Skíðasvæðið í Bláfjöllum

Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti þann 28. september 2021 með tilvísan í 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi skíðasvæðisins í Bláfjöllum. Í breytingunni felst að efri hluta byggingarreits nýrrar stólalyftu Gosa við Suðurgil verði hliðrað um 60-70m til suðurs. Vegna færslu byggingarreits til suðurs færist rör- og rafdreifikerfi fyrir snjóframleiðslu samhliða. Neðri hluta byggingarreits nýrrar stólalyftu Drottningar við Kóngsgil verði hliðrað um 10m til suðurs. Staðsetning hættumatslínu C vegna snjóflóða neðan Suðurgils verði uppfærð í samræmi við nýja legu línunnar frá Veðurstofu Íslands. Byggingarreit aðstöðuhúss Ulls verði hliðrað til suðurs um 30 m auk þess sem hann lengist um 15 m til vesturs. Vegna færslu byggingarreits til suðurs lengist bílastæði til suðurs að nýrri legu byggingarreits. 

Tillagan er sett fram á uppdrætti í mkv. 1:2000 ásamt greinargerð og skýringarmyndum dags. 15. september 2021. Nánar er vísað til kynningargagna.

Kynning hefst þann 1. október 2021 og skal ábendingum og athugasemdum við framlagða tillögu skila skriflega til Skipulagsdeildar Kópavogs, Digranesvegi 1, 200 Kópavogi eða með tölvupósti á skipulag@kopavogur.is fyrir kl. 15:00 mánudaginn  15. nóvember 2021. Eru þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta hvattir til að kynna sér tillöguna.

Skíðasvæðið í Bláfjöllum
Tímabil
1. október 2021 - 15. nóvember 2021