- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Kópavogsbær var fyrsta sveitarfélagið til þess að gera ráð fyrir Heimsmarkmiðunum i aðalskipulagi sínu. Aðalskipulag Kópavogs 2019-2040 var samþykkt og staðfest í bæjarstjórn Kópavogs árið 2021.
Í samræmi við áherslur í aðalskipulagi þá var á árinu 2022 gert áhættumat við deiliskipulag í Vatnsendahvarfi til að meta möguleg áhrif loftslagsbreytinga. Til að bregðast við því áhættumati þá er til dæmis gert ráð fyrir blágrænum ofanvatnslausnum í formi grænna þaka á fjölbýlishúsum í deiliskipulagi svæðisins.
Borgarlínan er afrakstur samvinnu innan SSH. Um er að ræða tímamótasamkomulag um metnaðarfulla uppbyggingu á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu til fimmtán ára.
Samningur um hönnun á nýrri brú yfir Fossvog er hluti vinnu við uppbyggingu Borgarlínunnar en slíkur samningur var gerður við EFLU og BEAM Architects á árinu þar sem félögin voru hlutskörpust í hönnunarsamkeppni Vegagerðarinnar um smíði brúarinnar. Nýja brúin er ætluð gangandi og hjólandi vegfarendum, ásamt því að vera lykillinn að leið Borgarlínunnar yfir Fossvog. Hún lokar 5 km hring um hið vinsæla útivistarsvæði í Fossvogi og eykur notagildi og aðdráttarafl svæðisins. Sjá nánar í frétt.
Haustið 2022 hófust síðan fyrstu framkvæmdir vegna Borgarlínunnar þegar byrjað var á landfyllingu fyrir nýja Fossvogsbrú en gert er ráð fyrir að hún verði tilbúin í lok ársins 2024. Undanfarið hafa tímaáætlanir framkvæmda vegna fyrstu lotu Borgarlínunnar verið til endurskoðunar hjá Verkefnastofu Borgarlínunnar. Nokkur veigamikil atriði hafa áhrif þar á. Uppfærðar áætlanir miða við að framkvæmdalok fyrstu lotu verði tvískipt og að leggurinn Hamraborg – Miðbær verði tilbúinn árið 2026 og leggurinn Ártúnshöfði – Miðbær verði tilbúinn 2027.
Kópavogur vill auka gróðursetningu og skógrækt sem stuðlar að kolefnisbindingu með samstarfi við félagasamtök. Haldið er utan um fjölda gróðursettra trjáa, runna og græðlinga í bænum og voru um 15.000 tré og runnar gróðursett á árinu 2022. Á árinu 2022 efndi Kópavogsbær til útivistar- og fjölskyldudagsins Líf í lundi í samstarfi við Skógræktarfélag Kópavogs þar sem hvatt var til hreyfingar, samveru og skógar- og náttúruupplifunar. Gengið var út á Vatnsendaheiði undir leiðsögn og hugað að gróðri og sögu. Á heiðinni var horft til framtíðar og gróðursettar trjáplöntur í þágu aukinna lífsgæða. Að gróðursetningu lokinni var farið til baka í Guðmundarlund og notið dagsins. Í lundinum er meðal annars 10 brauta frísbígolfvöllur, leiktæki og 9 holu minigolfvöllur og inni í miðjum lundinum er Hermannsgarður, lítill og vinalegur blómagarður með steinbeðum, stígum og bekkjum og svo er það auðvitað skógurinn sjálfur sem býður upp á mikla möguleika til leikja og útivistar.
Skógræktarfélag Kópavogs efndi á árinu 2022 í samstarfi við Kópavogsbæ til birkifrætínslu. Safnast var saman við fræðslusetrið í Guðmundarlundi þar sem stutt fræðsla fór fram um hvernig best er að standa að söfnun og sáningu birkifræja. Að fræðslu lokinni var gengið út í skóg og fræi safnað. Að lokinni frætínslu gat fólk annað hvort skilið fræin eftir hjá Skógræktarfélaginu eða skilað þeim í fræsöfnunarkassa í Bónusverslunum og Olís-stöðvum. Þá gat fólk líka tekið fræin sín með sér heim og valið eigin svæði til sáninga. Þeim fræjum sem safnað var verður sáð í örfoka land, meðal annars í upplandi Kópavogs. Með því að klæða örfoka landsvæði birkiskógi stöðvast kolefnislosun og binding hefst í staðinn. Átakið snýr að bæði loftslags- og umhverfisvernd og er liður í því að breiða út á ný birkiskóglendi sem þakti a.m.k. fjórðung landsins við landnám en þekur einungis 1,5% lands í dag. Markmið stjórnvalda er að birki vaxi á fimm prósentum landsins árið 2030. Sjá nánar.
Markmið Kópavogsbæjar er að nýta orku á hagkvæman hátt og draga úr notkun hennar eins og mögulegt er. Fyrirtæki, íbúar og starfsfólk Kópavogs er hvatt til orkusparandi umgengni bæði hvað varðar raforku og hitaveitu. Við endurnýjun stærri tækja Kópavogs er hugað að orkusparandi tækjum. Vel er fylgst með orkunotkun í stofnunum sveitafélagsins til þess m.a. að lækka rekstrarkostnað bæjarins ásamt því að stuðla að umhverfisvænna sveitarfélagi. Leitast hefur verið við að minnka orkunotkun í stofnunum bæjarins, meðal annars með því að skipta út hefðbundinni lýsingu fyrir LED lýsingu. Á árinu 2022 hófst útskipting hefðbundinnar lýsingar í götulömpum yfir í LED lýsingu.
Kópavogsbær stefnir að því að ná fram samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Íbúar, fyrirtæki og hagsmunaaðilar innan bæjarfélagsins eru hvött til þess að vinna að umhverfismálum, lágmarka úrgang, draga úr losun og stuðla að umhverfisvænum lífsháttum. Allar aðgerðir hafa áhrif á framgang sveitarfélagsins við að ná loftslagsmarkmiðum sínum.
Þann 13. desember 2022 samþykkti bæjarstjórn sameiginlega loftslagsstefnu fyrir höfuðborgarsvæðið þar sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu stefna að því að höfuðborgarsvæðið verði kolefnishlutlaust í síðasta lagi árið 2035. Það þýðir að það ár verði reiknuð heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á svæðinu, að landnotkun meðtalinni, ekki meiri en sem nemur reiknaðri bindingu kolefnis.
Á síðasta ári fór fram undirbúningur að innleiðingu á nýju flokkunarkerfi á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum þar sem fjórum úrgangsflokkum verður safnað við hvert heimili. Meðal annars munu öll heimili fá tunnu fyrir matarleifar en tunnur fyrir nýja flokka berast heimilum á vormánuðum. Sjá nánar á flokkum.is
Samræming sorphirðukerfis á höfuðborgarsvæðinu er framfaraskref sem mun skipta miklu máli í baráttunni gegn loftslagsvánni og fyrir innleiðingu hringrásarhagkerfisins á Íslandi. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu munu taka upp fjögurra tunnu kerfi sem þýðir að söfnun fer fram heim að dyrum fyrir pappírs- og pappaúrgang, plast, lífrænan úrgang og blandaðan úrgang við hvert heimili. Innleiðing þessa kerfis hefst á vormánuðum.
Leitast verður við að íbúar finni sem minnst fyrir breytingunum og verður tunnum skipt út þegar innleiðing hefst. Fyrir flest heimili mun lítið breytast varðandi fjölda tunna þar sem mörg heimili flokka nú þegar plast og pappír. Stærsta breytingin er sú að öll heimili fá tunnu fyrir matarleifar og verður þeim safnað í bréfpoka sem sveitarfélögin útvega. Pokarnir hafa gefist mjög vel á Norðurlöndunum og skipta lykilmáli til þess að hægt verði að vinna nothæfa moltu úr matarleifunum. Þá munu sveitarfélögin útvega íbúum ílát til að safna matarleifum inn á heimilum.
Á meðal þeirra áskorana sem Kópavogur stendur frammi fyrir við innleiðingu Heimsmarkmiðanna er að huga að ábyrgri neyslu og magni úrgangs í samræmi við Heimsmarkmið 12.
Heildarmagn úrgangs í sveitarfélaginu á mann má skoða í samhengi við stöðu landa í gagnagrunni OECD. Á línuritinu hér að neðan má sjá að staðan í Kópavogi fylgir sömu þróun og á Íslandi í heild sinni. Einnig má sjá að heildarmagn úrgangs á mann á Íslandi og í Kópavogi er lægra en í Danmörku síðustu ár en þar hefur orðið samdráttur í úrgangsmagni síðust ár. Samanborið við Japan er þó úrgangsmagn á mann rúmlega tvöfalt meira í Kópavogi en þar. Kópavogur er vel yfir meðaltali OECD árið 2020 en það er 533,7 kg á mann og þróunin er sú að bilið sé að aukast.
Takk fyrir!
Ábending þín er móttekin