Arnarnesvegur

Í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér með auglýst tillaga að deiliskipulagi  3. áfanga Arnarnesvegar, frá Rjúpnavegi að Breiðholtsbraut. 

Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti þann 11. janúar 2022 með tilvísan í 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að auglýsa tillögu að deiliskipulagi 3. áfanga Arnarnesvegar. 

Deiliskipulagstillagan nær til þess hluta Arnarnesvegar sem liggur frá gatnamótum Rjúpnavegar að fyrirhuguðum gatnamótum Breiðholtsbrautar og Arnarnesvegar og er um 1,9 km að lengd. Við gatnamót Rjúpnavegar og Arnarnesvegar er gert ráð fyrir nýju hringtorgi sem og við gatnamót Vatnsendavegar og Arnarnesvegar. Þá er gert ráð fyrir fjögurra akreina brú yfir Breiðholtsbraut og tengingu við Breiðholtsbraut með ljósastýrðum gatnamótum. Hluti veghelgunarsvæðis Arnarnesvegar er innan sveitarfélagsmarka Reykjavíkur, en stærsti hluti hans liggur innan sveitarfélagsmarka Kópavogs. Samhliða er gert ráð fyrir stofnstíg, aðskilinn hjóla- og göngustíg, frá Rjúpnavegi í Kópavogi og að Elliðaárdal ásamt tengistígum sem og meðfram Breiðholtsbrautinni og undir fyrirhugaða brú yfir Breiðholtsbraut. Jafnframt er gert ráð fyrir göngubrú / vistloki yfir Arnarnesveginn.
Gert er ráð fyrir undirgöngum eða brú yfir Arnarnesveg við gatnamót Rjúpnavegar og undirgöngum undir Vatnsendaveg nálægt fyrirhuguðu hringtorgi. Mörk skipulagssvæðis Arnarnesvegar skarast við skipulagsmörk í gildandi deiliskipulagi Hörðuvalla frá 2003, Vatnsendahvarfs - athafnasvæðis frá 2001 og Vatnsendahvarfs - athafnasvæðis, svæðis 3 frá 2007 og verða gerðar breytingar á umræddum deiliskipulögum samhliða deiliskipulagi Arnarnesvegar. Almennt er gert ráð fyrir að skipulagsmörk liggi nálægt veghelgunarlínu Arnarnesvegar nema við Desjakór og Lymskulág þar sem mörkin eru nær sveitarfélagamörkum. Uppdrættir í mkv. 1:2000 og 1:1000 dags 13. desember 2021 ásamt greinargerð dags. 13. desember 2021.

Tillagan er sett fram á uppdrætti í mkv. 1:1000 ásamt greinargerð og skýringaruppdrætti dags. 13. desember 2021.

Ef óskað er eftir nánari upplýsingum um tillöguna er hægt að senda fyrirspurn á starfsfólk skipulagsdeildar á netfangið skipulag@kopavogur.is.

Streymisfundur- Tillaga að nýju deiliskipulagi Arnarnesvegar - 3. mars 2022 klukkan 17.
Tillaga að nýju deiliskipulagi Arnarnesvegar 3. áfanga verður kynnt á streymisfundi.
Deiliskipulagstillagan nær til hluta Arnarnesvegar, nýs vegar með tveimur akreinum í hvort átt, göngu- og hjólastíga, ásamt tveimur nýjum hringtorgum, frá gatnamótum Arnarnesvegar og Rjúpnavegar að fyrirhuguðum gatnamótum Breiðholtsbrautar og Arnarnesvegar og veghelgunarsvæða hans sem nær að jafnaði 30 metra út frá miðlínu vegarins.

Slóð á útsendingu: https://www.youtube.com/watch?v=uBgTBMCJ0U0

ATH. - Frestur til ábendinga og athugasemda hefur verið framlengdur til kl. 13:00 föstudaginn 11. mars 2022.

Kynning hefst þann 21. janúar 2021 og skal ábendingum og athugasemdum við framlagða tillögu skila skriflega til skipulagsdeildar, Digranesvegi 1, 200 Kópavogi eða með tölvupósti á skipulag@kopavogur.is fyrir kl. 13:00 föstudaginn 11. mars 2022. Eru þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta hvattir til að kynna sér tillögurnar.

Skipulagsfulltrúinn í Kópavogi.