín safnsins í Finnlandi og Ilon‘s Wonderland í Eistlandi.
Meginstef Vatnsdropans er að tengja saman boðskap og gildi sígildra skáldverka barnabókahöfunda á borð við Tove Jansson, Astrid Lindregn og H.C. Andersen við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Þessir höfundar eiga það allir sameiginlegt að brýna fyrir lesendum að bera virðingu fyrir náttúrunni, rétta þeim sem minna mega sín hjálparhönd og takast á við erfiðleika með bjartsýni að vopni.
Sýning á vegum Vatnsdropans var opnuð á aðalsafni Bókasafns Kópavogs í maí 2023. Yfirskrift sýningarinnar var Draumaeyjan okkar og á henni voru verk ungra sýningarstjóra sem þeir höfðu unnið um veturinn til sýnis. Verkin sem voru til sýnis voru: Plast í matinn, Eyjan, Skrímslaspilið. Fjársjóður Múmínsnáðans, Á ferð og flugi með Valmundi, Sjálfbærni í poka, Við erum aular, Jafnrétti, Björgum hvölunum, Plönturnar tala, Droparnir segja sína skoðun, Draumaeyjan okkar og Fjársjóðsleitin. Sýningarstjóri var Kristín Ragna Gunnarsdóttir rithöfundur og myndskreytir. Í september komu ungir sýningarstjórar frá samstarfslöndum Vatnsdropans, Danmörku og Eistlandi og var verkum þeirra bætt við sýninguna
Að auki voru þrjár opnar smiðjur fyrir alla á vegum Vatnsdropans í fjölnotasalnum yfir sumarið, ævintýraperl, ævintýrabókamerki (origami) og bókagerð. Einnig var opin smiðja, Draumaeyjan okkar, þar sem boðið var upp á að skapa sitt eigið skrímsli út frá skrímslaspili.
Barnaþing í Kópavogi var haldið í safnaðarheimili Kópavogskirkju og voru mætt fulltrúar skólanna í Kópavogi og úr ungmennaráði.
Barnaþing skipað fulltrúum nemenda úr grunnskólum Kópavogs var haldið vorið 2023. Börnin sem eru nemendur í 5.-10.bekk fjölluðu um tillögur sem voru valdar af grunnskólunum á skólaþingum.
Meðal þess sem var til umfjöllunar voru fleiri námsferðir, frítt í strætó, aðgangur að hreinlætisvörum, kynfræðsla, betri aðstoð fyrir börn með greiningu og fartölvur á unglingastigi. Börnin ræddu málið í hópum og settu svo inn ábendingar við tillögurnar. Í lok þingsins var kosið um hvaða rökstuðningur væri bestur við hverja og eina tillögu.
Um þrjátíu börn tóku þátt í þinginu og voru tveir úr hverjum skóla valdir en að auki tóku fulltrúar ungmennaráðs þátt. Tillögur Barnaþings fóru í rafrænt umsagnarferli í grunnskólunum og voru svo kynntar bæjarstjórn Kópavogs. Að því loknu fóru þær til úrvinnslu stjórnsýslunnar.
Starfsfólk mennta- og velferðarsviðs hélt sameiginlegan starfsdag þar sem farið var yfir sameiginleg verkefni sviðsins sem tengjast innleiðingu farsældarlaga.
Öll þjónusta við börn og fjölskyldur á mennta- og velferðarsviði er nú farsældarþjónusta og af því leiðir að öll samstarfsverkefni sviðanna sem varða börn styðja við farsæld barna. Samstarf sviðanna á sér nokkurra ára forsögu en hefur nú fengið heitið Fléttan – farsæld barna. Stýrihópur er til staðar fyrir Fléttuna og á innleiðingartímabili laganna um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna sem er til ársins 2027 er einnig starfandi innleiðingarteymi sem samanstendur af fulltrúum af hvoru sviði sem starfa í umboði sviðsstjóra sviðanna.
Mikill undirbúningur hefur átt sér stað og mörg verkefni langt komin eða lokið svo sem hvað varðar verklag við samþættingu þjónustunnar og uppfært fræðsluefni, eyðublöð og sniðmát. Leik- og grunnskólar hafa skilgreint tengiliði og gengið hefur frá ráðningu nýrra málstjóra sem staðsettir eru á velferðarsviði. Ráðgjafi tengiliða í leikskólum hefur verið ráðinn inn til að styðja leikskólana við samþættingu á upphafsstigi mála. Notuð er rafræn beiðni um samþættingu þjónustu sem fyllt er út í samstarfi foreldra, barna og tengiliðs eða málstjóra.
Á árinu 2023 var lögð áhersla á fræðslu meðal tengiliða, málstjóra, stjórnendateyma leik- og grunnskóla og fleiri hópa starfsfólks. Börn og ungmenni og starfsfólk Kópavogsbæjar sótti farsældarþing haustið 2023 sem haldið er af Mennta- og barnamálaráðuneytinu. Formleg samþætting í málum tæplega 200 barna er farin af stað í leik- og grunnskólum í Kópavogi. Á næstunni er síðan áætlað að efla samstarf við aðrar stofnanir í Kópavogi og þróa verklag í kringum samstarfið til að tryggja að ekki verði rof í þjónustu þegar mál færast á milli tengiliða og málstjóra.
Virkni og vellíðan stóðu fyrir götugöngu sem haldin var í maí og þá var boðið upp á vikulegar göngur sem fram fóru á ýmsum stöðum í Kópavogi.
Virkni og Vellíðan í Kópavogi er heilsuúrræði fyrir íbúa 60 ára og eldri í bænum. Um er að ræða heilsueflandi verkefni sem miðar að því að auka hreyfingu, minnka einangrun og einmanaleika og stuðla að bættri líkamlegri, andlegri og félagslegri heilsu þátttakenda. Markmið verkefnis eru einnig að bæta nýtingu íþróttamannvirkja í Kópavogi og gefa bæjarbúum tækifæri á að stunda sína hreyfingu í nærumhverfi sínu, auka þekkingu á mikilvægi hreyfingar hjá þátttakendum verkefnisins og öðrum bæjarbúum með fræðslufyrirlestrum og stuðla jafnframt að farsælli öldrun bæjarbúa.
Verkefnið fer ört stækkandi og vorið 2024 voru 405 þátttakendur skráðir í verkefnið í 17 hópum. Iðkendafjöldinn hefur því fjórfaldast frá byrjun verkefnisins haustið 2021.
Um hópþjálfun er að ræða tvisvar til þrisvar í viku undir handleiðslu þjálfara. Ein af áherslum verkefnisins er að kynna þátttakendum fyrir fjölbreyttri hreyfingu og heilsueflingu sem hægt er að sækja innan bæjarins og jafnframt að ýta undir áhugahvöt, félagslegt umhverfi og skemmtun. Dæmi um valæfingar sem fara fram einu sinni í viku eru Zumba, Quigong, Yoga, Gerpluæfing, og golf eða pútt. Hvað félagslega viðburði varðar má nefna páskabingó, jólahlaðborð, útiæfingar að sumri til og götugöngu Virkni og vellíðan.
Fyrsta keppni í götugöngu sem haldin hefur verið á Íslandi var haldin í Kópavogi á afmælisdegi Kópavogsbæjar þann 11. maí 2023, og var hún afar vel sótt en um 300 þátttakendur voru í göngunni.
Æfingar á vegum Virkni og Vellíðan í félagsmiðstöðvum eldra fólks, í Boðaþingi, Gjábakka og Gullsmára, fóru fram einu sinni í viku á árinu 2023 og hafa þessar æfingar verið vel sóttar. Þátttakendur voru um 60 og fer sá hópur einnig ört stækkandi.
Niðurstöður rannsóknar meistaranema við Háskólann í Reykjavík sem framkvæmd var með mælingum yfir tveggja ára tímabil fóru fram úr björtustu vonum og sýndu þátttakendurnir 140 framfarir í sex þáttum sem mældir voru. Niðurstöður sýndu einnig alhliða bætingu á stöðu andlegrar vellíðunar milli fyrstu mælinga og þeirra síðustu. Virkni og Vellíðan hafði þannig jákvæð áhrif á líkamlega, félagslega og andlega heilsu hjá þátttakendum í verkefninu.
Þátttakendur í Velkomin verkefninu samankomin í húsnæði fimleikafélagsins Gerplu, Versölum.
Velkomin er samfélagsverkefni fyrir börn í Kópavogi á aldrinum 10-18 ára sem hafa annað móðurmál en íslensku. Velkomin er ætlað að efla andlega, félagslega og líkamlega heilsu barna, sem miðar að því að hvetja börn með einstaklingsbundum hætti til þátttöku í samfélaginu í gegnum íþrótta- og frístundastarf og þannig virkja og valdefla þau og hjálpa til við aðlögun þeirra inn í skóla, íþrótta- og frístundastarf og samfélagið allt.
Á sama tíma er markmiðið að fræða börn með íslensku sem sitt móðurmál um fjölmenningu og efla hæfni þeirra er snýr að menningarnæmi sem gerir þeim kleift að bregðast við af virðingu og samkennd gagnvart fólki, til dæmis af ólíkum uppruna, þjóðernum, menningu og trúarbrögðum. Í gegnum Velkomin er lögð áhersla á inngildingu nemanda þar sem rík áhersla er lögð á að viðurkenna og virða fjölbreytileikann og gera alltaf ráð fyrir honum í öllu starfi með börnum. Góð þátttaka hefur verið í Velkomin og aukist ár hvert. Verkefnið er nú starfandi allt árið um kring.
Kópavogsbær hefur innleitt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og er annað tveggja sveitarfélaga á Íslandi sem hefur fengið viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag. Barnvæn sveitarfélög vinna markvisst að því að uppfylla réttindi barna og ungmenna og Velkomin verkefnið er einstaklega gott dæmi um slíka vinnu. Velkomin talar einnig vel við stoðir Menntastefnu Kópavogsbæjar er varðar jöfn tækifæri fyrir alla, vellíðan í öndvegi og hæfni fyrir framtíðina. Í gegnum Velkomin verkefnið er rík áhersla á að virkja börn og ungmenni með fjölbreyttan tungumála- og menningarlegan bakgrunn til þátttöku í frístundum og íþróttastarfi, og Velkomin er samstarfsverkefni á milli skóla, frístunda, íþróttafélaga, Vinnuskóla Kópavogs og annarra stofnana í Kópavogi. Virk þátttaka í íþrótta- og frístundastarfi þroskar félagsfærni og vinnur gegn félagslegri einangrun.
Velkomin skapar tækifæri fyrir börn, óháð uppruna og félagslegum eða efnahagslegum bakgrunni, þátttöku í íþrótta- og frístundastarfi þeim að kostnaðarlausu. Lögð er áhersla á þátttöku óháð áhugasviði og getu og þannig tryggt að allir fái tækifæri til að nýta styrkleika sína í þessu starfi. Félagsmótun er mikilvægur þáttur í frístunda- og íþróttastarfi. Það styrkir einstaklinga að upplifa sig sem hluta af heild, tryggir betri árangur í námi og er mikilvægur grunnur fyrir framtíðina.
Nýverið fékkst styrkur frá Mennta- og barnamálaráðuneytinu til að þróa verkefnið Velkomin með áherslu á stöðu íþrótta- og frístundatengils. Hlutverk hans verður að kynna íþrótta- og frístundakosti fyrir börnum, ungmennum og foreldrum ásamt því að aðstoða við skráningar og fyrstu skref barna og ungmenna til þátttöku. Í gegnum Velkomin höfum við séð að starfið hefur gríðarlega mikilvæga þýðingu fyrir börn og ungmenni sem hafa annað móðurmál en íslensku til þátttöku í samfélaginu.
Íþrótta- og frístundatengillinn mun hafa það hlutverk að vinna í anda Velkomin og kynna þannig íþrótta- og frístundastarfið reglulega með heimsóknum í leik- og grunnskóla í því skólahverfi þar sem vitað er að nýting frístundastyrks er minnst nýtt og þátttaka barna í íþrótta-og frístundastarfi er lítil. Íþrótta- og frístundatengillinn mun vinna í nánu samstarfi við skólastjórnendur, forstöðumenn félagsmiðstöðva, forstöðumenn frístunda og ÍSAT kennara (kennarar sem kenna nemendum með íslensku sem annað tungumál) og ráðgjafa á velferðarsviði við að finna börn og ungmenni sem eru félagslega óvirk og aðstoðar þau og foreldra þeirra við að bæta virkni barnsins. Þróun á verkefninu er mikilvæg viðbót við samþættingu þjónustu við móttöku barna og ungmenna sem hafa annað móðurmál en íslensku í Kópavogi.
Molinn stendur fyrir ýmis konar viðburðum, til dæmis tónleikum
Molinn – Miðstöð unga fólksins tók til starfa með það að leiðarljósi að efla þjónustu við ungmenni á aldrinum 16 til 25 ára. Molinn ungmennahús fékk þannig nýtt og aukið hlutverk í þjónustu við ungmenni.
Markmiðið með breytingunum var að mæta enn betur þörfum ólíkra hópa ungmenna, auka fjölbreytileika þjónustunnar og styrkja starfsemi verulega. Komið var á samstarfi við félagasamtök, menntastofnanir og aðra aðila sem vinna í þágu ungs fólks auk þess að vera vettvangur fyrir ungt fólk að koma saman, styrkja tengsl og stunda skapandi vinnu, nýsköpun, atvinnu- og starfsþjálfun.
Mjög fjölbreytt starf fer fram í Molanum og flokkast stór hluti starfseminnar undir opið frístundastarf. Góð aðstaða er til listsköpunar í Molanum, og er veitt leiðsögn og skipulögð námskeið og ýmis konar viðburðir sem tengjast menningu, listum og nýsköpun.
Gjaldfrjáls leikskóli sex klukkustundir á dag og aukinn sveigjanleiki í dvalartíma, tekjutenging leikskólagjalda og heimgreiðslur til foreldra eru meðal breytinga á skipulagi og starfsumhverfi í leikskólum sem tóku gildi 1. september 2023.
Breytingarnar, sem byggðu á þeirri sýn að velferð og vellíðan barna á leikskólaaldri sé best borgið með hæfilega löngum leikskóladegi, höfðu þau áhrif að meðal dvalartími barna í Kópavogi styttist verulega.
Í september hafði dvalartími 19% barna verið styttur í 6 klukkustundir eða minna, samanborið við 2% ári fyrr. Þá hafði meðaldvalartími barna styst úr rúmum 8 klukkustundum á dag í 7,5 klukkustundir.
Mönnun gekk betur og ekki kom til lokana vegna manneklu í kjölfar breytinganna. Færri börn voru í leikskólum á morgnana og seinnipart dags sem skapaði betri aðstæður og rólegra umhverfi fyrir þau börn sem dvelja lengur á leikskólanum.
Réttindaleik- og grunnskólar UNICEF leggja áherslu á að byggja upp lýðræðislegt umhverfi með því að rækta með markvissum hætti þekkingu, leikni og viðhorf sem hjálpa börnum að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í nútímasamfélagi. Börn og ungmenni læra um mannréttindi sín í leik og starfi. Réttindum barna er fylgt eftir í skipulagi skólanna og birtast í samskiptum við önnur börn, kennara, starfsfólk, foreldra og frístundaleiðbeinendur. Verkefnið byggir á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og er alþjóðlegt verkefni sem snýst um að auka virðingu, vernd og framkvæmd mannréttinda.
Leikskólar í Kópavogi eru frumkvöðlar í því að verða réttindaskólar á leikskólastigi og hafa í samvinnu við UNICEF unnið og þróað réttindaskólaverkefnið að starfi leikskólanna. Fimm leikskólar í Kópavogi, Álfatún, Baugur, Efstihjalli, Grænatún og Lækur voru fyrstir á heimsvísu til að verða réttindaleikskólar UNICEF. Fimm aðrir leikskólar hafa hafið undirbúning að því að verða réttindaleikskólar.
Vatnsendaskóli og Snælandsskóli hafa fengið viðurkenningu sem réttindagrunnskólar UNICEF og Álfhólsskóli, Kópavogsskóli, Lindaskóli og Smáraskóli hafa hafið innleiðingarferlið.
Á mynd. F.v. Tryggvi Hjaltason, verkefnastjóri, Þórdís Jóna Sigurðardóttir, forstjóri menntamálastofnunar, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, Védís Hervör Árnadóttir, forstöðumaður miðlunarsviðs SA, Þorvaldur Davíð Kristjánsson, leikari, Ilmur Kristjánsdóttir, leikkona, Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi, Sigurlaug Rún Brynleifsdóttir, læsisfræðingur, Birgir Örn Birgisson, stjórnarformaður Billboard og Vésteinn Gauti Hauksson, framkvæmdastjóri Billboard. Í bakgrunni má sjá meðlimi í Barnakór Ísaksskóla sem fengu leyfi til þess að vera með á myndinni.
Lestur efldur með lestrartölvuleik
Kópavogsbær er einn af samstarfsaðilum í verkefni sem snýst um að efla læsi með notkun finnska lestrartölvuleiksins „Graphogame“ og leiðir fyrstu skrefin í prófun á íslensku staðfærslunni árið 2024 með notkun leiksins í fyrsta bekk grunnskóla í Kópavogi og rannsókn á árangri.
Unnið hefur verið að staðfærslunni undanfarin ár. Leikurinn er liður í viðbragði við vaxandi áskorun barna þegar kemur að lestri og málskilningi en „Graphogame“ grípur börn í grunnundirstöðum lestrar, aðlagar sig að getustigi þeirra og hefur margsýnt virkni sína við að koma þeim börnum sem eru sein til læsis hratt á rétta leið. „Graphogame“ hefur verið aðgengilegur öllum finnskum börnum með góðum árangri.
Rannsókn á spjaldtölvum
Niðurstöður rannsóknar á spjaldtölvum í grunnskólum Kópavogs sem unnin var á tímabilinu 2021-2022 og tekur til tímabilsins 2015-2020 voru kynntar í mars 2023. Rannsóknin var unnin af Rannsóknarstofu í upplýsingatækni og miðlun við Háskóla Íslands. Meginmarkmið hennar var að kanna hverju innleiðing spjaldtölva í skólastarf hefði skilað og hvaða lærdóm mætti draga af henni.
Meðal helstu niðurstaðna rannsóknarinnar voru:
Helstu áskoranir spjaldtölva snúa að því að setja mörk um notkun, fækka tæknilegum hindrunum og skoða aðra möguleika á verkfærum fyrir nemendur.
Ábendingum um áframhaldandi þróun eru settar fram í skýrslu um rannsóknina í ljósi niðurstaðna og í tengslum við Menntastefnu Kópavogs og stefnumótun á erlendum vettvangi. Ábendingar varða helst stefnu og sýn, kennsluhætti, stafræna borgaravitund og innviði.
Grænkerafæði
Grænkerafæði varð formlega valkostur í grunnskólum í Kópavogi vorið 2023 en þá gátu foreldrar skráð börn sín í grænkerafæði í skráningarkerfi mötuneyta. Komið hafði verið á móts við óskir grænkera í skólum bæjarins fram að því með óformlegri hætti.
Við undirbúning á markvissri innleiðingu á grænkerafæði í skólum var matreiðslumönnum í grunnskólum boðið upp á námskeið og gerð var gæðaúttekt í mötuneytum sem lauk vorið 2022.
Í tengslum við innleiðingu í mötuneytum eru reglulegir fundir hjá matreiðslumönnum grunnskólanna, endurmenntun og fræðsla. Könnun sem gerð var fyrir breytingar sýndi að á bilinu tveir til átta nemendur velja vegan fæði í hverjum skóla.
Fjölbreytni í fæðuvali var sett á dagskrá af börnum bæjarins og meðal annars til umfjöllunar í ungmennaráði Kópavogs og tillögum þess til bæjarstjórnar.
Atvinnulífið blómstrar í Kópavogi en fjöldi fyrirtækja í sveitarfélaginu árið 2023 var 2.658, launþegar voru 19.657 og velta fyrirtækja í Kópavogi 2022 voru tæplega 739 milljarðar. Árið 2022 jukust tekjur óvenju mikið líkt og árið 2021. Ástæðuna má einkum rekja til viðsnúnings í ferðaþjónustu en tekjur í greininni náðu aftur sömu hæðum árið 2022 og fyrir kórónuveirufaraldurinn.
Formleg opnun nýrra skíðamannvirkja í Bláfjöllum fór fram í byrjun desember árið 2023 þegar fulltrúar sveitarfélaga vígðu nýjar stólalyftur, Drottningu og Gosa.
Framkvæmdirnar eru samkvæmt samkomulagi um viðamikla uppbyggingu á skíðasvæðunum, en vinna vegna þess hefur staðið yfir á vettvangi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) allt frá árinu 2018. Markmið þessara framkvæmda er að bæta aðstöðu og þjónustu fyrir alla hópa skíðaiðkenda. Verkefnið í heild sinni gekk vel og samkvæmt áætlunum. Frh. á næstu síðu
Auk þess að bæta við stólalyftum var aðstaða til gönguskíðaiðkunar bætt verulega og snjóframleiðslutæki tekið í notkun.
Dagur B. Eggertsson, þáverandi borgarstjóri Reykjavíkur, Ásdís Kristjándóttir, bæjarstjóri og Halla Karen Kristjánsdóttir formaður bæjarráðs Mosfellsbæjar við vígslu nýrrar stólalyftu í Bláfjöllum.
Takk fyrir!
Ábending þín er móttekin