Borgarlínan í Kópavogi 1. lota. Rammahluti aðalskipulags.

Í samræmi við 1. mgr. 36. gr., sbr. 31 gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er tillaga að breyttu skipulagi vegna Borgarlínu í Kópavogi 1. lotu hér með auglýst. 

Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti þann 24. september 2024 að auglýsa tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040, Borgarlína 1. lota: Fossvogsbrú-Hamraborg, samkvæmt 1. mgr. 36. gr., sbr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Tillagan er sett fram sem rammahluti aðalskipulags, sbr. 2. gr. skipulagslaga og gr. 4.9 í skipulagsreglugerð nr. 90/2021. Í rammahlutanum eru stefna og skipulagsákvæði um Borgarlínu útfærð nánar en gert var í áður staðfestri stefnu um hana í Aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040. Í tillögunni eru settar fram almennar forsendur framkvæmda við Borgarlínu, bindandi stefna um legu hennar og staðsetningu kjarnastöðvar, ásamt leiðbeiningum um forgangsröðun ferðamáta og skipulag göturýmis. Jafnframt eru kynnt þau almennu hönnunarviðmið sem líta ber til við útfærslu Borgarlínunnar. Nákvæm útfærsla Borgarlínunnar verður ákvörðuð í deiliskipulagi fyrir hvern legg línunnar. Samhliða auglýsingu tillögunnar, fer fram kynning á umhverfismatsskýrslu framkvæmda við 1. lotu Borgarlínunnar, frá Ártúnshöfða að Hamraborg, sbr. lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021 og sömuleiðis auglýsing samsvarandi tillögu að breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur, fyrir legginn frá Ártúnshöfða að Fossvogsbrú.

Þau sem telja sig eiga hagsmuna að gæta eru hvött til að kynna sér tillöguna. Athugasemdum og ábendingum skal koma á framfæri skriflega í gegnum skipulagsgáttina, mál nr. 1188/2024 fyrir 10. febrúar 2025. Ef óskað er eftir nánari upplýsingum um tillöguna er hægt að senda fyrirspurn á starfsfólk skipulagsdeildar á netfangið skipulag@kopavogur.is.

Vakin er athygli á að kynningarfundur vegna Borgarlínu, sem liggur milli Ártúnshöfða og Hamraborgar, verður haldinn miðvikudaginn 15.janúar kl. 17:00 í safnaðarheimili Kópavogskirkju, Borgum, Hábraut 1A.

Fundurinn er haldinn til kynningar á umhverfismatsskýrslu þessarar fyrstu lotu og til að kynna tillögur að rammahluta aðalskipulags.

Þar er meðal annars fjallað um legu Borgarlínunnar, staðsetningu stöðva og umhverfisáhrif framkvæmda og reksturs Borgarlínunnar. Jafnframt er fjallað um mismunandi útfærslur á hönnun göturýma og forgang virkra ferðamáta og
almenningssamgangna.

Öll velkomin!

Umhverfismatsskýrslan og skipulagstillögurnar eru aðgengilegar í Skipulagsgáttinni þar sem öll geta kynnt sér gögnin og veitt umsögn en gögnin voru sett inn í nóvember. Athugasemdafrestur er til 25. janúar 2025.

Skoða Umhverfismatsskýrslu

Einnig verður haldinn sambærilegur kynningarfundur í Reykjavík fimmtudaginn 9. janúar klukkan 17 í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur.

Borgarlínan í Kópavogi 1. lota. Rammahluti aðalskipulags.
Tímabil
15. nóvember - 10. febrúar 2025.