Kæru Kópavogsbúar,
Sjálfbærni er leiðarljós í starfsemi Kópavogsbæjar og endurspeglast sú áhersla vel í Sjálfbærniskýrslu Kópavogs. Skýrslan varpar ljósi á þau fjölbreyttu verkefni sem stuðla að sjálfbærni í starfsemi sveitarfélagsins þó að hún sé ekki tæmandi yfir verkefnin. Stefna Kópavogsbæjar felur í sér innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem byggja á jafnvægi á milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar, hinna efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu.
Hjá Kópavogsbæ hefur verið staðið vörð um ábyrgan rekstur þar sem aðhalds er gætt í rekstri, skuldir hafa lækkað og álögum er stillt í hóf. Traustur rekstur er forsenda þess að unnt sé að veita sveigjanlega og góða þjónustu sem mætir þörfum íbúa.
Meðal þess sem við erum stolt af í Kópavogi er að við erum barnvænt sveitarfélag og hefur bærinn hlotið viðurkenningu UNICEF þess efnis. Um 50% útgjalda bæjarins á árinu 2022 fór til mennta-, æskulýðs- og íþróttamála. „Okkar skóli“ er dæmi um verkefni sem fellur undir þann hatt. Verkefnið miðar að því að efla lýðræðislega virkni barna og ungmenna með því að gefa þeim tækifæri til að móta og þróa eigin skólaumhverfi. Hver skóli fær fjármagn sem börnin ráðstafa sjálf. Þar með fá börnin ákvörðunarrétt um hvernig þau vilja nýta árlega fjárhæð til að bæta aðstöðu í skólanum.
Íbúar í bænum eru heilt yfir ánægðir með þjónustu sveitarfélagsins og hefur þróunin verið jákvæð síðustu árin. Samkvæmt niðurstöðum þjónustukönnunar Gallup í Kópavogi fyrir árið 2022 eru 89% íbúa sveitarfélagsins ánægðir með sveitarfélagið sem stað til að búa á. Sveitarfélagið er jafnframt á réttri leið í átt að sjálfbærni þegar horft er til þróunar á Heimsmarkmiðavísitölu Kópavogs.
Þess má geta að samhliða gerð þjónustukönnunar sveitarfélaga þá hefur Gallup spurt úrtak íbúa Kópavogsbæjar um hvort þeir þekki til eða hafi heyrt af Heimsmarkmiðum SÞ um sjálfbæra þróun þrjú ár í röð, 2020-2022. Niðurstaðan er sú að 83% íbúa þekkir eða hefur heyrt um Heimsmarkmiðin (70% 2021, 77% 2020). Það er ánægjulegt að sjá að vaxandi hópur íbúa á öllum aldri er vel meðvitaður um Heimsmarkmiðin og unga fólkið leiðir þar hópinn.
Við höfum sett íbúa í öndvegi og teljum innleiðingu Heimsmarkmiðanna hjálpa okkur við það langtímaverkefni að tryggja lífsgæði íbúa.
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi