Frá bæjarstjóra f.h. starfshóps um húsnæðismál stjórnsýslu Kópavogsbæjar, dags. 8. desember, lögð fram tillaga varðandi húsnæði undir bæjarskrifstofur Kópavogs. Hópurinn leggur til að bæjarstjórn velji milli tveggja kosta. Kostur 1, að ráðist verði í viðhald á Fannborg 2 strax og jafnframt verði mögulegar breytingar á skipulagi svæðisins skoðaðar. Kostur 2, að hafnar verði annars vegar viðræður um nýtt húsnæði í Norðurturni við Smáralind og hins vegar viðræður um nýtt húsnæði við Smáratorg. Jafnframt verði leitað samninga um sölu á fasteignum í Fannborg og mögulegar breytingar á skipulagi svæðisins skoðaðar.
Frá Pétri Hrafni Sigurðssyni bæjarfulltrúa, lögð fram breytingartillaga á ofangreindri tillögu starfshóps um húsnæðismál stjórnsýslu Kópavogsbæjar, sem er samhljóða en við bætist kostur 3, að byggt verði hús sem hannað verður fyrir stjórnsýslu Kópavogsbæjar á lóð bæjarins fyrir framan menningar- og tómstundamiðstöðina Molann að Hábraut 2. Hluti bæjarskrifstofanna verði staðsettar í núverandi húsnæði Molans. Jafnframt verði leitað samninga um sölu á fasteignum í Fannborg og mögulegar breytingar á skipulagi svæðisins skoðaðar.
Frá bæjarstjóra, lagðar fram teikningar af tillögum arkitekta að nýjum bæjarstjórnarskrifstofum í húsakynnum gamla Kópavogshælisins ásamt kostnaðaráætlun. Einnig lögð fram kostnaðaráætlun Mannvits um Mola-ráðhús. Loks lagt fram bréf deildarstjóra bókhaldsdeildar, dags. 11. febrúar, þar sem lýst er yfir óánægju með aðgerðarleysi bæjarstjórnar í húsnæðismálum stjórnsýslu bæjarins.