- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Kópavogsbær vinnur að innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Í stefnupýramída Kópavogsbæjar eru íbúar í öndvegi og innleiða á til árangurs við það langtímaverkefni að tryggja lífsgæði íbúa.
Samhliða gerð þjónustukönnunar sveitarfélaga þá hefur Gallup spurt úrtak íbúa Kópavogsbæjar um hvort þeir þekki til eða hafi heyrt af Heimsmarkmiðum SÞ um sjálfbæra þróun þrjú ár í röð, 2020, 2021 og 2022. Niðurstaðan er sú að 83% íbúa þekkir eða hefur heyrt um Heimsmarkmiðin (70% 2021, 77% 2020). Vaxandi hópur íbúa á öllum aldri er því vel meðvitaður um Heimsmarkmiðin og unga fólkið leiðir þar hópinn.
Samkvæmt niðurstöðum þjónustukönnunar Gallup í Kópavogi 2023 fyrir árið 2022 eru 89% íbúa sveitarfélagsins ánægðir með sveitarfélagið sem stað til að búa á. Þróun ánægju með sveitarfélagið sem stað til að búa á hefur verið jákvæð síðustu þrjú árin. Ánægja með þjónustu sveitarfélagsins á heildina litið mældist 80% og stendur í stað þriðja árið í röð. Sveitarfélagið virðist einnig á réttri leið í átt að sjálfbærni þegar horft er til þróunar Heimsmarkmiðavísitölunnar en frá árinu 2018 hefur vísitalan hækkað úr 67,67 í 68,74. Á meðfylgjandi mynd má sjá þróun Heimsmarkmiðavísitölu Kópavogs.
Kópavogsbær hóf á árinu 2022 að móta verklag fyrir lýðræðisverkefnið „Okkar skóli“ og innleiða það í öllum leik- og grunnskólum Kópavogs. Markmið aðgerðarinnar er að efla lýðræðislega virkni barna í mótun og þróun eigin skólaumhverfis með því að gefa nemendum í leik- og grunnskólum ákvörðunarrétt um hvernig þau vilja nýta ákveðna fjárupphæð árlega til að bæta aðbúnað í skólunum. Markviss uppbygging þekkingar, hæfni og viðhorfa styrkir getu barna til þess að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í jafnréttis- og lýðræðisþjóðfélagi. Með ástundun lýðræðis í öllu námi eflist félagsfærni og börn læra að hlusta og bera virðingu fyrir ólíkum skoðunum og móta sínar eigin. Sérstaklega verði hugað að mótun leiða til þess að hlusta á raddir barna og þau hvött til áhrifa og ábyrgðar um málefni sem varða þeirra eigið líf, nám og mótun samfélags. Sjá nánar.
Kópavogur er Barnvænt sveitarfélag og tók fyrst við viðurkenningu sem slíkt frá UNICEF á Íslandi og félags- og barnamálaráðuneyti á árinu 2021. Sú viðurkenning var staðfest í byrjun ársins 2023 eftir að stöðumat á verkefninu hafði farið fram. Barnvæn sveitafélög eru alþjóðlegt verkefni (e. Child Friendly Cities) sem hefur það að markmiði að bæta aðstæður barna og tryggja að ávallt sé tekið tillit til réttinda þeirra samkvæmt Barnasáttmála við gerð stefnu, verkefna eða við aðra ákvarðanatöku. Með Barnvænu sveitarfélagi er leitað leiða til þess að auka lýðræði meðal grunnskólabarna og ungs fólks í Kópavogi.
Þátttaka barna í málefnum bæjarins er ein mikilvægra aðgerða við innleiðingu Barnasáttmálans. Fyrsta barnaþing Kópavogs var haldið í mars 2022 en barnaþingið skapar tækifæri fyrir börn á grunnskólaaldri að koma með tillögur til bæjarstjórnar um hvað má betur fara í bænum. Skólarnir héldu síðan ýmsar útfærslur af skólaþingum. Fjórar tillögur voru lagðar fram fyrir hönd hvers skóla og unnið var með sex tillögur á barnaþinginu. Í framhaldi fengu allir nemendur grunnskóla Kópavogs tækifæri til að tjá sig um tillögur skólanna í rafrænu umsagnarferli. Barnaþingmennirnir fóru að því loknu fyrir bæjarstjórn með valdar tillögur, kynntu þær og bæjarstjórn tók afstöðu til þeirra. Niðurstöður bæjarstjórnar voru síðan kynntar fyrir grunnskólum Kópavogs.
Lög um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna tóku gildi 1. janúar 2022 . Markmið laganna er að börn og foreldrar, sem á þurfa að halda, hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana þegar þörfin verður ljós og að tryggt sé að samstarf í kringum börn og fjölskyldur á Íslandi sé í skýrum farvegi. Leiðarljósið er að sameiginleg lausnaleit fari fram með snemmtækum stuðningi í stað þess að málum sé vísað á milli þjónustuveitenda.
Kópavogsbær býr að því sem undanfara innleiðingar laga um farsæld að hafa síðustu ár verið með markvisst samstarf á milli velferðarsviðs og menntasviðs sem kallast Fléttan. Afrakstur þessa samstarfs leiddi meðal annars til þess að á árinu 2021 var verkefnastjóri snemmtæks stuðnings og samfelldrar þjónustu ráðinn. Hann hefur farið inn í alla grunnskóla og velflesta leikskóla með fræðslu um stuðning velferðarsviðs við börn og fjölskyldur og átt gott samtal um velferð barna.
Í Kópavogi er innleiðing nýju laganna samstarfsverkefni mennta-og velferðarsviðs og stofnað var innleiðingarteymi samþættingar þjónustu með aðkomu beggja sviða. Teymið hefur gengið rösklega til verks þar sem mikilvægt er að skapa sameiginlegan skilning þeirra sem að innleiðingunni koma. Haldnir hafa verið kynningarfundir fyrir stjórnendateymi allra leik- og grunnskóla auk sérfunda með þeim sem við á.
Leik- og grunnskólar í Kópavogi hafa skilgreint tengiliði og gengið hefur verið frá ráðningu málastjóra sem staðsettir eru á velferðarsviði. Rafræn beiðni um samþættingu þjónustu er komin í loftið sem fyllt er út í samstarfi foreldra, barna og tengiliðs eða málstjóra. Formleg samþætting í málum barna er hafin bæði í leik- og grunnskólum Kópavogs.
Nokkrir leik- og grunnskólar eru lagðir af stað í spennandi þróunarvinnu við að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og munu að því loknu verða Réttindaleik- og grunnskólar UNICEF. Réttindaleik- og grunnskólar UNICEF leggja áherslu á að byggja upp lýðræðislegt umhverfi með því að rækta með markvissum hætti þekkingu, leikni og viðhorf sem hjálpa börnum að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í nútímasamfélagi. Börn og ungmenni læra um mannréttindi sín í leik og starfi. Réttindum barna er fylgt eftir í skipulagi skólanna og birtast í samskiptum við önnur börn, kennara, starfsfólk, foreldra og frístundaleiðbeinendur. Í upphafi fór allt starfsfólk viðeigandi stofnana á kynningarfund hjá UNICEF.
Leikskólar í Kópavogi eru frumkvöðlar í því að verða réttindaskólar á leikskólastigi og hafa í samvinnu við UNICEF unnið og þróað réttindaskólaverkefnið að starfi leikskólanna. Fimm leikskólar í Kópavogi, Álfatún, Baugur, Efstihjalli, Grænatún og Lækur hófu í janúar innleiðingarferli UNICEF í að verða réttindaleikskólar og voru þeir fyrstu á heimsvísu sem eru réttindaleikskólar UNICEF.
Verkefnið byggir á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og er alþjóðlegt verkefni sem snýst um að auka virðingu, vernd og framkvæmd mannréttinda.
Vatnsendaskóli og Snælandsskóli eru orðnir réttindaskólar UNICEF og var viðurkenning þess efnis afhent á árinu. Nemendur skólanna hafa fengið fræðslu um sáttmálann, réttindi sín og réttindi barna um allan heim. Á myndinni má sjá þegar fulltrúar frá UNICEF á Íslandi komu og veittu Vatnsendaskóla viðurkenninguna að viðstöddum nemendum skólans, starfsfólki og velunnurum.
Á myndinni má sjá þegar fulltrúar frá UNICEF á Íslandi komu og veittu Vatnsendaskóla viðurkenninguna að viðstöddum nemendum skólans, starfsfólki og velunnurum.
Góð þátttaka hefur verið í sumarnámskeiðinu Velkomin sem ætlað er börnum og ungmennum sem eru nýir íbúar í Kópavogi og hafa annað móðurmál en íslensku. Námskeiðið sem hefur aðstöðu í félagsmiðstöðinni Kjarnanum í Kópavogsskóla hefur verið haldið í Kópavogi frá árinu 2018 en er í sífelldri þróun hjá tveimur deildum menntasviðs, grunnskóla- og frístundadeild.
Námskeiðið miðar að því að bjóða börn og ungmenni sem hafa annað móðurmál en íslensku og eru ný í samfélaginu velkomin í skólann, félagsmiðstöðina, ungmennahúsið, Vinnuskólann, íþróttafélögin og samfélagið. Markmið námskeiðsins er að virkja börn og ungmenni á aldrinum 10-20 ára til þátttöku í samfélaginu. Boðið er meðal annars upp á vettvangsheimsóknir, óhefðbundna íslenskukennslu og fjölmenningarfræðslu á námskeiðinu.
Verkefnið spannar nokkra daga sitt hvoru megin við sumarfrí þar sem unglingar úr 7. til 10. bekk fá að kynnast starfsemi félagsmiðstöðva og íþróttafélaga og annarri afþreyingu sem þeim býðst í Kópavogi. Lögð er áhersla á félagslega þáttinn, virkni og þátttöku en einnig á menningar- og tungumálanám, þau læra um framandi menningu um leið og fjöltyngd tungumálakennsla fer fram, með áherslu á íslensku og orðaforðabanka.
Hæfingu, starfsþjálfun og verndaðri vinnu er ætlað að veita fötluðu fólki þjálfun og stuðning sem miðar að því að auka hæfni þess til starfa og þátttöku í daglegu lífi eða á almennum vinnumarkaði. Með hæfingu er átt við starfs- og félagsþjálfun í þeim tilgangi að draga úr áhrifum fötlunar og auka hæfni til starfa og þátttöku í daglegu lífi. Lögð er áhersla á þjálfun sem viðheldur og eykur starfsþrek, sjálfstæði í vinnubrögðum og félagslega færni.
Skólar og leikskólar í Kópavogi tóku þátt í dagskrá í sínu skólahverfi á baráttudegi gegn einelti á árinu 2022. Hefð er fyrir því hjá skólum í Kópavogi að minna á mikilvægi vináttu og nauðsyn þess að berjast gegn einelti. Meðal þess sem bryddað var upp á í tilefni dagsins var ganga um skólahverfi þar sem leik- og grunnskólar sameinuðust. Leikskólabörn heimsóttu skóla, sungið var saman og dansað, ýmist inni eða úti. Þá var unnið að verkefnum sem tengjast vináttu, jákvæðum samskiptum og baráttu gegn einelti.
Hinsegin klúbbur er starfræktur í félagsmiðstöðinni Ekkó í Kársnesskóla og hefur mæting í klúbbinn verið góð. Klúbburinn hlaut meðal annars viðurkenningu frá Menntaráði Kópavogsbæjar, Kópinn, fyrir gott starf. Starfið er mikilvægur stuðningur við hinsegin ungmenni bæjarins, en klúbburinn er opinn öllum sem vilja taka þátt. Klúbburinn er starfræktur alla miðvikudaga og skipuleggja þátttakendur dagskrána sjálfir með aðstoð starfsfólks. Samstarf hefur einnig myndast á milli Kópavogs og Hafnarfjarðar, og í þeirri samvinnu er horft til þess að sveitarfélögin skiptast á að bjóða í hinsegin opnanir, en góð mæting hefur verið í þær opnanir. Stefnt er að því að bjóða upp á hinsegin opnanir með Hafnarfirði einu sinni í mánuði, og annan hvorn fimmtudag í Hinsegin hittinga í Hafnarfirði.
Kópavogsbær leggur áherslu á lýðheilsu í sveitarfélaginu. Um er að ræða fjórar stefnuáherslur: umhverfi, geðrækt, næringu og hreyfingu ásamt forvörnum og heilsueflingu. Gert er ráð fyrir lýðheilsumati í lýðheilsustefnu Kópavogsbæjar sem samþykkt var á árinu 2022 en lýðheilsumat er aðferðafræði til að leggja mat á áhrif stefnu eða verkefna á heilsu og velferð íbúa eða íbúahópa. Þannig er lýðheilsumat tæki til að bæta ákvarðanatöku í stefnumótandi starfi.
Kópavogsbær hefur frá árinu 2015 verið þátttakandi í verkefninu Heilsueflandi samfélagi sem Embætti landlæknis heldur úti. Í því felst að leggja áherslu á lýðheilsumál í víðu samhengi innan sveitarfélagsins meðal starfsfólks og íbúa. Áhersla hefur verið lögð á útvistarmöguleika íbúa þar með talið uppbyggingu göngu- og hjólastíga til að hvetja til vistvænna samgangna. Einnig hafa verið lagðar gönguskíðabrautir í Kópavogi á tveimur stöðum, annars vegar á Kópavogstúni og hins vegar við kirkjugarðinn við Lindakirkju.
Fyrir aðra aldurshópa má nefna að fimm ára börn í Kópavogi fá 85.000 króna frístundastyrk 2023 sem er veruleg hækkun frá fyrra ári. Hugmyndin er að þau geti iðkað að minnsta kosti eina íþrótt eða aðra tómstund foreldrum að kostnaðarlausu. Börn í Kópavogi á aldrinum 6-18 ára fá 56.000 kr. frístundastyrk og er upphæðin óbreytt á milli ára. Nánar um frístundastyrki.
Gönguskíði er ein þeirra almenningsíþrótta sem notið hafa mikilla vinsælda á undanförnum árum. Til þess að koma til móts við það voru lagðar gönguskíðabrautir í Kópavogi á tveimur stöðum. Annars vegar á Kópavogstúni og hins vegar við kirkjugarðinn við Lindakirkju.
Á árinu 2020 var ákveðið að fara í samstarf við þrjú stærstu íþróttafélögin í Kópavogi, Gerplu, HK og Breiðablik, um verkefnið Virkni og vellíðan. Verkefnið miðar að því að eiga samstarf um skipulagða hreyfingu og heilsueflingu eldri borgara í sveitarfélaginu og er m.a. unnið í samstarfi við Háskólann í Reykjavík að heilsufarsmælingum þátttakenda. Verkefnastjóri með viðeigandi menntun og reynslu, stýrir verkefninu í félögunum og skipuleggur dagskrá, viðburði og æfingar. Markmið verkefnisins er að styrkja líkamlega, andlega og félagslega heilsu eldri borgara í Kópavogi, að bæta nýtingu íþróttamannvirkja í Kópavogi, að nýta sérþekkingu sem er til staðar hjá félögunum og að efla samstarf og samvinnu íþróttafélaganna í Kópavogi.
Fjölbreytt framboð á hreyfingu fyrir eldri borgara í Kópavogi hefur haft jákvæð áhrif á heilsu og líðan íbúahópsins. Þetta kemur fram í fyrsta lýðheilsumati Kópavogsbæjar en í því felst mat á hreyfiþjálfun meðal eldri borgara sem hefur verið í gangi síðastliðin þrjú ár. Áfram verður fylgst með þróuninni meðal annars með tilliti til jafnræðis og meðal annars er stefnt að því að stofna göngu- eða hjólahópa undir leiðsögn þjálfara þar sem komið verður við á einhverjum af þeim fjölmörgu æfingastöðvum sem bærinn hefur sett upp fyrir íbúa.
Virkni og vellíðan er hluti af aukinni áherslu Kópavogsbæjar á heilsueflingu eldri borgara og aukinni heimaþjónustu. Heimaþjónusta velferðarsviðs tók árið 2021 upp nýtt verkefni í velferðatækni sem heitir DigiRehab. Í því felst að heimahreyfing og virkni eldri borgara sem dvelja mikið heima fyrir er efld með aðstoð starfmanna heimaþjónustu. Sérsniðið æfingakerfi er sett upp í spjaldtölvu fyrir hvern og einn notanda sem nýtur stuðnings starfsmanns heimaþjónustu við æfingarnar. Þessi tvö verkefni eru meginstoðir aukinnar áherslu á heilsueflingu eldri borgara í Kópavogi.
Verkefnið Okkar Kópavogur, er lýðræðis- og samráðsverkefni sem snýst um að bæta og fegra Kópavog í beinu samráði við íbúana og kemur það bæði inn á ný verkefni og forgangsröðun eldri verkefna. Alls er 200 milljónum króna skipt á milli fimm bæjarhluta á tveggja ára fresti og þær settar í framkvæmdir sem íbúar leggja til í hugmyndasöfnun. Tilgangur verkefnisins er að bæta tengsl bæjaryfirvalda við íbúa, færa íbúum aukna ábyrgð og virkja þá í aukinni þátttöku í ákvarðanatöku um forgangsröðun fjármuna og framkvæmdir í bænum, ásamt því að hafa áhrif á bætta líðan og upplifun bæjarbúa í nærsamfélaginu. Jafnframt er tilgangurinn að gera Kópavog vistlegri, skemmtilegri og fjölbreyttari.
Rafrænar kosningar stóðu yfir í tvær vikur í janúar og febrúar á árinu 2022 og komust alls 26 hugmyndir áfram af 94 sem fóru í kosningu. Metþátttaka var í hugmyndasöfnuninni og hófust einhverjar framkvæmdir á árinu. Seinni hluti hugmyndanna verður framkvæmdur á þessu ári. Hér má sjá þær hugmyndir sem hlutu kosningu á árinu 2022. Þetta var í fjórða sinn sem ráðist var í verkefnið Okkar Kópavogur.
Rampur númer 200 í verkefninu Römpum upp Ísland var tekinn formlega í notkun í Hamraborg í Kópavogi á árinu 2022. Unnið var að því að rampa upp Hamraborgina og lögð var áhersla á það í verkefninu að setja rampa við staði þar sem mannlíf er mikið og bæta aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu, verslun og veitingahúsum.
Öflugt og fjölbreytt starf í menningu og listum styrkir bæjarbrag, eykur víðsýni, örvar samfélagið í heild og þar með efnahagslega framþróun þess. Ný menningarstefna leit dagsins ljós á árinu og var samþykkt á fundi bæjarstjórnar í maí. Menningarstefnan, líkt og aðrar stefnur, grundvallast á heildarstefnu Kópavogsbæjar sem samanstendur af hlutverki, framtíðarsýn, gildum og yfirmarkmiðum sem eru fengin úr Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Stefnan var unnin í samstarfi lista- og menningarráðs og starfsfólks menningarmála, samþykkt og lögð fyrir nefndir og ráð allra sviða. Hér má sjá stefnuna í heild sinni.
Lista- og menningarráð Kópavogsbæjar úthlutaði á síðasta ári alls fimmtán milljónum til 26 umsækjenda vegna lista- og menningarverkefna sem koma til framkvæmda í bæjarfélaginu á þessu ári. Hæsta styrk ráðsins kr. 5.000.000 hlaut Menningarfélagið Rebel Rebel til að standa fyrir listahátíðinni Hamraborg Festival í ágúst á næsta ári. Þetta er í þriðja sinn sem hátíðin er haldin og hefur henni vaxið fiskur um hrygg frá ári til árs. Sjá fréttatilkynningu.
Menningarhúsin í Kópavogi höfðu frumkvæði að alþjóðlegu samstarfsverkefni, Vatnsdropanum, fyrir fjórum árum síðan og hefur hlotið styrki frá Norræna menningarsjóðnum, Menntaáætlun norrænu ráðherranefndarinnsar (Nordplus), Opstart, Menningarsjóði Kópavogs og Barnamenningarsjóði Íslands. Eitt meginstef Vatnsdropans er að tengja saman boðskap og gildi Heimsmarkmiðanna við sígild skáldverk barnabókahöfunda á borð við Tove Jansson, Astrid Lindgren og H.C. Andersen. Höfunda sem hafa kennt lesendum að bera virðingu fyrir náttúrunni, gefið innsýn í heim þeirra sem minna mega sín og hvernig má koma þeim til hjálpar. Verkefnið vinnur aðallega að markmiðum og mælingum Heimsmarkmiða 14 og 15 og er unnið í góðu samstarfi við skólana. Meira um Vatnsdropann.
Á árinu 2022 unnu sautján börn á aldrinum 8-15 ára að undirbúningi ráðstefnunnar Ungir sýningarstjórar. Þau skipulögðu ráðstefnu sem síðan var haldin snemma á árinu 2023. Á ráðstefnuna fengu ungu sýningarstjórarnir til sín þjóðþekkta einstaklinga úr ólíkum áttum til að ræða þær áherslur sem lagðar verða í Vatnsdropanum. Verkefnin snúa að sameiginlegum gildum höfundaverka hinna norrænu rithöfunda við Heimsmarkmið nr. 5 um jafnrétti kynjanna og nr. 11 um sjálfbærar borgir og samfélög ásamt umhverfismálum. Mikil eftirspurn er eftir þátttöku í Vatnsdropanum og hefur verkefnið margfaldast að vexti og umfangi. Verkefninu mun ljúka með útgáfu á aðferðafræði sem aðrar menningarstofnanir geta nýtt sér í framtíðinni.
Fjölbreytt dagskrá var síðan á barnamenningarhátíð sem haldin var á vormánuðum. Á dagskránni var m.a. sýning á verkum 120 leikskólabarna í barnadeild Bókasafns Kópavogs. Sýningin byggir á norrænum ævintýrum og fékkst hugmyndin að sýningunni úr Vatnsdropanum.
Í byrjun apríl 2023 var Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins formlega stofnuð en undirbúningur hefur staðið yfir í nokkur ár. Markaðsstofan er áfangastaðastofa fyrir höfuðborgarsvæðið allt og eru stofnaðilar Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) og Ferðamálasamtök höfuðborgarsvæðisins. Markaðsstofan er vettvangur til þess að markaðssetja og þróa áfangastaðinn höfuðborgarsvæðið í heild og ná þannig betri árangri. Stofnun áfangastaðastofu fyrir höfuðborgarsvæðið er lokaáfangi á ferli sem hófst fyrir um áratug. Verkefninu, sem í upphafi var kallað stefnumarkandi stjórnunaráætlanir, var fundinn farvegur innan Vegvísis í ferðaþjónustu, sem stjórnvöld unnu ásamt greininni og var Ferðamálastofu og Stjórnstöð ferðamála falin umsjón þess. Í kjölfarið var unnin mjög umfangsmikil stefnumótunar- og skipulagsvinna um allt land.
Atvinnulífið blómstrar í Kópavogi en fjöldi fyrirtækja í sveitarfélaginu árið 2022 var 2.516, launþegar voru 18.275 og velta fyrirtækja í Kópavogi 2021 voru 590 milljarðar.
Takk fyrir!
Ábending þín er móttekin